Ég var að horfa á þátt á Life Network í gær og hann situr bara svo í mér að mig langaði að vita hvað ykkur finndist um þetta.

Alla vega var sagan þannig: Hjón áttu 3 börn en skildu og við það varð konan mjög þunglynd og leiddist tímabundið útí drykkju og misnotkun lyfja sem aftur leiddi til þess að hún missti vinnuna og síðan húsið. Hún er þá á götunni með 3 börn. Miðbarnið, 10 ára gamall strákur, semur ljóð um hvað það sé vont að vera heimilislaus og eiga enga skó og eitthvað fleira. Ljóðið vinnur ljóðasamkeppni grunnskólanna í sveitarfélaginu og hann kemst í fjölmiðla.

Nú kemur mamma nr. 2 til sögunnar. Rík kona, ógift og barnlaus sér strákinn í sjónvarpinu og ákveður að gefa honum hjól og skó. Það verður svo úr að hún tekur strákinn til sín og átti hann að vera hjá henni í 2 vikur svo hún gæti látið gera við í honum tennur og fleira smálegt. Alla vega fór svo að strákurinn fór aldrei til baka og býr enn hjá ríku mömmunni 2 árum seinna en hún er að ala hann upp sem “ofurbarn”.

Heimilislausa mamman vildi meina að sú ríka hafi bara ásælst strákinn vegna þess að hann væri ljóshærður og bláeygur eins og hún og að hún ásældist dóttur hennar líka. Þegar talað var við ríku sagði hún að strákurinn hefði sjálfur ákveðið að hann vildi búa hjá henni en hann væri líka mikið betur kominn hjá sér þar sem hún gæti boðið honum menntun og gott heimili. Hún sagðist vona að einhver tæki stelpuna líka sem hún sagðist reyndar ekki ætla að gera. Þó sýndi hún þáttarstjórnendum föt sem hún hafði keypt á hana “ef hún skyldi koma til sín” og sagði að hún myndi láta hana í dans og píanótíma. Hins vegar virtist hún ekki hafa neinn áhuga á elsta bróðurnum sem var dökkhærður.

Alla vega það sem mér fannst sorglegast í þessu var að strákurinn hefur svo til alveg misst tengslin við fjölskyldu sína. Hann sagðist sakna þeirra en virtist ekki vera viss af hverju hann hitti þau ekki oftar. Það var eins og það væri bara ekki tími. Heimilislausa mamman sagðist oft hringja í hann og vilja að þau hittust en henni væri sagt af þeirri ríku að strákurinn væri ekki viðlátinn, væri í sunnudagaskólanum, fiðlutíma, karate eða hvað. Ríka vildi meina að sú heimilislausa hringdi aldrei í hana en viðurkenndi að reyndar væri henni illa við að strákurinn hitti fjölskyldu sína þar sem hann gæti fengið samviskubit yfir hvað hann hefði það gott og þau slæmt.

Líf stráksins og systkina hans var eins og svart og hvítt. Hann sat við hlaðið matarborð í jakkafötum heima hjá ríku, fór yfir fjárfestingar sínar í verðbréfum með henni við morgunverðarborðið meðan gemsinn hennar glumdi, fór í frí með henni á ströndina á brimbretti eða upp til fjalla á skíði. Á meðan fengu systkinin sinn kvöldmat í súpueldhúsi hjálpræðishersins, voru bara grútskítug úti að leika sér í fríunum og sváfu á sófa í pínulitlu íbúðinni sem mömmunni hafði tekist að redda sér.

Alla vega langaði mig til að vita hvað ykkur finndist. Er þetta rétt aðferð til að taka á svona málum? Nú hefur þessi strákur sem var tekinn úr þessum aðstæðum miklu betra tækifæri til að mennta sig en ef hann hefði verið áfram hjá mömmu sinni en er það rétt að “bjarga” einu systkini og skilja hin eftir?