Ég hef leyst vandann um lífið, alheiminn og allt. Eða hér um bil…

List er það sem sameinar tæknilega kunnáttu byggða á skynsemi og djúpum skilningi annars vegar, og hins vegar þann hluta í manninum sem er náttúrlegur, dýrslegur og óreiðukenndur.

Grikkirnir gerðu þau mistök að leggja áherslu á skynsemina í manninum en hafna hinu óskynsamlega sem er til staðar í öllum mönnum. Þess vegna talar Aristóteles um læknislist o.s.frv. Nytjahyggja og skynsemisdýrkun hefur smám saman reynt að bola út listinni fyrir vélina sem gengur eftir höfði mannsins. Eftir módernisma kemur listin loksins aftur inn í líf okkar.

Listin er sem áður sagði samtvinnuð úr tveimur þáttum mannsins, skynsemisverunni og dýrinu þar sem ekki hallar á annað. Nýsköpun og frumleiki hvers listamanns er nauðsynlegur og aðstæður hvers tíma móta form listarinnar.

Allt getur verið list. Lífið er list. Ástin er list hjá manneskju sem elskar af líkama og sál. Læknir sem er hlýr í viðmóti og ber umhyggju fyrir sjúklingnum er listamaður, en sá sem gengur vélrænt til verks er það ekki. Verkfræðingur getur verið listamaður ef hann hugar nógu vel að því hvernig hlutirnir falla að manninum, en hann hefur litlar forsendur til þess þar sem hann fær ekki þjálfun í því hugarfari í námi sínu. Íþróttir eru list. Stjórnun er list. Að segja góðan brandara er list. Að skrifa skemmtilegt bréf er list. Það þarf vart að taka fram að góð hönnun og arkitektúr er list, svo ekki sé talað um myndlistina sjálfa.

Hvernig líst ykkur á þessa kenningu?