Ég klambraði saman þessari litlu jólakisusögu í fyrra fyrir jólin og langaði að setja hana hér, ef einhver hefði áhuga á að lesa hana fyrir börnin sín/barnið sitt.

Binni er köttur og Villa er eigandi hans.

Fyrstu jólin hans Binna.

Binni litli lá makindarlega undir ofninum frammi á gangi og steinsvaf. Allt í einu hrökk hann upp og leit í kringum sig. Hvað gekk nú á? Hvað var hún Villa að brasa uppi á stól, gramsandi uppi í stóra skápnum?
Binni stóð upp, teygði úr sér og geispaði: “Míííjjjáááúúú!”
“Hæ, svefnpurrka,” sagði Villa brosandi, “þá er að undirbúa jólin, ertu ekki farinn að hlakka til, Binni?”
-Jóla-hvað?- hugsaði hann og starði á hana. -Ætli það sé eitthvað sem er geymt þarna uppi í stóra skápnum?-
Hann rölti upp að stólnum sem Villa stóð á og var að spá í að stökkva upp á hann til að sjá betur.
En þá steig Villa niður af stólnum, með stóran kassa í fanginu og gekk með hann inn í stofu. Binni elti hana forvitinn, með skottið beint upp í loftið.
Hann læddist að kassanum og þefaði af honum, en varð einskis vísari.
Þegar Villa loksins opnaði kassann, reis Binni upp á afturfæturna og lagði framloppurnar upp á kassabrúnina.
Það glaðnaði heldur betur yfir honum þegar hann sá innihald kassans.
-Vááá!- hugsaði hann æstur, -ætli allt þetta dót sé handa mér?-
Margar, mislitar, glitrandi kúlur og alls konar glitrandi bönd, sem virtust hreyfast í sífellu!
Litlar loppur teygðust ofan í alla þessa dásemd og gul augun tindruðu.
“Nei, Binni, láttu þetta vera!” æpti Villa og ýtti Binna greyinu hranalega niður.
-Hvað meinar hún eiginlega?- hugsaði hann vonsvikinn, -Til hvers er hún að sýna mér allt þetta og spyrja mig hvort ég hlakki ekki til? Ef þetta eru jólin, þarna í kassanum og ég má ekki snerta þau, þá má hún bara eiga þau ein.-
Hann fór út úr stofunni, sármóðgaður og fúll, með lafandi skott, gekk inn í eldhús og fékk sér vatnssopa að lepja og nokkur kisukex, bruddi þau ákaft og ímyndaði sér að hann væri með eitthvað af þessum fúlu jólum á milli tannanna.
Hvað það hefði verið gaman að fá að læsa klónum í eitthvað af þessum gullglitrandi jólaböndum og að leika sér meða fallegu jólakúlurnar á gólfinu!
-En svona er þetta stundum, Villa er svo eigingjörn á suma hluti, að ég má bara ekki koma nálægt þeim.-
Hann ákvað nú að fá sér bara aftur lúr, meðan Villa fengi að leika sér ein að jólunum í kassanum inni í stofu.
“Binni, komdu að borða!” glumdi allt í einu í eyrum Binna og hann stökk á fætur.
Honum varð litið upp í eldhúsgluggann á leiðinni að matarskálunum sínum.
-Ojæja, eitthvað hef ég sofið lengi, það er bara orðið dimmt úti, þá hlýtur þetta að vera kvöldmaturinn minn.- hugsaði hann með sér og rölti að skálunum. Þar rak hann í rogastans! Hvað var nú í gangi?
Nýjar, risastórar rækjur í annarri skálinni og þykkur rjómi í hinni! Hann sleikti út um.
-Nammi, namm, ætli Villa sé að bæta mér upp að ég fékk ekki að leika með henni áðan?-
Hann leit á hana og brosti ekta kattarbrosi, svo það skein í vígtennurnar.
“Gleðileg jól, Binni minn,” sagði Villa og klappaði honum mjúklega á kollinn.
-Já, já, jóla, jóla, bla, bla,- hugsaði Binni og tók hraustlega til matar síns.
Eftir að Villa og Binni voru búin að borða og Villa var búin að þvo upp diskana sína, kallaði hún á hann inn í stofu.
Fyrst var hann hikandi, -á nú að fara að freista mín aftur með þessum jólum…..hva!?- Hann snarstansaði og starði á þann fallegasta hlut sem hann hafði á ævi sinni séð.
Villa virtist hafa náð í eitt af trjánum sem uxu úti í garði og var búin að hengja öll jólin á það!
Svo var líka á trénu urmull af pínulitlum, marglitum ljósum, sem hann hafði ekki séð í kassanum fyrr um daginn.
Villa hló að undrunarsvipnum á Binna og beygði sig niður, tók hann í fangið og gekk með hann alveg að trénu. Það lá við að hann svimaði af allri þessari dýrð!
Nú setti Villa hann aftur á gólfið, teygði sig undir tréð, náði þar í skrítinn hlut, sem skrjáfaði í og lagði á gólfið fyrir framan hann.
Fyrst hörfaði Binni undan og þorði ekki að snerta hlutinn.
Það var ekki fyrr en Villa hafði sagt nokkrum sinnum:
“Svona nú, Binni minn, þetta er handa þér, jólagjöf frá mér, prófaðu að opna!” að hann þorði að rétta fram loppuna og pota í þennan undarlega hlut.
Hluturinn var hnöttóttur eins og jólakúlurnar, en með skrautlegur bréfi og svo var líka freistandi borði bundinn utanum.
Binni byrjaði að slá létt í borðann, sem fór að dilla til og frá, svo skrjáfaði og hringlaði svo skemmtilega í þessu öllu. Eftir smástund var hann kominn í svaka hasar með hlutinn um alla stofu, klóraði og beit og sló hlutinn fram og aftur.
Allt í einu tók hann eftir, sér til skelfingar, að hann var búinn að skemma þennan fallega hlut sem Villa var nýbúin að gefa honum, og nú bjóst hann við skömmum.
En, ekki aldeilis, nú sá hann að Villa virtist skemmta sér konunglega yfir þessu skemmdarverki, því hún hélt um magann og skellihló!
-Ætli hún sé orðin eitthvað rugluð?- hugsaði Binni og settist á skottið.
Þá hætti Villa að hlæja og teygði sig í skemmda hlutinn og reif restina af bréfinu utan af honum.
Og viti kettir!
Þarna blasti við skínand, eldrauður bolti með götum á, svo það sást í litla, silfurlita hringlu þar inni í!
-Vá! og aftur vá!- Binni stökk upp í sófann til Villu og reyndi að ná þessu djásni af henni, hún skyldi sko ekki láta sér detta í hug að hún sæti ein að þessu hér. Ónei, hún hafði sagt að þetta væri handa HONUM, og hana nú!
“Allt í lagi, litli jólaköttur, hér er þá boltinn þinn, gjörðu svo vel!” sagði Villa brosandi og lét boltann rúlla út á gólf.
Binni lék sér allt kvöldið með boltann sinn og þegar hann lagðist loksins niður seinna um kvöldið, dauðþreyttur, en alsæll, þá hugsaði hann með sér:
-Jæja, þótt ég mætti ekki snerta jólin hennar Villu, þá fékk ég bara eitt í staðinn, sem er ennþá betra. Fallega, rauða hringluboltann minn.
Hann heitir JÓLI!