Hvað segja stjörnumerkin um barnið þitt?? Fannst þetta eiga heima hérna því hér finnuru hvað stjörnumerkin segja um börnin ykkar. Það er margt sniðugt að finna á barnaland.is

Marga foreldra fýsir að vita hvað stjörnurnar segja um nýfædda barnið. Verður þetta lítill ólátabelgur eða rólegasta barn? Verður barnið skapstórt og ákveðið eða feimið og hlédrægt?
Stjörnuspár ber að lesa sem dægradvöl. Spár af þessu tagi eru ekki byggðar á traustum vísindalegum grunni. Góða Skemmtun!

HRÚTURINN 21. mars – 19. apríl
Rambó leikfélaganna er mættur á svæðið. Með barn í hrútsmerkinu mega foreldrar búast við miklu fjöri á heimilinu því það ríkir engin lognmolla í kringum hrútinn. Ekki ætlast til þess að barnið sitji kyrrt með hringlu. Þetta er barnið sem veifar þér ofan af hæsta tré, alls óhrætt við að taka áhættu. Hrútsbarnið er allt annað en hljóðlátt og lætur oft vel í sér heyra. Sem eldsmerki er hrúturinn orkumikill og hefur ávallt eitthvað fyrir stafni. Verður erfitt að ráða við litla hrúta? Það er líklegra en ekki. Foreldrar ættu eins fljótt og hægt er að kenna þessu barni að vinna með öðrum börnum. Að deila einhverju með öðrum er eitthvað sem kemur ekki af sjálfu sér – það þarf að kenna litlum hrútum. Þeir eru einnig ákaflega tapsárir. Þeir þrá athygli og eiga mjög auðvelt með að verða sér úti um hana með ýmsum aðferðum. Hrútar eru fæddir leiðtogar og ef þú ætlar að hafa eitthvað að segja er betra að láta þá vita með afgerandi hætti hver er við stjórnvölinn því annars er eins líklegt að stjórnin verði tekin úr þínum höndum. Lítill hrútur er oft eins og ótemja, lítið gefinn fyrir að hlýða reglum og vera þægur nema þegar honum hentar. Vegna þess hve hann er orkumikill er nauðsynlegt að hann fái mikla hreyfingu. Hann verður að fá að hlaupa um og róta til heima hjá sér. Ef hann fær ekki útrás fyrir orkuna verður hann pirraður og ergilegur. Honum líður best í lifandi og fjörugu umhverfi. Þar sem fljótfærni og óþolinmæði eru meðal veikleika hans þarf að kenna honum að hægja á sér og telja upp að tíu áður en hann rýkur af stað. Einnig þarf að venja hann á að ljúka því sem hann byrjar á.

NAUTIÐ 20. apríl – 20. maí
Foreldrar barns í nautsmerkinu þurfa að vera næm á mikla þörf þess fyrir snertingu. Þetta eru bestu knúsarar í heimi. Besta aðferðin til að ná til lítilla nauta er að höfða til skynsemi þeirra og tilfinninga. “Elsku litla stelpan mín, viltu gera þetta fyrir mömmu?” Fá naut standast nefnilega blíðu. Þægindi er eitthvað sem nautið vill. Notalegt herbergi þar sem hvorki er of heitt eða kalt, bragðgóður matur, falleg leikföng er eitthvað sem fellur nautinu í geð. Börn í nautsmerkinu eru frekar róleg og friðsöm og yfirleitt fer kannski lítið fyrir þeim. Það borgar sig ekki að reka á eftir þeim með hluti því þau vinna á sínum eigin hraða, sem er annar en gengur og gerist. Nautið er með báða fætur á jörðinni og vill vera öruggt um að hvert skref sem stigið er sé rétta skrefið. Ef rekið er á eftir því verður það óöruggt. Það borgar sig ekki til að fá litla bolann til að hlýða með skipunum eða skömmum því nautin eru þrjósk með eindæmum og sá eiginleiki sýnir sig vel þegar slíkt er reynt. Það getur verið erfitt að eiga við nautsbarnið þegar það hefur bitið eitthvað í sig og heimtar eitthvað sem gengur þvert á vilja foreldranna. Best er þá að setjast niður með bola litla og reyna að útskýra af hverju betra sé að gera þetta eða hitt, þ.e. höfða til skynseminnar. Rökin þurfa að vera skynsamleg og nautið þarf að fá tíma til að hugsa málið. Ef nautið er af rólegu gerðinni er vissara að ræða reglulega við það og fá það til að tjá sig og vinna þannig hægt og sígandi gegn feimni þess og hlédrægni. Naut þarfnast þess að vera í öruggu umhverfi og vita við hverju er að búast þannig að mikilvægt er að foreldrar séu sjálfum sér samkvæmir gagnvart því.

TVÍBURARNIR 21. maí - 21. júní
Óþolinmótt eftir að hefja leikinn er líklegt að tvíburabarnið hafi sparkað duglega í móðurkviði. Tvíburabörn eru líkleg til að byrja snemma að tala og þau segja sína skoðun frá byrjun. Þau eru mjög forvitin í eðli sínu og þurfa því alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Þau eiga mjög erfitt með að sitja kyrr og eiga mjög erfitt með að þegja. Athyglin beinist stöðugt að nýjum viðfangsefnum en áhuginn hverfur oft mjög fljótt. Tvíburarnir þurfa mikla örvun og hyggilegt er að leikföng þeirra séu margvísleg og vitsmunalega þroskandi, svo sem púsluspil og þrautir af ýmsu tagi. Því fyrr sem tvíburabarnið kemst í hóp annarra barna því betra því tvíburarnir elska félagslíf enda hafa þeir mikla samskiptahæfileika. Líf og fjör er tvíburum að skapi. Yfirleitt er tvíburinn bráðþroska vitsmunalega og því nauðsynlegt að sinna þessum þætti í uppeldinu með því að reyna að svara t.d. spurningum hans (þær eru reyndar oft ansi margar) og ræða við hann. Litlir tvíburar eru oft stríðnir og hrekkjóttir en það ber ekki að taka of alvarlega því yfirleitt er meiningin ekki slæm. Hann grípur oft til prakkarastrika til að hrista upp í umhverfinu því hann hefur ríka þörf fyrir tilbreytingu.

KRABBINN 22. júní - 22. júlí
Börn í krabbamerkinu eru oft mjög viðkvæm og foreldrar mega búast við að mörg tár muni falla í bernsku. Þau hafa því ríka þörf fyrir hlýju og snertingu auk þess sem öryggi skiptir þau gríðarlega miklu máli. Líf þeirra þarf að vera í föstum skorðum og umhverfið gott. Foreldrar barna í krabbamerkinu ættu ekki að rífast mikið í þeirra návist því þau taka allt mjög nærri sér og eru oft lengi að ná sér á strik eftir áföll. Krabbar byrgja oft tilfinningarnar inni og því er mikilvægt að tala við þau um tilfinningar. Dæmigert krabbabarn man alla tíð eftir því þegar það týndist í Hagkaup í tvær mínútur og tekur því sem höfnun. Krabbinn er oft mislyndur og misjafn í skapi, ýmist hress og jákvæður eða þungur og dregur sig inn í skel. Hann er oft rólegur og hlédrægur en getur gosið upp annað slagið vegna þess hve viðkvæmur hann er. Það þarf að umgangast hann af nærgætni og það er ekki sama hvað sagt er við hann og hvernig. Hann tekur margt nærri sér og er móðgunargjarn. Hann er gjarn á að geyma gremjuna innra með sér og láta á engu bera á yfirborðinu. Foreldrar þurfa því að hvetja litla krabbann til að segja frá því sem honum mislíkar. Mestu skiptir að skapa krabbanum öruggt heimilislíf, veita honum hlýju og gefa honum kost á að tjá tilfinningar sínar, t.d. með því að leyfa honum að eiga gæludýr.

LJÓNIÐ 23. júlí - 22. ágúst
Konungurinn í frumskóginum er mættur og vill einmitt vera meðhöndlaður í samræmi við tign sína. Litla ljónið þarfnast athygli (við erum að tala um að vera alltaf miðdepill athyglinnar!) og vill láta taka eftir sér og láta dást að sér. Það getur verið mikil vinna að eiga börn í ljónsmerkinu. Börnin eru oft hávaðasöm og mjög opin í tjáningu. Ef barnið er ánægt er það yndislegasta og fallegasta barn í heimi en ef það er óánægt öskrar það og lætur öllum illum látum. Heimilislífið kemur til með að snúast mikið í kringum kraftmikinn ljónsungann sem getur verið mjög stjórnsamur og frekur. Það þýðir ekki að segja ljóninu að læðast meðfram veggjum því slíkt er andstætt eðli þess og er ekki til annars en að brjóta það niður. Vingjarnleg ákveðni er það sem dugar best. Ljónið er merki stjórnunar og foreldrar þurfa að virða þörf þess fyrir persónulegt sjálfstæði og því er gott að fela því snemma ábyrgð. Mikilvægt er að kenna því að taka tillit til annarra. Það þarf að taka tillit til þess í uppeldi að ljónið er einstakt og veita því athygli, hvatningu og ekki síst að hrósa því þegar það hefur gert eitthvað jákvætt.

MEYJAN 23. ágúst - 22. september
Hér er kominn einstaklingur sem vill hafa hlutina í röð og reglu og er mjög íhaldssamur. Litla meyjan er að öllu jöfnu auðveld í umgengni, samviskusöm, dugleg og hlýðin en oft á tíðum alvörugefin. Skynsemi meyjarinnar kemur yfirleitt fljótt í ljós og ef kæruleysi er ríkjandi í kringum hana er ekki ólíklegt að hún fari að siða fólk til í kringum sig og hafa vit fyrir því. Hún byrjar snemma að hjálpa til á heimilinu og er oft mjög handlagin. Hún er yfirleitt ekki mikið gefin fyrir að draga athyglina að sér og lítil meyjubörn geta oft haft ofan af fyrir sér sjálf í langan tíma. Foreldrar þurfa að draga fram hið jákvæða því litlar meyjur hafa oft áhyggjur af því að hlutirnir séu ekki nægilega vel gerðir. Því þarf að hjálpa þeim að sjá bjartari hliðar tilverunnar og læra að trúa á eigin getu. Ekki er verra að ýta undir skopskyn þeirra.

VOGIN 23. september - 23. október
Börn í vogarmerkinu eru oft glaðleg og broshýr og eru oftar en ekki börnin sem fá bros frá hinum sem bíða á biðstofu læknisins. Þau eru sjarmerandi og heilla aðra upp úr skónum. Félagslyndi einkennir vogina frá fyrstu tíð og litla vogin elskar að hafa margt fólk í kringum sig. Vogarbarn sem þarf að búa við einangrun getur orðið geðstirt, innhverft og óöruggt en þegar allt leikur í lyndi er það opið og hresst. Vogin á mjög erfitt með að gera upp hug sinn og virðist oft hafa lítinn viljastyrk. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar hjálpi voginni að rækta með sér sjálfstæði og ákveðni meðal annars með því að fela henni ákveðin verkefni sem reyna á ákvarðanatöku. Líklegt er að Vogin spyrji álits og því er hægt að svara með því að spyrja: “Hvað finnst þér?” Síðan þarf að gefa henni næði til að vega og meta hlutina áður en hún tekur ákvörðun. Vogin er listræn í eðli sínu og mikilvægt að hlúa að þeim eiginleikum og skapa henni aðstöðu til að þroska listræna hæfileika sína.

SPORÐDREKINN 24. október - 21. nóvember
Þegar barn í sporðdrekamerkinu lítur dagsins ljós beinast öll augu að því. Og barnið heldur þeirri athygli í langan tíma því það þarf mikla athygli. Foreldrar mega búast við því að heyja valdabaráttu við litla sporðdrekann því hann ætlast oftar en ekki til þess að pabbi og mamma séu boðin og búin þegar hann þarfnast einhvers (ekki 5 mínútum síðar). Þetta er kraftmikið barn og foreldrar þurfa að vera á verði því þau eru snillingar í að fá fólk til að snúast í kringum sig og nota til þess alls kyns kænskubrögð. Uppeldi sporðdrekans getur skipst í tvö horn því þó hann sé ráðríkur, skapstór og þrjóskur getur hann einnig verið blíður og elskulegur. Það borgar sig ekki að skipa honum fyrir eða ætla að ráðskast með hann. Þó slíkar uppeldisaðferðir séu óhentugar fyrir öll börn geta afleiðingarnar orðið sérstaklega slæmar þegar sporðdrekinn á í hlut. Hann getur lokað á umhverfið, dregið sig inn í skel og orðið stífur og jafnvel árásargjarn. Foreldrar þurfa að fylgjast með tilhneigingu litla drekans til að byrgja inni reiði. Best er að fá hann til að opna sig með því að tala við hann í ró og næði. Sporðdrekar eru mjög næmir á umhverfi sitt og því er mikilvægt að umgangast þá með varúð og hreinskilni. Sporðdrekanum er illa við yfirborðsmennsku og fals og missir auðveldlega álit á þeim sem ekki koma heiðarlega fram við hann.

BOGMAÐURINN 22. nóvember - 21. desember
Lítill fjörkálfur hefur litið dagsins ljós. Bogmannsbarnið er að öllu jöfnu glaðlegt og jákvætt og þægilegt í návist. Það þarf mikla hreyfingu og líklegt er að það fari snemma að ganga og skoða heiminn því bogmaðurinn er merki ferðalaga og strax í bernsku birtist þörfin fyrir ævintýraferðir af ýmsu tagi. Litlu bogmannskrílin þurfa að hafa gott pláss til að hreyfa sig en ef þau fá ekki útrás fyrir orku sína verða þau eirðarlaus og uppstökk. Bogmenn hafa yfirleitt yndi af íþróttum og hið dæmigerða bogmannsbarn er iðulega á kafi í alls konar íþróttaiðkunum. Listin að ala upp bogmann er fólgin í því að finna jafnvægi á milli frelsisþarfar annars vegar og ábyrgðarkennar og aga hins vegar. Foreldrar ættu að veita honum aðhald og venja hann á að ljúka því sem hann er að fást við áður en hann byrjar á nýju verki. Hann á það til að vera mjög fljótfær og nokkuð kærulaus og því þarf að hjálpa honum að þroska með sér dómgreind og skynsemi. Bogmannsbarnið verður mikið á ferðinni og um leið og það fer að komast sjálft ferða sinna leggur það í ferðalag um nágrennið og síðan lengra þannig að það getur verið erfitt að hafa stöðugt augun á þessu barni. Góða ferð.

STEINGEITIN 22. desember - 19. janúar
Steingeitin er alvarlegasta stjörnumerkið og oft er sagt að hún fæðist gömul og verði yngri eftir því sem árin færist yfir. Steingeitin er vel skipulögð og er ung að árum farin að taka þátt í rekstri heimilisins. Hún á stundum erfitt með að hafa gaman af lífinu og ekki er ólíklegt að barnið þitt velji frekar að raða fötunum sínum í skápinn en að fara út að leika. Mikilvægt er að foreldrar kenni börnum sínum að það er í lagi að slaka á og leika sér og að fullkomnun er ekki einungis ómöguleg heldur einnig mjög ópraktísk. Steingeitin er haldin fullkomnunaráráttu og óttast fátt meira en að missa sjálfsstjórn og þar með tök á tilverunni. Hún verður mjög óörugg ef hún hefur ekki gamalgrónar reglur og hefðir til að styðjast við og ef þær eru ekki til staðar er hún fljót að búa til reglur sjálf. Börn í steingeitinni eru mjög athugul, skynsöm og metnaðargjörn og dæmigerðar geitur vita allra merkja fyrst hvað þær ætla sér í lífinu. Mikilvægt er að kenna steingeitinni að tjá tilfinningar sínar, slaka á og sjá bjartari hliðar tilverunnar og ekki síst að ýta undir skopskyn hennar.

VATNSBERINN 20. janúar - 18. febrúar
Vatnsberabarnið fer fljótt sínar eigin leiðir hvort sem það er í fataburði, hugsun eða hegðun. Það er uppfinningasamt, frumlegt og fullorðinslegt og lærir snemma að tjá sig og skila heim fullorðinna. Litli vatnsberinn vill sjá um sig sjálfur og fara sínu fram og er oft á tíðum mjög dramatískur. Ef honum leiðist gæti hann átt það til að stofna til vandræða bara til að fá spennu og drama inn í líf sitt. Besta uppeldisaðferðin er fólgin í umræðu og skynsamlegum fortölum. Vatnsberinn er þrjóskur og lítið þýðir að skipa honum fyrir eða beygja hann til hlýðni með skömmum. Best er að koma fram við barnið sem vitsmunalegan jafningja því vatnsberinn er hugarorkumerki og því skipa umræður og skynsamlegar fortölur fyrsta sæti. Vatnsberabörnin geta sýnt ást og væntumþykju á frekar ópersónulegan hátt. Þau eru yfirleitt vingjarnleg og yfirveguð en ekki mjög tilfinningasöm og oft illa við mikið kjass.

FISKARNIR 19. febrúar - 20. mars
Hið dæmigerða fiskabarn er yfirleitt hæfileikaríkt og vel gefið en viðkvæmt og ekki ólíklegt að það missi stjórn á tilfinningum sínum og bresti í grát af engri sjáanlegri ástæðu. Fiskar eru gjarnir á að fórna sér fyrir aðra. Mikilvægt er að fara varlega að fiskunum og varast að særa tilfinningar þeirra með vanhugsuðum orðum. Fiskar eru mjög skapandi og þeir geta skapað sinn eigin heim þar sem þeir finna til öryggis þegar hinn harði heimur reynist þeim ofviða þá flýja þeir inn í sinn eigin. Því er mikilvægt að hvetja litla fiskinn til að koma út úr skel sinni og takast á við lífið, hvetja hann til að segja skoðun sína hreint út. Foreldrar ættu einnig að hlúa að listrænum hæfileikum barnsins ef þeir koma fram. Fiskurinn er í eðli sínu vingjarnlegur og skilningsríkur en jafnframt umburðarlyndur. Hann á t.d. erfitt með að trúa nokkru misjöfnu um aðra og er því alltaf jákvæður í fyrstu gagnvart ókunnugum.


Kveðja
palinas
<img src="