Hér á landi hefur nú ekki tíðkast að börn noti sérstaka skólabúninga, en víða erlendis er þetta mjög algengt. Þegar ég var krakki fannst mér hugmyndin um skólabúninga alveg fáránleg, en ég er ekki jafnviss lengur.

Við vitum öll að föt eru mjög miklivæg varðandi það hvernig aðrir sjá okkur og meta. Í skólanum eru sumir sem eru alltaf í flottum fötum, sumir eru í töff fötum og þora að klæða sig öðruvísi, og svo eru þeir sem kunna bara ekkert að klæða sig og eru alltaf í hallærislegum fötum. Svo eru líka sumir sem hafa bara ekki efni á flottum fötum þótt þeir gjarnan vildu klæðast þannig. Krakkar geta verið ansi grimmir gagnvart skólafélögunum og margir hafa eflaust orðið fyrir stríðni og einelti vegna útlitsins og þar skiptir klæðaburður mjög miklu. Með skólabúningum er þessi mismunur jafnaður út, þá eru bara allir í eins fötum hvort sem viðkomandi er ríkur eða fátækur, hefur fínan fatasmekk eða ekki. Þetta er sá kostur sem ég sé helst við skólabúningana. Annar kostur er sá að það þarf ekki lengur að vera að vandræðast með að kaupa ný “skólaföt” fyrir krakkann á haustin og hafa áhyggjur af því að þurfa að eyða tugum þúsunda í einhver tískuföt svo að barnið manns falli nú í kramið (á kannski helst við um eldri börn og unglinga). Jú eflaust myndi skólabúningur kosta eitthvað en þetta einfaldar málið mjög mikið auk þess sem þessi föt væru eingöngu notuð í skólanum og slitnuðu þvi ekki jafnfljótt.

Ég get líka alveg séð ókost við skólabúninga. Þannig búningar eru yfirleytt með einu sniði sem kannski hentar ekki vaxtarlagi allra; ég held að það væri erfitt fyrir þykka unglingsstelpu að neyðast til að vera í ólögulegu pilsi sem engan vegin passar hennar vaxtarlagi þó að mjónurnar í bekknum væru voða smart í þessu. Annað sem mætti gagnrýna er að með skólabúningum erum við að setja einstaklingnum ákveðnar frelsisskorður, þ.e. frelsið til að klæða sig eins og maður sjálfur vill, og við vitum að margir nota fötin til að tjá sig (hér á þetta aftur frekar við um unglinga heldur en yngri börn).

Niðurstaðan: Ég er ekki viss hvort mér finnst það betri eða verri kostur að nota skólabúninga. Reynar er þetta held ég ekkert á döfinni í íslensku skólalífi en umræðan hefur þó komið upp. Ég hugsa að ég myndi ekki mótmæla ef ákveðið yrði að taka upp skólabúninga, en ég ætla heldur ekki að berjast sérstaklega fyrir þeim.
Kveðja,