Kyntröll í Kristnihaldinu? Nýlega var leikritið Kristnihald undir Jökli sem gert er eftir sögu Halldórs Laxness frumsýnt í Borgarleikhúsinu. Fyrir nokkrum árum gerði Guðný Halldórsdóttir, dóttir Halldórs kvikmynd eftir sögunni en sú kvikmynd þykir með þeim allra bestu sem gerðar hafa verið eftir sögum Nóbelskáldsins. Kristnihald undir Jökli er afspyrnu fyndið, dularfullt og stundum nett flókið verk – en fyrst og fremst er Kristnihaldið ómissandi í hausinn. Leikstjóri Kristinhaldsins að þessu sinni er enginn annar en liðamótslausi ofurhuginn Bergur Þór Ingólfsson (einnig þekktur sem trúðurinn Úlfar) sem tekur að venju nokkrar vel valdar áhættur við uppfærsluna.

Í fyrsta lagi fékk hann nýútskrifann leikara og tilvonandi kyntröll, Gísla Örn Garðarson til að taka að sér aðahlutverkið: Umba, en persónan Umbi er eins og margir vita allt annað en kyntröll. Í öðru lagi fékk hann strákana í Quarashi til að sjá um tónlistina í verkinu – en þeir hafa löngum verið þekktir af öðru en leikhússækni. Í þriðja og síðasta lagi þá fékk Bergur gömlu kempuna Árna Tryggvason til að leika hitt aðalhlutverkið, Jón Prímus en tiltölulega langt er síðan Árni var síðast á sviði.

En eins og svo margt sem Bergur lætur sér detta í hug þá gengur þetta allt saman þétt og örugglega upp. Gísla tekst að skrúfa fyrir kyntröllið og leyfa kjánanum í sér að njóta sín, Quarashi eru snillingar í músík og þá sérstaklega í því að nota fuglasöng og Árni Tryggva hefur greinilega engu gleymt og fer einstaklega vel með Jón Prímus.
Kristnihald undir Jökli var upphaflega gefið út árið 1968, þegar hippismi og unghroki tröllreið heimsbyggðinni, stríð og friður var aðalþemað, kristin trú og yfirleitt allar viðteknar venjur eldri kynslóða áttu undir högg að sækja – fólk, frelsi, faðmlög og friður var það sem skipti öllu máli. Kristnihaldið kemur skemmtilega aftan að þessum tíma enda skrifað á meðan og raunar rétt áður en allt þetta gekk yfir.

Guðfræðingur ungi, fer sem umboðsmaður biskups upp undir Jökul að athuga með prestinn, séra Jón Prímus sem virðist vera algjörlega hættur að sinna skyldustörfum fyrir Guð almáttugan. Umbinn er þannig að sjálfsögðu allt annað en hippi, hann er lítillátur guðfræðinemi sem þrífst á virðingu sér eldra fólki – sér í lagi yfirvaldi sínu, biskupnum. Í upphafi ætlar hann sér þess vegna að leysa verkið samviskusamlega og eftir kúnstarinnar reglum.

En að sjálfsögðu fer þetta allt saman á annan veg og Umbi kemur aldrei til með að verða samur eftir þessa ferð undir Jökul. Hann fyrirhittir óendanlega flóru af skringilegu fólki sem snúa bæði á hann og út úr fyrir honum hvenær sem færi gefst. Umbi þarf því að oftar en ekki að taka á honum stóra sínum og reyna að fá einhverja mynd á það sem fyrir augu ber og á endanum er það að sjálfsögðu allt önnur mynd en hann lagði upp með.

Úr verkinu:
Umbi: Hvað segið þér um þá skoðun að sálin úr yður hafi verið göldruð í fisk fyrir þrem árum og geymd uppí jökli þangað til í kvöld?
Úa: Guð blessi yður og varðveiti veslíngs maður.
Umbi: Takk fyrir. En ég veit ekki hvort tekur því að bóka þetta svar.
Úa: Eruð þér ekki eitthvað ofurlítið takmarkaður litli minn?
Umbi: Það eru aldrei nema asnar hafðir til að gera opinbera skýrslu. Væri ég það ekki hefðu þeir aldrei kallað mig til slíks. Ég vona að þér fyrirgefið mér.

Kristinhald undir Jökli er algjörlega ómissandi fyrir stúlkur sem vilja sjá nýjasta “Hilmi Snæ-inn” fara í norskum heljarstökkum um sviðið, fyrir unga verðandi rappara sem vilja heyra hvað fuglasöngur getur gert mikið fyrir bassalínu og fyrir alla hina sem vilja bara sjá gott leikrit sem án efa verður tilefni til umræðna meðal misdjúpt þenkjandi menningarvita út þetta árið.