Afrísk þjóðsaga Önnur tilraun :) Nú ætti þetta að vera auðlesnara.

Kanínan Ræktar Peningauppskeru
Mið-Afrísk saga

Þegar rigningartíminn gekk í garð og höfðinginn hóf að skipuleggja fyrirkomulag jarðyrkjunnar, kallaði hann á dýrin og spurði hvert og eitt hvað það ætlaði að sá. Eitt valdi maís og annað hirsi.

Loks var kanínan spurð hvað hún ætlaði sá og hann svaraði, “Höfðingi, ef þú gefur mér peningasekk, mun ég sá honum.”

“Hver hefur nokkurn tíman heyrt um að sá pening?” Spurði höfðinginn.

“Ég skal sýna þér hvernig á að gera það,” svaraði Kalulu.

Þegar Kalulu fékk peningasekkinn aftur á móti, fór hann af stað og eyddi öllu í föt, harðfisk, perlur og aðra hluti.

Þegar uppskerutíminn rann svo í garð sendi höfðinginn þau skilaboð til kanínunnar, “Kalulu, færðu mér peningauppskeru þína.”

“Peningurinn vex mjög hægt, hann er rétt að spíra,” sagði Kalulu.

Kanínan eyddi svo öðru ári í leti og þegar uppskerutíminn rann aftur í garð sendi höfðinginn aftur þau skilaboð, “Kalulu, færðu mér peningauppskeru þína.”

“Peningurinn vex mjög mjög hægt, hann er rétt að blómstra,” svaraði Kalulu.

Kalulu eyddi öðru ári í aðgerðarleysi og þegar uppskeru tíminn rann aftur í garð sendi höfðinginn skilaboðin, “Kalulu, færðu mér peningauppskeru þína.”

“Peningurinn vex mjög hægt,” sagði kanínan. “Hann er rétt orðinn að axi.”

Kanínan var byrjuð að fá á tilfinninguna að hann væri í klípu og vissi ekki hvað hann ætti til bragðs að taka, því ein lygi leiðir oftast til annarrar.

Á fjórða árinu varð höfðinginn tortrygginn og sendi villisvínið til að sjá ræktunina, með þau skilaboð, “Kalulu, færðu mér peningauppskeru þína.”

Kalulu vissi nú að hann varð að gera eitthvað, en hann vissi ekki hvað. Hann sagði, “Svín, peningagarðurinn er langt í burtu inn í skóginum, því að það myndi aldrei ganga að sá slíkri uppskeru nálægt þorpinu. Allir myndu vilja stela henni.”

“Þá mun ég fylgja þér til garðsins,” sagði svínið, “því höfðinginn sendi mig hingað til að sjá hann.”

Nú fann kanínan hvernig ástandinu fór versnandi og óskaði að hann hefði ekki verið svona mikill kjáni að ljúga. Þeir héldu af stað, og gengu og gengu, þar til Kalulu sagði, “Svín, ég gleymdi koddanum mínum og verð að hlaupa til baka til að ná í hann, því að við verðum að sofa hjá garðinum í nótt. Þetta er of löng leið til að geta komist til baka á einum degi.”
Kanínan hljóp til baka smá spöl, og svo tók hann reyrstöngul, skreið laumulega að svíninu sem beið eftir honum, blés svo í reyrinn með fílsöskurskrafti og hrópaði djúpri röddu, “Faðir, hérna er villigrís. Komdu fljótt og drepum hann.”

Svínið hélt að veiðimennirnir væru á hælunum á honum og hljóp burt eins og hann ætti lífið að leysa. Kalulu fór þá strax aftur til höfðingjans og sagði, “Höfðingi, ég var á leiðinni til peningagarðsins þegar svínið hræddist í skóginum og hljóp í burtu.”

Höfðinginn var mjög reiður og eftir að hafa hótað að refsa svíninu sagði hann, “Ljón, þú ert ekki hræddur við skóginn. Farðu með Kalulu, svo að hann megi sýna þér peningagarðinn sinn.”

Nú fann kanínan að ástandið var verra en nokkru sinni fyrr og óskaði að hann hefði ekki verið svona mikill kjáni að ljúga. Þeir héldu af stað og þeir gengu og gengu, þar til kanínan hóf sig til máls og sagði, “Ljón, ég gleymdi exinni minni og greinarnar slást í augun á mér. Bíddu bara meðan ég hleyp heim eftir exinni.”

Kanínan hljóp til baka smá spöl og skreið síðan laumulega að ljóninu sem beið eftir honum, blés í reyrinn með fílsöskurskrafti og hrópaði djúpri röddu, “Faðir, hérna er ljón. Komdu með örvarnar þínar og skjótum það.”

Ljónið var svo óttaslegið þegar hann hélt að veiðimennirnir voru á hælum hans að hann hljóp eins og hann ætti lífið að leysa. Kalulu fór þá beint til höfðingjans og sagði, “Höfðingi, ég var að fylgja ljóninu til að sýna honum fallegu peningauppskeruna sem ég hef ræktað fyrir þig, en hann hræddist í skóginum og hljóp í burtu.”

Höfðinginn varð öskuillur, og eftir að hafa hótað að refsa ljóninu sagði hann, “Vísundur, þú ert ekki hræddur við skóginn. Farðu með Kalulu, svo að hann megi sýna þér peningagarðinn sinn.”

Kanínan fann að ástandið var nú verra en nokkru sinni fyrr og óskaði að hann hefði ekki verið svona mikill kjáni að ljúga. Þeir héldu af stað og þeir gengu og gengu, þar til kanínan hóf sig til máls, “Vísundur, bíddu meðan ég hleyp til baka og sæki hnífinn minn, því þessi skógarskorkvikindi halda aftur af mér.”

Kanínan hljóp til baka smá spöl, svo tók hann reyrstöngul, skreið að vísundinum sem beið eftir honum og blés með fílsöskurkrafti í reyrinn og hrópaði með djúpri röddu, “Faðir, hérna er vísundur. Komdu með spjótin þín og drepum hann.”

Vísundurinn hélt að veiðimennirnir væru á hælunum á honum og hljóp eins og hann ætti lífið að leysa. Þá fór Kalulu beint til höfðingjans og sagði, “Höfðingi, ég var á leið minni að sjá peningagarðinn með vísundinum, en skógurinn var svo þykkur og dimmur að hann hræddist og hljóp í burtu.”

Höfðinginn varð nú reiðari en nokkru sinni fyrr og hótaði að refsa vísundinum. “Skjaldbaka,” hrópaði hann, “farðu og sjáðu hvernig peninga uppskeran mín vex, og ef kanínan hefur gabbað mig mun ég hengja hann í hæsta pálmatréð í þorpinu.”

Kanínan fann nú að ástandið var verra en nokkru sinni fyrr og óskaði að hann hefði ekki verið svona mikill kjáni að ljúga. Skjaldbakan var mjög vitur, og áður en þeir héldu af stað kallaði hann til konu sinnar og bað hana að færa sér poka með öllu sem þeir þurftu í ferðalagið: kodda, exi, hníf, örvamæli, og allt annað sem gæti hugsanlega verið nytsamlegt. Þeir héldu af stað og þeir gengu og gengu, þar til kanínan hóf sig til máls og sagði, “Skjaldbaka, leyfðu mér að hlaupa til baka eftir koddanum mínum.”

“Það er ekkert mál,” sagði skjaldbakan. “Þú mátt nota minn.”

Þeir héldu áfram lengra og lengra, þar til Kalulu sagði, “Skjaldbaka, leyfðu mér að hlaupa til baka eftir exinni minni.”
“Hafðu ekki áhyggjur,” sagði skjaldbakan. “Ég er með mína með mér.”

Þeir héldu áfram lengra og lengra þar til Kalulu hóf sig til máls og sagði, “Skjaldbaka, ég verð að hlaupa til baka eftir hnífnum mínum.”

“Hann er óþarfi,” sagði skjaldbakan. “Ég er með minn með mér.”

Þeir héldu áfram lengra og lengra þar til Kalulu hóf sig til máls og sagði, “Skjaldbaka, þessi skógur er hættulegur, ég verð að hlaupa til baka og ná í örvarnar mínar.”

“Það er allt í lagi,” sagði skjaldbakan. “Ég tók örvarnar mínar með mér.”

Kanínan fann nú að ástandið var verra en nokkru sinni fyrr. Hann óskaði að hann hefði ekki verið svona mikill kjáni að ljúga og hugsaði um hin hræðilegu örlög sem biðu hans. Hann gat næstum því fundið fyrir reipinu utan um háls sinn og velti fyrir sér hvað höfðinginn myndi segja þegar blekkingin yrði afhjúpuð. Loks, í hræðslu sinni, hljóp hann inn í skóginn og þaut heim eins hratt og fætur hans gátu borið.

“Fljót, kona mín,” hrópaði hann. “Við meigum ekki augnarblik missa. Þú verður að láta sem ég sé barnið þitt. Reyttu af mér allan feldin og berðu á mig rauðan leir. Svo þegar höfðinginn sendir boð hingað, skaltu vagga mér og segja að enginn sé í húsinu nema þú og barnið.”

Hún reytti hárið af höfði hans, eyrum, bringu, baki, handleggjum hans og fótum. Ó, hversu sárt það var! Kalulu iðraðist og óskaði að hann hefði aldrei blekkt dýrin eða logið. Að lokum stóð hann þarna hárlaus eins og kanínuungi og kona hans bar rauðan leir á hann allan. Hún hafði varla lokið verkinu þegar hermenn frá höfðingjanum komu og sögðu “Hvar er Kalulu, við erum komnir til að taka hann fastan svo hann verði hengdur fyrir að blekkja höfðingjann og fyrir að hlaupa burt frá skjaldbökunni.”

“Barnið og ég erum einu kanínurnar í húsinu,” sagði kona Kalulu.

“Þá tökum við barnið sem gísl,” sögðu hermennirnir og þeir settu hann í körfu og báru hann burt.

Þá nótt fór kona Kalulu til hans þar sem hann var bundinn í körfinni og hvíslaði; “Þegar ég tek þig upp á morgun, vertu stífur og láttu sem þú sért dauður.”

Næsta morgun fór kona Kalulu til höfðingjans og bað hann um leyfi til að mata barn sitt. Hún var leidd að körfunni, og þegar þeir leistu hana, kom Kalulu í ljós, að öllum líkindum látinn. Hún æddi aftur til höfðingjans grátandi og veinandi, og lýsti yfir að hann væri ábyrgur fyrir dauða barnsins. Umfangsmikil lögsókn var lögð fram og öll dýrin samþykktu að höfðinginn þyrfti að borga, svo hann gaf konu Kalulu stærsta peningasekkinn sem hann átti og sagði henni að taka barn sitt og grafa það.

Strax og kona Kalulu var komin heim til sín og búin að losa böndin á körfunni stökk Kalulu út. “Ó, hversu mikið ég hef þjáðst,” stundi hann. “Ég varð að vera stífur þó að mig verkjaði í limina og tærnar væru saman klesstar í körfunni. Ég mun aldrei blekkja nokkurn framar eða segja lygar aftur.”

Kona hans sýndi honum peningasekkinn og eftir að hafa beðið eftir að hár hans hafði vaxið aftur, hélt hann af stað með það til höfðingjans.

“Höfðingi,” sagði hann, “ég var að koma úr langa, langa ferðalaginu mínu til að ná í peningauppskeruna þína. Hérna er hún. Skjaldbakan var allt of hægfara og ég gat ekki beðið eftir honum.”

Höfðinginn tók við peningnum og þakkaði Kalulu fyrir frábæra uppskeru, en skammaðist sín fyrir að þurfa að segja honum frá dauða barnsins. Hvað kanínuna varðaði, fór hann heim glaður í skapi yfir að hafa sloppið úr klípunni og efndi það heit að þetta yrði síðasta skiptið sem hann myndi ljúga.


http://www.darsie.net/talesofwonder/africa/rabmoney.html