Ungar stúlkur og útlitsdýrkunin Ég var að horfa á þátt hér í sjónvarpinu, mjög áhugaverður, en hann fjallaði um ungar stelpur og hvernig útlitsdýrkunin í samfélaginu getur haft áhrif á þær. Þarna voru stelpur allt niður í 6 ára í megrun, fannst þær of feitar og voru að passa sig hvað þær voru að borða. Ósköp venjulegar grannar og sætar stelpuskottur, en nei þær urðu að passa þyngdina, fannst maginn of feitur og lærin of sver o.s.frv.. Í flestum þessum tilvikum var móðir þeirra mikið að spá í sinni eigin þyngd og útliti og dæturnar tóku eftir að mamma var að drekka megrunardrykki, eða vigtaði sig á hverjum degi, eða borðaði ekki þetta og ekki hitt.

Svo var þarna ein stelpa sem var 9 ára gömul og farin að mála sig daglega áður en hún fór í skólann. Mamma hennar bara keypti handa henni snyrtidót, meik, maskara og allar græjur, þegar stelpan fór að sýna þessu einhvern áhuga. Já og kenndi henni að mála sig almennilega. Það er svo sem í góðu lagi, en kommon, er ekki 9 ára helst til of ungt??? Í lok viðtalsins við þessar mægður var mamman að kenna dóttur sinni að raka á sér leggina. Ég meina það, er eðlilegt að 9 ára stelpur eigi að hafa áhyggjur af einhverjum hárvexti á fótunum á sér, og hvað þá að mamman sé að ýta undir þessar hugmyndir? Mér fannst þetta allavegana einum of langt gengið (og það var nú ekki einu sinni eins og stelpan væri með eitthvað verulega loðnar lappir).

Svo var þarna önnur skvísa, átta ára gömul sem fannst æðislegt að klæða sig druslulega, talaði um að þær vinkonurnar væru alltaf að reyna að vera svona sexý (átta ára munið þið!), og hennar æðsti draumur var að verða strippari, því þá myndi hún eiga svo auðvelt með að ná í stráka. Díses kræst!!! Ég á eina átta ára og ALDREI myndi ég leyfa henni að klæða sig eins og þessi stelpa var klædd. Í pínupilsi, stuttum verulega flegnum topp og á háhæluðum skóm. Normalt??? Eiga átta ára stelpur að vera með pælingar um að vera sexý? Ég hélt að þær ættu bara að vera litlar stelpur að leika sér án þess að vera með svona pælingar og útlitsáhyggjur strax.

Hvaða skilaboð er eiginlega samfélagið, og við þar með, að gefa þessum ungu stelpum? Já og bara konum yfir höfuð. Það er eilíf pressa á konur að vera grannar, sætar og sexý. Þetta endaurspeglum við mæðurnar á dætur okkar, en við erum oftast þeirra stærsta fyrirmynd verandi af sama kyni. Þær horfa á okkur til að læra hvernig konur eiga að haga sér. Nú svo eru skilaboð út um allt í fjölmiðlum, sjónvarp, bíó, auglýsingar o.s.frv. Verslanir selja sexý föt á litlar stelpur og þar fram eftir götunum.

Æ ég ætla bara að vona að mér takist að halda mínum dætrum börnum í nokkur ár í viðbót.
Kveðja,