List er breyta án stoðferlis þ.e.a.s. nokkurs konar ástand handan rökfræðilegra skýringa og physiskrar skynjunar. Margir vilja blanda tilfinningum í málið en það eru algeng byrjenda mistök sem enginn málsmetandi listamaður getur tekið alvarlega. Það er best að skýra þetta með dæmi, ég starfa sem myndlistartæknir og seldi nýlega innsetningu sem ég get reynt að lýsa þó svo að mér sé illa við að blanda þannig tungumálinu í verkið en gæti varpað einhverju ljósi á það sem ég meina með ofangreindum fullyrðingum.
Verkið var sett upp á tannlæknastofu (mér er mjög illa við hefðbundið gallerí/safna umhverfi), rýmið á tannlæknastofunni er mjög dauðhreinsað og kalt eins og flestir vita og litirnir eru daufir og róandi. Þarna kom ég fyrir fimm svörtum kettlingum sem voru allir nokkuð áþekkir að stærð en fjöldi þeirra ákvarðaðist aðeins af þeim fjölda sem ég gat útvegað af kettlingum í sama lit og svipaðri stærð. Kynferði þeirra var auka-atriði þegar ég setti verkið upp en ég tók eftir því að fressir og læður haga sér með ólíkum hætti við þessar aðstæður sem eru þeim ekki eiginlegar, þetta var óvæntur flötur á verkinu sem skapaði ákveðna spennu sem ég hefði aldrei getað gert mér í hugarlund. Þar að auki breytti ég lýsingunni í rýminu, þar sem ég setti mun hvítari perur en eru venjulega til staðar og fjarlægði matta filmu úr glugga sem sneri í suður varð til nokkuð hörð mjólkurhvít lýsing sem dró litina á rýminu fram með afgerandi hætti.
Vonandi skýrir þetta hvað ég á við þó svo að það sé alltaf erfitt að reyna miðla verki eins og þessu með orðskýringum.