...um stráka og stelpur?? Veit einhver hér hvort það er til um stelpur eins og um strákana…
DRENGIR


Drengir eru breytilegir að stærð, þyngd og lit.

Þeir eru alls staðar, uppi á öllu og innan í öllu,
klifrandi, hlaupandi eða stökkvandi

Mæður elska þá, litlar stúlkur hata þá, eldri systkini
umbera þá og drottinn heldur verndarhendi sinni yfir þeim.

Drengur er sannleikur í mannsmynd með gúmtuggu í
hárinu og von framtíðarinnar með ánamaðka í vasanum.

Drengur hefur matarlyst eins og hestur, meltingu eins
og sverðagleypir, orku eins og vasakjarnorkusprengja,
rödd eins og einræðisherra.

Hann er gæddur ímyndunarafli skáldsins,
feimni fjólunnar, viðbragðsflýti veiðibogans,
funa flugeldsins og þegar hann þarf að gera
eitthvað þá hefur hann fimm þumalfingur á hvorri hendi.

Hann er sólginn í rjómaís, hnífa, sagir, jólakvöld, myndabækur, drenginn í næsta húsi, skóginn, vatnið
(nema í handlauginni heima), stór dýr, pabba,
strætisvagna, sunnudagsmorgna og brunabíla.

Hann er lítið gefinn fyrir skóla, samkvæmi,
myndalausar bækur, spilatíma, hálsbindi,
klippingu, stelpur, frakka, fullorðið fólk og háttatíma.

En enginn er eins árrisull og hann
og enginn kemur eins seint í matinn.

Enginn nema hann einn getur komið fyrir
í vasa sínum ryðguðum hníf, hálfétnu epli,
þriggja metra löngum seglgarnsspotta,
eldspýtustokki, tveimur gúmtugguplötum,
vatnsbyssu, vísiralausu armbandsúri og einhverjum dularfullum hlut sem enginn veit hvað er nema hann.

Drengur er sannkölluð töfravera.

Þú getur lokað hann úti úr verkstæði þínu,
en þú getur ekki bolað honum út úr hjarta þínu.

Þú getur fleygt honum út af skrifstofunni þinni,
en þú getur ekki bægt honum úr huga þínum.

Þú getur allt eins gefist upp strax,
hann er fangavörður þinn og ofjarl.

Þessi freknótti ólátabelgur sem stendur varla út úr hnefa.

En þegar þú kemur heim á kvöldin með allar borgir vona þinna og drauma hrundar getur hann einn reist þær aftur með tveimur töfraorðum: “Halló pabbi”

- Alan Beck -