Þegar ég hef verið að kíkja í blöðin undanfarið, hefur mér fundist nokkuð bera á umræðunni um fjármál Leikfélags Íslands. Leikfélag Íslands er einkarekið leikfélag, sem varð til fyrir nokkrum árum við samruna nokkurra minni leikfélaga og hefur haldið úti nokkuð öflugri starfsemi síðastliðin 7 ár.
Nú er svo komið að LÍ er í miklum fjárhagskröggum og getur ekki haldið áfram starfsemi að öllu óbreyttu. Leikhússtjóri félagsins vill meina að þetta megi rekja til samdráttar í atvinnulífinu, verðstjórnunnar stóru, ríkisstyrktu leikhúsanna og þess að endurfjármögnun félagsins á þessu ári hafi ekki gengið sem skyldi.
Burtséð frá skoðunum á því hvernig haldið hafi verið utan um fjármál félagsins, þar sem mörg minni leikfélög virðast dafna með ágætum, þá fór ég einmitt að velta fyrir mér umhverfi leikhúsanna á Íslandi.
Mér hefur alltaf fundist fjölbreyttni af hinu góða og vil að sem flest sjálfstæð leikhús fái að njóta sín og bjóða uppá fjölskrúðugt leikhúslíf. Því hefur mér fundist mjög leitt að lesa þessar fréttir og vildi gjarnan sjá starfsemi Leikfélags Íslands haldið áfram af sama krafti og áður.
En hitt er annað mál að eftir sem áður finnst mér óæskilegt að ríkið styrki fleiri leikhús. Sennilega eru þetta bölvaðir fordómar í mér! Málið er bara það að mér hrýs hugur við að einkarekið leikhús sé í slíkum erfiðleikum. Mér finnst það forkastanlegt að ekki sé blómlegur rekstrargrundvöllur fyrir listalíf óháð ríkisstyrkjum….metum við ilminn af rósunum ekki meira en þetta. Erum við öll of upptekin við að höndla lífshamingjuna í Smáralindinni og Kringlunni? Er einhver önnur leið en ríkisstyrkir til að hlúa að listalífi þjóðarinnar? Getur e.t.v. verið að Jónu Jóns, Jóa Jóns, mér og þér, finnist kannski að svo djúp gjá sé á milli þeirra og hinnar “upphöfnu” Listar, að okkur finnist við ekki eiga neitt erindi í leikhús og annað af því tagi. Ég persónulega veit um allt of mikið af fólki sem finnst það vera eins og illa gerðir hlutir ef það slysast til að vera viðstatt listviðburði. Getur þetta verið ástæðan? Að almenningi finnist hann ekki eiga erindi við listina lengur? Að þetta sé orðið eitthvað sem aðeins er ætlað útvöldum hópi þeirra sem gyðjan hefur lagt blessun sína yfir. Ég hef stundum fengið þetta á tilfinninguna, þótt ég sé nú bara svo þrjósk að ég læt það sem vind um eyru þjóta og held mínu striki. Er búið að útiloka almenning frá þáttöku og kippa þannig eðlilegum grundvelli undan menningarlífinu? Og hvernig í ósköpunum hefur það gerst?
Allavegana þá er ég að velta fyrir mér í framhaldi af þessu mismunandi flötum á því að ríkið styrki listirnar með fjárframlögum. Nú verð ég að viðurkenna það að ég er ekki sérlega kunnug hnútum þessa efnis og því langar mig að fá sem flestar skoðanir ykkar Hugara á málinu.
Hver er ykkar skoðun á Snobbinu, ríkisstyrkjunum og blaðrinu?

Hvor er livet, fru Stella?

Lynx ;)