Það er óhætt að segja að ekkert sé öruggt í þessum heimi. Það sannast vel á því sem mér var sagt í gær.
Vinkona mín hringdi í mig í gærkvöldi til að spjalla. Þá sagði hún mér að dóttir hennar, sem er átta ára, er ásamt jafnöldrum sínum í kristilegum hóp einu sinni í viku. Í gær voru hún og tvær vinkonur hennar að koma heim úr þessu starfi þegar skelfingin hófst.
Það var hringt af miklum ákafa á útidyrabjölluna hjá vinkonu minni. Hún flýtti sér til dyra að gá hvað gengi á. Þegar hún opnaði stóð dóttir hennar fyrir utan dyrnar lafmóð og hágrátandi. Þær vinkonurnar voru að labba heim saman og þegar þær voru komnar nokkuð vel áleiðis þá birtust allt í einu tveir menn með grímur á andlitunum og reyndu að lokka þær til sín með nammi. Þær reyndu að herða gönguna til að losna frá þeim en þeir eltu þær. Þá var eina ráðið að taka til fótanna og hlaupa heim. Þetta var fyrir kvöldmat, svo þeir eru á ferðinni á daginn þessir kappar. Það eina sem þær gátu sagt um þessa menn var í hvaða lit bíllin þeirra var. Það er því ekki líklegt því miður að þeir náist. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist þarna í nágrenni þeirra. Það var held ég í fyrravetur sem maður var að keyra um rétt við skólann og reyna að fá börn til sín upp í bílinn. Sagðist skildi keyra þau heim svo þau þirftu ekki að labba. Liturinn á þeim bíl var sá sami og á þessum sem þær sáu svo ætli það sé ekki sami náunginn. Það er ógeðslegt til þess að hugsa að svona menn skuli geta verið á ferðinni og það oftar en einu sinni nærri skólum til að finna sér fórnarlömb. Ég segi ekki annað en að ég hugsa um þetta með hryllingi og þakka Guði fyrir að mitt barn er ekki í þessum skóla. Ég vona bara að þeir geti ekki platað nein börn, því ég veit að það var talað vel við þau síðast þegar bíllinn var á ferðinni og útskýrt fyrir þeim hvað þetta væri.
Varð að segja ykkur frá þessum hryllingi.
Kveðja Bomba