Ég er með dóttur mína í ungbarnasundi í Breiðholtslauginni. Það er nú svosem ekki í frásögur færandi nema hvað að mig langaði að segja ykkur frá því að kennarinn okkar er líka með sundnámskeið fyrir 4-6 ára (eða frá því að þau fara að botna í lauginni). Leikskólanámskeiðið eins og hún kallar það, er í tímanum á eftir okkur og ég var á bakkanum um daginn að fylgjast með þessu. Þetta var hreint stórkostlegt. Hún leikur við börnin í vatninu, er að kenna þeim að láta sig fljóta og undirstöðurnar í virkilegu sundi. Hún segir að hún miði að því að gera börnin sjálfbjarga í lauginni svo að þau eigi auðveldara með að læra að synda þegar þar að kemur. Börnin vinna á sínum eigin hraða og þeim er ekki ýtt út í neitt sem þau ekki vilja gera.

Sama sístem er á ungbarnasundinu hjá henni. Dóttir mín var mjög ánægð fyrstu tvo tímana, en svo grét hún eins og stunginn grís næstu 3 eða 4 skipti. Lólú (kennarinn) sagði mér að gefast ekki upp, en vera samt ekki að láta hana gera neitt sem hún ekki vildi. Svo að við mæðgurnar vorum bara í lauginni að dunda okkur á meðan hinir gerðu sínar æfingar. Stelpan smám saman róaðist en tók samt góð köst í hverjum tíma. En við héldum áfram að mæta og leika okkur og viti menn allt í einu hætti hún þessu væli og nú er hún hin duglegasta og gerir allar æfingarnar eins og hún hafi aldrei gert annað. Svo þið sem eigið í sama vanda, ekki gefast upp! Þetta er svo sannarlega þess virði þegar erfiðleikunum líkur.

Mér finnst þetta ungbarna- og leikskólasund alveg rosalega sniðugt og ég mæli með þessu við hvern sem heyra vill.

Sundmæðgurnar
Tzipporah og DustPuppy