Ég hafði enga hugmynd um hvar ég ætti að setja þetta vandamál mitt, en þar sem flestir sem senda hingað inn eru foreldrar þá ákvað ég að skella mér hingað.

Vandamál mitt er; eins og hjá flestum unglingum á mínum aldri: Foreldrar. Það er samt ekki það að þau séu mér til skammar eða neitt af því, heldur er það traustið sem þau bera í minn garð.

Ég hef í rauninni alltaf verið litla góða stelpan í fjölskyldunni; ég hef aldrei rifist við þau, ég geri það sem mér hefur verið sagt og í rauninni þá er eina “uppreisnin” sem ég hef gert er að vera samkvæmt mínum smekk, sem er ekki alveg það sem þau hafa haft í huga um mig.

Ég hef aldrei brugðist trausti þeirra. Aldrei. En samt vilja þau aldrei geta treyst mér. Ég fer út, og þá verð ég að koma nákvæmlega á þeim tíma sem fyrir mér var settur aftur heim. Þegar ég kem heim, þá er alltaf spurt út í hvað ég var að gera, hverjir voru þarna, og hvar við vorum. Ef ég fer út, og er þá að fara út með strákum (flestir vinir mínir eru strákar) þá eru þau afskaplega treg til að leyfa mér fara, jafnvel þótt ég sé oft og mörgu sinnum búin að segja þeim að þetta séu bara vinir mínir, ekkert sé að gerast, og þeir eru alls engir vandræðagemsar…

Ég dópa alls ekki, mér hefur aldrei dottið í hug að reykja, og ég drekk ekki áfengi. Það eina sem ég geri allan daginn er að hanga heima, því foreldrar mínir geta ekki treyst mér ef ég fer út á kvöldin, þau eru meira að segja treg til að hleypa mér út á daginn.

Eru allir foreldrar svona? Finnst ykkur foreldrunum sem eru svona að börnin ykkar séu kannski þunglynd? Hvernig í andskotanum á ég að fá foreldra mína til að treysta mér!?