S.O.S. Vinkona mín var að koma heim frá Zambíu, þar sem hún dvaldist í 4 vikur á heimili í höfuðborginni. Hún var að segja mér frá öllum götubörnunum þar í landi og ég fékk alveg sting í hjartað og tár í augun.

Flest börnin eru á götunni því að foreldrar þeirra hafa dáið úr alnæmi, en mörg eru þar líka því að foreldrar þeirra hafa skilið og hvorugt þeirra vildi hafa börnin svo þau voru bara sett á götuna. Mér finnst þetta hræðilegt.

Svo fór hún og heimsótti eitt af S.O.S. barnaþorpunum og hún sagði að börnin sem búa þar séu heppnustu börnin í Afríku. Þorpin eru uppbyggð á þann hátt að þar eru fullt af litlum húsum og í hverju húsi eru tvær “mömmur” með sjö börn hvor, allt í allt 14 börn í húsi. “Mömmurnar” eru þarna allan sólarhringinn alla vikuna nema þær fá frí einn dag í viku. Börnin dveljast þarna þar til þau eru 13/14 ára og þá fara þau á heimavist. “Mömmurnar” hugsa um börnin, elda fyrir þau, senda þau í skólann, svæfa þau á kvöldin og hugsa um þau alveg eins og þau væru þeirra eigin börn. Flest börnin hafa komið þangað af götunni og mörg ungabörn hafa verið skilin eftir við inngangin að þorpinu.

Við að heyra þetta langar mig meira til að styrkja S.O.S. barnaþorpin, því nú er ég viss um að þetta fer í gott starf og það er þörf á þessu. Ég vissi það svo sem fyrir, en að heyra þetta frá manneskju sem hefur séð það með eigin augum, það gefur manni fullvissu.

Það er líka hægt að hjálpa börnum í Indlandi, Filipseyjum, Afríku og fleiri stöðum með því að styrkja þau með mánaðargreiðslum og borga þannig fyrir menntun þeirra, hjá ABC hjálparstarfi.

Hjálpum þeim sem minna mega sín.