Núna eru jólin á næsta leiti og ég var svona að pæla hvernig lífið gengur fyrir sig á ykkar heimili, hvernig hefðir þið eruð með, eitthvað sem börnin hlakka til að gera og bíða spennt eftir og þessháttar.

Í desember þá breytist ég sjálf í smábarn, nota samt jólabarn yfir það, það er svo miklu flottara ;) Ég þarf að hafa mig alla við að bíða eftir að setja jólatréð upp á Þorláksmessu. Ég skreyti mikið með ljósum (seríum) og lifandi ljósum og nota þá helst sprittkerti til að kveikja nú ekki í því börnin eiga það til að gleyma sér í spenningnum og eins og þið munið þá er ég jólaBarn :)

Þessu hef ég smitað í mínar stelpur, 1 des byrjum við að hlusta á jólalög og skreyta smám saman, það var undantekning þetta árið af því að aðventan var svo snemma.
Ég er með heila serimóníu þegar við kveikjum á aðventukerti og syng hástöfum “við kveikjum einu kerti á” versta er að ég kann bara þessa einu setningu híhí ;)

Á hverjum degi horfum við á Jesús og Jósefínu og þá er ég búin að kveikja á fullt af kertum, ég taldi þau eitt skiptið og þau voru 38, mín yngsta stelpa sagði við mig að ég ætti að heita kertasníkir hehe ;) Ég reyni að búa til stemningu yfir þessu öllu, banna allt stress í desember og lét dömurnar mínar vita að það væri bannað að skreyta heima hjá sér geðvondur, þið vitið þegar þið eruð búin að setja seríuna langleiðina upp og þá dettur hún öll niður og svona, getur gert mann gráhærðan, þetta gerðist nokkrum sinnum hjá mér, skrítið hvað ég endurtók oft “bannað að skreyta heima hjá sér geðvondur” ætli ég hafi ekki verið að tala við sjálfa mig en ekki að kenna stelpunum þetta, en þetta hafðist allt á endanum án þess að ég hárreitti mig ;)

Næst á dagskrá er svo að skreyta tréð, þá er konfekt sett á borðið og jólalögin spiluð aftur og aftur og allir skreyta saman og yfirleitt endum við með ofskreytt jólatré sem er að bugast undan öllu þessu skrauti og svo setjum við þá pakka sem komnir eru til okkar undir tréð, megnið af pökkunum fáum við þó á aðfangadag.
Kærastinn breytist í jólasveinn á aðfangadag og keyrir út pökkum, væri nú kannski sniðugt að troða sér bara með þetta árið, yfirleitt er ég stödd inn í eldhúsi að elda (troða í mig konfekti) segist allavegana vera að elda ;)
Rétt fyrir sex stilli ég útvarpið á gömlu gufuna og hækka í botn og bíð eftir jólaklukkunum, stekk svo á alla sem fyrir mér verða þegar bjöllurnar hringja hálf grenjandi og góla “Gleðileg Jól”.

Þegar allir eru búnir að borða og við skötuhjúin búin að vaska upp þá er farið í að opna pakka, þegar það er búið þá er haldið af stað til mömmu og pabba og svo til tengdó og svo kem ég rúllandi heim prumpandi eins og svín með konfekt vellandi út úr eyrunum á mér ;)

Á jóladag og annan í jólum eru jólaboð og alltaf er étið jafn mikið.

Ég vil endilega að mínar dætur haldi í þessar hefðir því ekkert er yndislegra en jólin. :)
Kveðja