Sælir Hugverjar! :)

Ég var að lesa greinina hennar Zalugi um dóttur hennar sem hefur sýnt vilja til þess að þekkja stafina og læra að lesa og fékk umsvifalaust stein í magann þegar ég hugsaði um það hverskonar móttökur þessi litla stúlka á eftir að fá í grunnskóla.

Sem nemandi á síðasta ári framhaldsskóla lít ég um öxl og horfi á óteljandi mánuði skólagöngu minnar sem töpuðust við gagnslaust dúll - barnagæslu. Nú mega lesendur ekki misskilja mig, ég ætla ekki að leggja það til að jólaföndur og söngstundir verði lagðar af - heldur eingöngu það að tíminn verði nýttur betur og að ungir hugir fái einnig verkefni sem reyna á þau og þjálfa námshæfileika þeirra.

Hvað varðar tungumálanám fara hæfileikar okkar til þess að læra tungumál minnkandi með aldrinum. Því yngri sem við erum þeim mun auðveldara er að læra tungumál og einnig er hægt að halda þessum hæfileika við með því að vera í sífellu að kynna sér framandi tungur. Því er það óbærilegt tjón að ekki sé hafin tungumálakennsla fyrr en börn eru orðin ellefu ára, þá eru nemendur búnir að glata svo miklu af þessum námshæfileikum.

Ég veit um kennara sem kenndi 8 ára börnum ensku og esperanto með góðum árangri en sú kunnátta glataðist mjög snöggt þegar þau fóru aftur að leira og föndra í 9 ára bekk. Hæfileikinn til þess að læra þetta er til staðar - hann er bara ekki nýttur.

Ekki er nóg með það að litlar kröfur séu gerðar til nemenda, heldur eru einnig mýmörg dæmi um að haldið sé aftur af þeim. Sjálf þekki ég dæmi um það að þegar nemandi lauk vinnubók strax í upphafi vetrar og afhenti kennaranum hana útfyllta brást hann hinn versti við og skyldaði barnið til þess að vinna hana aftur samhliða bekkjarsystkinum sínum og setti svokölluð stopp-merki hér og hvar um bókina. Fram hjá þeim mátti barnið ekki fara.

Skólakerfið miðar endalaust við meðalnemandann sem er ekki til. Helst er reynt að finna úrræði fyrir þá nemendur sem eiga í sérstökum erfiðleikum en reynt er að halda aftur af hinum með öllum ráðum. Kennarar kunna því illa ef nemendur rugla þeirra áætlunum og þurfa meiri aðstoð en aðrir, t.d. aukaverkefni. Því bregða margir hverjir á það ráð að bæla þess í stað niður áhuga þessarra barna til þess að þau séu til friðs. Þetta skapar auðvitað vandamál því ef börnin hafa ekkert að gera í tímum taka þau annað hvort upp á því að trufla aðra nemendur eða skólaleiði sest að í hugum þeirra og gæti orðið þeim til trafala alla þeirra skólagöngu.

Ekkert var mér kennt af viti fyrir utan það að læra að lesa og að þylja margföldunartöfluna fyrr en í 6. bekk grunnskóla þegar dönskukennsla hófst loksins. Ári síðar hófst svo enskukennsla sem markaðist af því að aðalnámsefni vetrarins virtist vera að kenna 12 ára börnum að telja upp á tíu á tungumáli sem hafði glumið í eyrum þeirra á hverjum degi árum saman. Svo liðu árin við vaxandi álag en þó var hægt að komast upp með að gera mest lítið til þess að fá mjög sómasamlegar einkunnir. Í framhaldsskóla kom það fólki í opna skjöldu hversu mikil vinna það var að halda sér í skólanum, hvað þá að fá góðar einkunnir. Nemendur sem voru alltaf með 9 og 10 á öllum prófum stóðu skyndilega frammi fyrir því að þurfa að endurtaka árið sökum lélegs námsárangurs.

Vissulega eru til góðir skólar og góðir kennarar, en mín reynsla er sú að fólk komi almennt illa undirbúið í framhaldsskólana úr grunnskólunum. Búið er að drepa niður námsáhuga og kenna fólki það að lítið þurfi að leggja á sig til þess að komast vel af.

Er ekki kominn tími til þess að þrýst verði á það að efla grunnskólakerfið? Að foreldrar taki höndum saman um að verða börnum sínum úti um betri menntun. Að vinna upp það forskot sem önnur lönd hafa á Ísland hvað varðar stúdentspróf. Vissulega eru framfarir í gangi en lengi má gott batna, það þarf frekari aðgerðir, meiri breytingar.

Ástarkveðja,

Lalage :)