Komið þið sæl!

Mig langar að segja ykkur frá einu sem hneykslar mig stórlega. Þannig er að ég vinn í verslun þar sem meðal annars tóbak er selt. Svo koma tvær mæðgur saman og tilgangurinn með þessari viðkomu þeirra í verslunina er að kaupa sígarettur handa dótturinni, sem er varla mikið eldri en sextán ára. Svo kaupir mamman bara pakka handa stelpunni eins og það sé alveg sjálfsagt mál.

Mér finnst það svo óþroskað að gera svona hluti og það fyrir framan almenning. Það er ekki einu sinni verið að reyna leyna því að hún sé að skemma krakkann. Það væri alveg eins hægt að leyfa barninu að troða sig út með fitandi og heilsuspillandi mat, “Elskan mín, viltu ekki borða aðeins meira svo þú fáir alveg örugglega kransæðastíflu?”, þ.e.a.s. ef fólk vill leyna spillingunni.

Hvað er eiginlega að sumu fólki? Fullorðin manneskja sem ætti að hafa eitthvað vit í kollinum er bókstaflega að hjálpa barninu sínu að eyðileggja í því heilsuna með því að kaupa handa því þetta eitur. Ég gæti vel trúað því að hún kaupi líka handa henni áfengi, ég reyndar þekki til þess hjá öðru fólki, að foreldrarnir kaupi áfengi handa krakkanum, sem mér finnst alveg fáránlegt. Þá eru foreldrarnir í rauninni að samþykkja það að barnið sitt fari á fyllerí og hugsa e.t.v. ekkert út í það að eitthvað geti komið fyrir. Þau hugsa kannski eitthvað líkt þessu, “Jæja, barnið okkar er að fara skemmta sér, eigum við ekki að gefa því áfengi svo það skemmti sér alveg ÖRUGGLEGA, ha?”

Er þessu fólki alveg sama um börnin sín? Er það bara sjálfsagður hlutur í þeirra augum að spilla heilsu barnsins síns með því sem þau vita, eða ættu alla veganna að vita, að skemmir þau.

Hvað finnst ykkur um þetta?