Nú ætla ég aðeins að segja ykkur frá expressionisma og eitthvað um Edward Munch.

Expressionismi er listastefna sem varð til í lok nítjándu aldar. Heiti stefnunnar er dregið af franska orðinu “expression” sem þýðir tjáning. Í expressionisma felst að listamaðurinn leitast við að tjá tilfinningar sínar, reynslu, viðbrögð og hugsanir fremur. Stefnan varð til í lok nítjándu aldar í kjölfar framfara í ljósmyndun, þar sem listamenn voru þá ekki lengur knúnir til þess að mála hluti eins og þeir raunverulega voru eða litu út, heldur fengu þeir svigrúm til þess að lýsa tilfinningum sínum og skilningi á myndefninu. Þetta leiddi til þess að hlutir í málverkum expressionista urðu oft óraunverulegir. Til dæmis má nefna að sumir málarar notuðu rauðan lit fyrir himinn og blátt fyrir andlit til að tjá ákveðna tilfinningu. Þannig gátu litirnir fengið ákveðna merkingu. Þessir málarar voru því líka kallaðir symbólistar. Þekktir expressionistar eru Vincent Van Goch, Henri Matisse og Edvard Munch.

Í myndum expressionista var lítið um smáatriði, pensilför voru oft gróf og ekki var lögð mikil áhersla á ljós og skugga. Ópið eftir Edvard Munch, sem við sýnum hér að framan er dæmigert expressionískt listaverk. Myndbyggingin er frekar einföld og ekki mikið um smáatriði. Sá sem er að æpa á myndinni er óraunverulegur og nánast eins og draugur eða geimvera. Hann er greinilega annaðhvort mjög hræddur eða kvalinn. Ekkert í umhverfi myndarinnar virðist þó gefa tilefni til óttans. Æpandinn er á ferð yfir brú, það er fallegt sólsetur og ekkert bendir til þess að mennirnir tveir sem hann er nýbúinn að mæta hafi hrætt hann. Skelfingin eða kvölin kemur þessvegna greinilega innan frá. Ópið er ein af þekktustu myndum listamannsins.

Edvard Munch fæddist í Osló eða Kristianíu eins og borgin hét þá árið 1863. Hann hóf myndlistarnám í konunglega norska teiknaraskólanum 18 ára gamall og varð fljótlega þekktur. Munch er talinn vera einn af frumkvöðlum expressionisma. Hann hafði þó áður prófað sig áfram með ýmsar stefnur og tækni.

Edvard Munch missti móður sína úr berklum þegar hann varð fjögurra ára og syskini sín úr sama sjúkdómi tíu árum síðar. Hann varð mjög þunglyndur eftir þetta og talið er að þessi missir hafi sett mikinn svip á líf hans og list. Hann málaði margar sjálfsmyndir og myndir af vinum sínum og fjölskyldu til þess að reyna að vinna sig út úr sorginni. Myndir hans sýna gjarnan sterkar tilfinningar sem hann finnur innra með sér, eins og sést í “Ópinu” Þrátt fyrir að Edvard Munch byggi alla tíð í Osló varð hann þó talsvert þekktur utan Noregs. Hann lést í Osló 1944.