Mig langaði bara að skrifa svolítið um barnapössun þar sem ég hef mjög mikla reynslu af því bæði að passa börn og ráða barnapíur. Ég er reyndar bara 18 ára en ég á 3 ára gamlan bróður og hef oftar en ekki frekar setið heima sjálf en að láta hina og þessa passa hann eitt kvöld svo foreldrar mínir komist út.

Mín reynsla sem barnapía hefur oft komið sér mjög vel, sama hvort ég er að reyna að aga bróður minn, róa börn sem hafa týnt foreldrum sínum á almannafæri eða hvað sem er. Það verður enginn verri á því að eiga við börn á öllum aldri en það er EKKI fyrir hvern sem er. Mér finnst t.d. mjög erfitt að skilja við bróður minn hjá barnapíu undir 15 ára aldri sem ekki tilheyrir fjölskyldunni. Mín reynsla er bara sú að það er alls ekki sniðugt. Í nær hverri viku er hægt að lesa í einhverju blaðinu auglýsingar sem hljóða á þennan veg:

“12-15 ára stelpu langar
að passa börn eftir skóla.
Hef lokið Rauða Kross námskeiði”

Æðislegt… Best væri þó að geta treyst á að barnapían sé það góð að hún þurfi ekki að beita tækni sem lærst hefur á svona námskeiðum. Sjálf hef ég farið á mörg skyndihjálparnámskeið en tek það ekki fram nema ég sé spurð. Mér finnst bara sjálfsagt að foreldrar, kennarar og þeir sem á annað borð vinna með börnum hafi grunnþekkingu til að bregðast við hvers konar aðstæðum sem upp gætu komið.
Í fyrra sumar þurftum við að ráða stelpu til að passa bróður minn og fyrsta stelpan sem ég talaði við var 14 ára. Ég spurði ósköp eðlilegra spurninga sem eiga við hvert einasta barn og hún hikstaði á öllum svörunum. Hvað hún ætti að athuga ef hún vissi ekki af hverju hann var að gráta, hvað hún ætti að gera ef hann dytti og fengi opið sár (þá er ég að tala um mjög lítið, sem maður leyfir að blæða aðeins úr, skolar og setur svo plástur), hvort henni fyndist hún alltaf þurfa að hafa auga með honum, o.fl., o.fl. Sumum kann að finnast þetta virkilega ósanngjarnt en mér finnst það ekki. Ég elska litla bróður minn meira en allt í þessum heimi og mér finnst þetta langt frá því að vera háar kröfur á manneskju sem á að fara að hugsa um hann hálfan daginn í heilan mánuð. Kannski er það bara ég.

Ég er í menntaskóla og finnst sjálfsagt að passa með skólanum. Ég er alltaf að passa á mánudagskvöldum og svo eitt og eitt kvöld fyrir nokkrar einstæðar mæður sem þurfa að komast út. Í gærkvöldi þegar ég var að fara frá fólkinu sem ég er að passa fyrir í hverri viku sagði konan mér að hún væri mjög ánægð með að hafa hætt við að ráða 14 ára stelpuna sem hún hafði talað við áður en hún fékk númerið mitt. Ég var mjög fegin en það kom mér samt ekkert á óvart, þó það nú væri að vinna fyrir kaupinu sínu.

Ég vona að þið hafið náð hver tilgangurinn er með þessari grein hjá mér… Ég vil bara brýna það við foreldra að vanda valið á barnapíum vel og kynnast viðkomandi áður en hann eða hún koma í fyrsta skipi að passa. Það er mjög mikilvægt fyrir alla aðila að barnapían komi a.m.k. einu sinni í heimsókn og hitti börnin með foreldrunum og fái svo smá stund til að spjalla við foreldrana án þess að börnin séu viðstödd.
Passið líka að fara aldrei út án þess að hafa með ykkur símann eða skilja eftir símanúmer sem barnapían getur hringt í.
Ég held að það sé ekki fleira í bili en ég á örugglega eftir að skrifa aftur það sem ég er alltaf að kynnast nýjum börnum og nýjum aðferðum til að eiga við þau. :)