Á einhver 2 ára barn?

Ekki svo að skilja að ég sé að auglýsa eftir einu slíku, heldur á ég við vandamál að stríða varðandi litla gæjann minn. Hann varð tveggja ára í byrjun ágúst.

Frá fæðingu hefur hann verið einstaklega meðfærilegt barn, lagast fljótt að breytingum, er alltaf glaður, kvartar ekki nema eitthvað mikið sé að (þ.e. hungur eða þreyta) og er góður við alla í kringum sig. Hvar sem við komum, vekur athygli hvað hann er auðveldur í meðförum (ég vil ekki segja góður, því öll börn eru góð) og þægilegur í alla staði.

Undanfarinn mánuð eða tvo hefur þetta verið að breytast. Það er gríðarmikill mótþrói kominn upp í mínum manni, hann hefur sjálfstæðan vilja og skoðanir á öllu sem hann lætur óspart í ljós.

Hann sofnar orðið aldrei fyrr en ég fer að sofa, hann vill ekki matinn sinn, hann mótmælir bleyjuskiptum, matnum sínum, tannburstun, svefni, ÖLLU sem hann veit að hann á að gera. Hann verður brjálaður í hvert skipti sem ég klæði hann í eða úr, hann vill ALDREI koma heim þegar ég sæki hann, hvort sem er til afa síns og ömmu eða á leikskólann, hann er almennt mjög reiður maður. Hann býr við fullt af ástúð og öryggi og inn á milli reiðikastanna vefur hann handleggjunum um hálsinn minn og segir “elska þig rosa mikið” og er dásamlegur.

Hvað gerir maður? Stundum lemur hann mig virkilega fast og það virðist vera alveg sama hvaða viðbrögð ég sýni því, þau kalla öll á það að hann lemji mig aftur! Og svoleiðis gengur þetta yfirleitt í mjög langan tíma. Hann lætur alveg eins við pabba sinn og við hreinlega vitum ekki hvað við eigum að gera lengur. Er einhver sem þekkir eitthvað svipað af eigin raun og getur gefið ungum og ráðalausum foreldrum einhver ráð?

Þúsund þakkir,
kv. Hildur.