HJÁTRÚ UM MEÐGÖNGU:

-Hægra brjóst konunnar stækkar meira á meðgöngunni gangi hún með strák en öfugt gangi hún með stelpu.

-Strákar sprikla meira í móðurlífinu og eru fyrirferða meiri en stelpur.

-Sé konan mjög gild gengur hún með strák, sérstaklega ef þykktin er breið og liggur meira aftur og til hægri. Gangi hún með stelpu stendur kúlan meira fram og stelpurnar liggja meira vinstra meginn í móðurlífinu.

-Sé konan rjóð í andliti á meðgöngu eða ef saltmoli leysist upp sé hann settur á geirvörtu hennar þá gengur hún með strák. Hafi konan brjóstsviða á meðgöngunni gengur hún með síðhærðan dreng.

-Eitt ráð til að komast að því hvort kynið konan gengur með er að pissa í glas og láta það standa í tvo sólarhringa. Sé konan ólétt setjast agnir á botninn, rauðleitar gangi hún með dreng en svartleitar gangi hún með stúlku.

-Finni ólétt kona títuprjón á förnum vegi gengur hún með dreng en finni hún nál er barnið stúlka.

-Segi ungbarn fyrr mamma en pabbi á næsta barn í röðinni að vera stúlka en drengur segi barnið fyrr pabbi. Segi barnið fyrr nei verður næsta barn drengur en stúlka ef barnið segir fyrr já.

-Sé fyrsti gestur sem konan sér eftir að hún stígur af sæng karlmaður verður næsta barn hennar drengur en stúlka sé gesturinn kvenkyns.

-Drekki vanfær kona úr skörðóttum bolla fæðist barnið með skarð í vör.

-Barnið verður freknótt borði hún rjúpuegg en fær óslétta húð borði hún ýsuroð.

-Borði konan kviðugga af steinbít verður barnið aldrei kyrrt. Borði konan mestmegnis fisk verður barnið heimskt.

-Borði barnið selshöku fær barnið pétursspor en sundfit borði hún selshreifa.

-Borði hún kindartungu jarmar barnið.

-Barnið verður kjöftugt borði vanfær kona ullinseyru en sauðaþjófur borði hún kindareyra með annars manns merki á.

-Drekki konan vatn sem jórturdýr hafa drukkið af þá jórtrar barnið.

-Barnið verður hárlaust drekki hún heita drykki á meðgöngunni.

-Setji barnshafandi kona pott á hlóðir þannig að annað eyrað snúi upp en hitt fram verður barnið annað hvort með fjögur eyru eða það hefur annað eyrað á enninu og hitt á hnakkanum.

-Klippi konan neðan af hári sínu á meðgöngunni eignast hún sköllótt barn. Annað afbrigði þeirrar hjátrúar er að klippi hún hár sitt sækist barnið eftir því að borða rusl.

-Sé gengið á mannbroddum eða stungið niður broddstaf inni í húsum og ólétt kona gengur yfir broddholurnar, verða holur upp í iljarnar á barninu, sem hún gengur með.

-Ekki má þunguð kona stíga yfir umfeðmingsgras því þá getur hún ekki fætt.

-Horfi hún á norðurljós eða blikandi stjörnur þá tinar barnið sem hún gengur með eða verður rangeygt.

-Hlaupi vanfær kona mikið eða horfir fram af háu þá verður barnið lofthrætt.

-Ekki er heldur gott fyrir verðandi mæður að hugsa mikið um aðra menn en barnsfeður sína á meðgöngunni því þá er hætta á að barnið líkist þeim sem hugsað er til.

-Óráð er að búa út mikinn fatnað fyrir börn áður en þau fæðast, það getur haft ógæfu í för með sér eða orðið barninu að aldurtila. Enn tíðkast það að konur taki ekki með sér barnaföt þegar að þær leggjast inn á fæðingardeild og eins er vaggan ekki tekin fram eða um hana búið fyrr en barnið er fætt. Sú hjátrú er einnig algeng að konur megi ekki taka blóm með sér heim af fæðingardeildinni nema þær vilji koma þangað aftur innan árs í sömu erindargjörðum.
www.blog.central.is/unzatunnza