Nú á ég 3. ára gutta (sem ég er ekki með forræði yfir) sem er á leikskóla. Stuttu fyrir jólin var hann og hinir ormarnir mínir hjá mér og við vorum öll inni í stofu. Ég var að setja leik inn í tölvuna hjá mér fyrir elstu ormana en hann var eitthvað að dunda sér fyrir aftan okkur. Þá heyrðum við allt í einu skaðræðisóp frá honum og þegar ég leit aftur sá ég 2 logandi eldspýtur á borðinu sem hann hafð náð í, kveikt á og brennt sig í hendinni. Ég hljóp auðvitað með hann strax undir vatsbunu og hélt honum þar í hátt í klukkutíma og kældi vel niður, setti svo vel utan um þetta og eftir stóð bara smá sár. Hann var að vísu duglegur við að segja að hann hefði sko ekki gert þetta sem er því miður ákaflega leiðinlegt hjá honum að vilja ekki viðurkenna neitt og er afskaplega duglegur að kenna systkynum sínum um allt.

Jæja nema hvað, helgin líður, hann fer heim til mömmu sinnar og síðan á leikskólann á mánudeginum. Þar tekur ein fóstran eftir þessu smá brunasári og spyr hann hvað hafi gerst. Þá á hann víst að hafa sagt að ég hafi brennt hann með eldspýtu. Það er farið með hann til leikskólastjórans og þar á hann víst að hafa sagt það sama. Í framhaldi af þessu og í samræmi við reglur leikskólanna er strax haft samband við barnaverndarnefnd til þess að athuga hvort þetta væri rétt hjá guttanum. Leikskólastjórinn sagði mér reyndar að það sem hefði gert útslagið með að senda þetta þangað var að ekkert hafði verið neitt áður, eðlilegt barn í alla staði, glaður og sprækur og aldrei sést neinir áverkar á honum fyrr (sumsé þetta var sent áfram afþví að það hafði aldrei verið neitt áður en ekki útaf einhverju öðru sem gæti bent til að barnið verði fyrir ofbeldi). Síðan gerðist ekkert og ég heyri fyrst um málið í fyrradag þega mín fyrrverandi hringir í mig og segist hafa fengið upphringingu frá barnaverndarnefnd þar sem væri verið að kanna grun leikskólans um að ég hefði verið að brenna barnið mitt viljandi. Hún kannaðist við málið og gat leiðrétt það við konuna sem hringdi (enda langt frá því að hún trúi einhverju svona uppá mig) og sennilega verður ekkert meira úr þessu máli. En þá kemur að bottom læninu. Ég er afskaplega sár og reiður yfir því að svona nokkru sé trúað uppá mig og er búinn að vera miður mín síðan þetta kom upp. Einnig er ég (ég er kannski voðalega gamaldags en..)afskaplega ósáttur við að barnaverndaryfirvöldum sé blandað í uppeldi barnanna minna, þó svo lítilvægt sé. Ég talaði við leikskólastjórann og vildi sjálfur meina að í svona tilfelli fyndist mér eðlilegast að leikskólinn byrjaði á því að tala við foreldrið sem er með forræðið yfir barninu ÁÐUR en leitað væri til barnaverndar yfirvalda. Hún sagði að það væru stífar reglur sem þeim væri settar að fara beint með svona hluti í barnavernd þar sem það gæti “skemmt” rannsókn málsins með því að tala fyrst við foreldrana.

Ég veit ekki…. ég er náttla voðalega skrýtinn… en mér finnast þessar reglur fáránlegar… og þó svo leikskólastjórinn segði að það væri verið að reyna að breyta ímynd barnaverndarnefndar þá er hún ennþá grýla í mínum augum og ég reyndar veit að hún mundi ekki vilja láta blanda barnavernd inní sín uppeldismál að óþörfu.

Jæja þá er mann búinn að koma þessu frá sér og gaman væri að vita hvað ykkur finnst um þetta.