Eitt af stóru vandamálum hins vestræna heims, er óhlýðni og sjálfselska. Þar eiga börnin okkar orðið stóran þátt. En ekki vegna þess, að þau séu svo slæm. Heldur að það er afleiðing hins frjálsa neysluþjóðfélags, sem þau alast upp í. Þar sem þau eru mötuð á því, í gegnum auglýsingar, kvikmyndir, tónlist og tölvuleiki, að þau eigi allt skilið og að það sé bannað að banna.
Þau geti því krafist alls þess sem er í boði og hugurinn girnist. Og ekki nóg með það, auglýsingarnar eru látnar höfða til barnanna, þó þær séu ætlaðar fullorðnum, svo að börnin geti sagt: “Mamma! Pabbi! Kaupið þið þetta.”
Enda er ástandið orðið svo slæmt í lífskapphlaupinu, að enginn sættir sig við neitt, nema það, að eiga allt til alls, og án þess að hafa unnið fyrir því. Enda er peningahyggjan og gróðavonin farin að tröllríða öllu. Og birtist helst í formi vonar um skyndigróða og drauma um lottóvinninga. Og þess vegna eru börnin, jafnvel ósjálfrátt, farin að standa upp í hárinu á foreldrum sínum. Og sum ganga svo hart fram, að manni blöskrar.
Þetta skapar svo spennu í fjölskyldum og í kjölfarið kemur friðleysi. Og það versta við þetta er, að börnin eru farin að halda að þetta eigi að vera svona.
Þetta er líka orðið stórt vandamál t.d. í grunnskólum landsins. Og þar víða svo komið, að kennarar þora ekki að aga nemendur, ef þau gerast baldinn.
Ég heyrði sem dæmi í kennara í sjónvarpi, sem sagði; að nemendur hefðu oft haft í hótunum við hann. Þetta er því orðið sjáanlegt vandamál, óhlýðnin, og hennar fylgifiskur er ætíð sjálfselskan og hennar systir eigingirnin. En er til einhver lausn á þessum vanda? Skoðum það.
Maðurinn er ekki bara hold og blóð, og það sem hann borðar, heldur er hann líka andlegur, sem þýðir að hann hefur innri vitund. Og þaðan stjórnast allar okkar tilfinningar.
Það er því heldur ekki nóg, að hafa hraustan líkama, ef sálarástandið er bágborið. Mönnum líður þá eins og handrukkurum. Líkaminn og sálin verða því að vinna saman samkvænt þessu lífslögmáli.
Læknavísindin eru líka farin að taka þetta með í reikninginn, að besta leiðin til að hafa líkamann í jafnvægi, sé að hafa sálarlífið í jafnvægi. Og ef það er í jafnvægi, þá aukast líkurnar á því að líkaminn starfi rétt. En hvernig virkar þá þetta andlega lögmál? Skoðum það.
Þegar Guð skapaði manninn þá skapaði hann manninn í sinni mynd, eða, að maðurinn gæti starfað, skapað og hugsað eins og Guð. Og Guð blés lífsanda sínum í manninn, og þannig varð maðurinn lifandi sál. Síðan gaf hann manninum reglur að fara eftir. Reglur sem veita blessun í hlýðni, en bölvun í óhlýðni. Þessar reglur birtast okkur mönnunum í boðorðunum tíu. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Því þessar lífsreglur eru í raun stjórnarskrá þessa heims. Og það að hlýða þeim, veitir hina einu sönnu hamingju. Því sá sem gjörir rétt þarf ekki að óttast.
Fjögur fyrstu boðorðin tala um samfélag manns við Guð: 1. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. 2. Ekki tilbiðja neitt nema Guð. 3. Ekki leggja nafn Drottins Guðs við hégóma. 4. Minnast þess að halda hvíldardaginn heilagan.
Sex síðustu boðorðin tala um samfélag manna á milli: 5. Heiðra föður þinn og móður þína, svo þú verðir langlífur. 6. Þú skalt ekki morð fremja. 7. Þú skalt ekki drýgja hór. 8. Þú skalt ekki stela. 9. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. 10. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Ekki girnast konu náunga þíns, né það sem hann á..
Við sjáum líka á þessu, að ef þessum boðorðum væri hlýtt, þá myndum við lifa í betri heimi.Hafa meira öryggi og meiri frið. Og ekki veitir nú af í þessum stríðshrjáða heimi.En öll stríð byrja vegna þess að menn virða ekki né elska náungann.
Kærleiksboðskapur Guðs í þessu er, að hann vill aga þann sem hann elskar. Því er reglan þessi:
Þolið aga. Guð fer með ykkur eins og syni sína og dætur. Og hver er sá sonur eða dóttir, sem faðirinn agar ekki? Því ef þið eruð án aga, þá eru þið eins og þrælar eigin langana og hugsana.
Er þá ekki komin lausn á óhlýðni barna og unglinga? Að venji sig bara á það, að vera hlýðin. Því það sem getur veitt þeim hamingju, er að hlýða og virða mömmu og pabba. Og hlýða og virða kennara og lærifeður sína. Ekki að vera í uppreisn, því það kemur niður á sálarlífinu. Því sá sem stöðulega heimtar, og virðir engan er friðlaus. Þetta á líka við um alla menn og konur.
Í Biblíunni stendur á einum stað:
“Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: “Mér líka þau ekki.”
Þetta segir okkur hversu nauðsynlegt það er, að byrja sem barn og unglingur, að hlýða lífslögmálinu, því við uppskerum eins og við sáum.
Svo er það að foreldrar og kennarar þurfa líka að standa undir því að þau verði heiðruð. Þau þurfa því að ganga á undan með góðu fordæmi í réttri hegðun, en uppá það vantar líka hjá mörgum foreldrum og kennurum. Já, hjá okkur öllum.
Ég veit að margir eru mér ósammála. Og ég virði það við einn og sérhvern sem þetta les.
Ég skrifa þetta vegna þess að mér þykir vænt um börnin okkar. Og vil þeim allt það besta. Þau eru okkar fjársjóður og okkar arftakar. Því þurfum við að huga að því, að koma þeim vel til manns. Þeirra vegna og barna þeirra vegna. Svo þau eigi vonarríka framtíð.
Og í lokin:
“Sonur minn og dóttir, gefið gaum að ræðu minni, hneigið eyru ykkar að orðum mínum. Lát þau eigi víkja frá augum ykkar, en varðveit þau innst í hjörtum. Því þau eru líf þeirra sem öðlast þau, og lækning fyrir allan líkamann. Varðveitið því hjörtu ykkar og sálu framar öllu, því að þar er uppspretta lífsins.”
Takk fyrir.