Í einhverri umræðunni við annarri grein hér á Börnin okkar kom fram, að mér finnst, mjög merkilegt og svolítið óhuggulegt viðhorf. Þetta viðhorf snerist um það að við ættum ekkert að vera að eyða orkunni í að hafa áhyggjur af því hvað aðrir eru að gera við börnin sín því þá gerðum við ekki annað. Ég spyr nú bara, hugsa flestir svona? Nú er ég ekki að tala um að við eigum að skipta okkur af hverju einasta smáatriði í því hvernig náunginn elur upp börnin sín, heldur er ég að tala um hvort við eigum bara að líta fram hjá því þegar fólk vanrækir börn sín eða beitir þau ofbeldi í einhverju formi. Finnst ykkur það eðlileg hugsun?

Mér finnst það þvert á móti vera skylda okkar að skipta okkur af svona málum, t.d. þegar fólk spennir ekki belti á börnin sín í bíl. Þetta myndi ég hiklaust flokka undir vanrækslu, rétt eins og ég flokka það sem vanrækslu að tryggja ekki að barnið fái nóg að borða eða sé klætt nógu vel (þá er ég ekki að tala um flott föt heldur einfaldlega að barnið sé klætt eftir veðri og hitastigi). Ég get fullyrt að ef mig grunaði vanrækslu eða ofbeldi gagnvart barni þá myndi ég hringja í barnaverndarnefnd og láta þá vita af grun mínum svo þeir gætu kannað málið. Reyndar er okkur samkvæmt lögum skylt að gera þetta, en orðrétt stendur í lögunum:

“Hverjum, sem verður þess vís að barni sé misboðið, uppeldi þess sé vanrækt eða aðbúnaði þess svo áfátt að barninu geti stafað hætta af, er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd þar sem barnið dvelst.

Annars er hverjum manni rétt að gera barnaverndarnefnd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að barnaverndarnefnd eigi að láta sig skipta.”

Mér finnst það engin tímasóun eða óþarfa orkueyðsla að spá aðeins í þetta. Börn eru litlir sakleysingjar sem ráða engu um hver það er sem ber ábyrgð á þeim. Ef almenningur skipti sér ekki af er ég viss um að enn tíðkaðist barnaþrældómur (ódýrt vinnuafl), ofbeldi væri viðurkennt og álitið eðlilegtur hlutur uppeldis og börn væru bara álitin eign forráðamanna sinna, en ekki litlir einstaklingar.
Kveðja,