Ég skrifaði grein hérna fyrr í mánuðinum um hvernig væri að búa í Danmörku með barn.
Í greininni voru taldir upp ýmsir kostir en engir ókostir og þar sem greinin fékk nánast engin viðbrögð þá ætla ég ekki að benda neitt á ókostina (sem átti að fara í grein númer tvö). En þessi grein er ekki um uppeldi í DK. Hún er um son minn sem er tvítyngdur eins og það er kallað ef börn tala tvö tungumál en mig vantar smá ráðleggingar af því núna er hann orðinn 2ja og hálfs árs og er ekki ennþá farinn að mynda setningar, bara stök orð.
Hann kann orðin bæði á íslensku og dönsku en heima fyrir heyrir hann enga dönsku af því allar bækurnar hans, videospólurnar og kassetturnar eru á íslensku. Við foreldarnir tölum náttúrlega saman á íslensku og eins við barnið. Á leikskólunum er töluð danska að sjálfsögðu en einn uppeldisfr. kann grunnorðin í íslensku og getur líka talað við hann þar.
Börn vinkvenna minna (á Íslandi) sem eru á svipuðum aldri og minn eru flest orðin altalandi og ég var farin að halda að hann væri e.t.v heyrnarskertur en það er allt í lagi með heyrnina og stundum samkjaftar hann ekki en því miður er illskiljanlegt það sem hann er að segja (þetta er hvorki íslenska né danska heldur orð sem hann virðist hafa búið til sjálfur).
Er eitthvað hægt að gera með svona tvítyngd börn eða er þetta alveg eðlilegt að hann sé svona lengi að byrja að tala?
Ég les alltaf fyrir hann á kvöldin og svo er hann duglegur að horfa á íslensku videospólurnar sínar þannig að ég botna ekki í neinu af hverju hann hefur ekki meiri orðaforða.
Kv,
Pernilla