Mikið rosalega er ég slegin yfir þessum fréttum af eldsvoðanum á Þingeyri. Ég er hreinlega búin að grenja og grenja yfir þessu. Varð bara hugsað til minna eigin barna og fæ sting í hjartað. Maður heyrir nú oft um eldsvoða en það er sjaldan að einhver láti lífið og hvað þá næstum heil fjölskylda. Mikið óskaplega hlýtur þetta að vera hræðilegt fyrir ættingja og vini þessa fólks og hvað þá litla stráksins sem missir þarna foreldra og lítinn bróður á svipstundu. Æ nú er ég bara aftur farin að gráta, Arna Valdís mín litla er einmitt á sama aldri og litli strákurinn sem dó. Nú fer ég og knúsa börnin mín og kallinn og tékka á öllum reykskynjurum.

Ég ræddi þetta lauslega við eldri dóttur mína í dag og lagði henni aðeins lífsreglurnar um hvernig maður ætti að bregðast við ef kviknar í. Ég vil ekki hræða hana með þessu, en samt finnst mér mikilvægt að hún geri sér smá grein fyrir hvernig á að bregðast við í svona aðstæðum, svo það séu aðeins minni líkur á að hún paniki bara ef eitthvað svona kemur fyrir. Allavegna töluðum við um að nr. 1 2 og 3 væri að koma sér út úr húsinu sem fyrst og að hún ætti EKKI að reyna að bjarga kettinum áður (sem væri nú alveg týpískt fyrir svona skottur að detta í hug). Svo ræddum við um leiðir sem hægt væri að fara til að komast út úr húsinu ef hún kæmist ekki út um dyrnar. Einnig hvernig hún gæti brotið glugga ef hún þyrfti og að hún ætti að nota sængina eða peysuna til að verja sig fyrir glerbrotum. Ég held að það sé ekkert vitlaust að segja krökkum svona aðeins frá hvernig best sé að bregðast við. Pabbi lagði okkur svona lífsreglur þegar ég var lítil og mér fannst ég alltaf svolítið öruggari með að vita svona aðeins hvað ég ætti að gera EF það skyldi kvikna í.
Kveðja,