Standið þið ykkur ekki að því að bera börnin saman í þroska og skapgerð?

Mér finnst nú eiginlega bara fyndið hvað mín þrjú börn hafa öll mismunandi skapgerð og hafa verið það alveg frá fæðingu. Elsta dóttirin er dramadrottningin með athyglisþörfina, sellskapsdama og hefur alltaf látið hafa svolítið fyrir sér. Miðbarnið mitt er litla þrjóska ákveðna daman sem getur allt sjálf og gargar af pirringi ef hún getur ekki það sem hún ætlar sér. En jafnframt er hún rosalegur dundari og getur setið og leikið sér, eða perlað og púslað stundum saman. Yngsti pjakkurinn er svo sannarlega litla barnið. Ólíkt miðbarninu, sem verður bara öskureið ef hún getur ekki eitthvað eða fær ekki eitthvað, þá verður litli kúturinn bara agalega sár og móðgaður. En hann er nú aðeins að fá meira skap núna, enda nauðsynlegt til að lifa það af að eiga stóra systur sem vill alltaf rífa dótið af manni ;)

Svo er þetta með þroskann. Elsta stelpan mín var mjög fljót bæði að fara að ganga og tala, tók fyrstu skrefiin 10 mánaða, var farin að labba alveg ellefu mánaða og orðin altalandi eins og hálfs árs. Yngri stelpan var líka fljót að fara að tala, en var ekki eins mikið að flýta sér að fara að labba. Það lá við að mér fyndist hún sein til að fara að labba, því hún var orðin næstum 13 mánaða áður en hún fór að sleppa sér almennilega. En altalandi var hún líka í kringum eins og hálfs árs. Svo kom litla barnið, fyrsti strákurinn, og ég bjóst nú alldeilis við að hann yrði líka svona fljótur að ná málinu… en nei nei. Hann er að verða 14 mánaða og segir bara mamma og datt… og svo bulltalar hann heilan helling, eitthvað sem enginn skilur, og mér finnst hann voða seinn til að fara að tala, hehe. Hann var heldur ekki að flýta sér að fara að labba, en var á svipuðu róli og yngri stelpan.

Nei, nei, ég veit alveg að þau voru og eru alls ekkert sein, en svona er maður klikkaður þegar maður hefur eitthvað annað til að miða við frá því áður ;) En annars finnst mér bara skemmtilegt að sjá hvað systkini geta verið ólík, bæði í skapgerð og í þroska.

Þið sem eigið fleiri en eitt barn, takið þið ekki eftir þessu líka? Eða voru ykkar börn bara alveg eins ;)?
Kveðja,