Margar á ég minningarnar úr æsku. Flestar vekja upp kátínu, en aðrar ekki. Hér kemur ein.

Kvöld eitt er ég var sjö ára fór ég með mömmu niður í Tröð til hennar ömmu Betu. Þá lagði amma á borðið fyrir mömmu kaffibolla og hellti í rjúkandi kaffi. Kom með kökur á bakka og setti fyrir hana segjandi: Elskan mín smakkaðu nú á þessu. En við mig mænandi á kökurnar sagði hún:

Ég býð þér ekkert!

En skyldi amma hafa sagt þetta af því að hún vissi að við fjölskyldan höfðum farið fyrir stuttu síðan í afmæli inn að Hlíð til Dóru systur pabba. Sem þá hélt mikla veislu og bar á borð allskonar kökur að hætti Hnallþóru, rjómatertur og rjómapönnukökur svo hnausþykkar að varla héldust milli fingra. Með þessu heitt kakó, rjóma og mjólk að borðið svignaði.

Beið ég þá ekki boðanna og tók svo hressilega til við kræsingarnar, og hámaði í mig með báðum höndum terturnar og pönnukökurnar, svo ég stóð á blístri og varð mér og fjölskyldu minni auðvitað til háborinnar skammar en hætti þó ekki fyrr, en að systir mín sem sat mér við hlið kleip mig í lærið undir borðinu og gaf mér reiðilegt augnaráð um leið og hún hvíslaði að mér:

Það er aldrei hægt að bjóða þér neitt!

Kveðja, hafeng.