Í dag er ég iðnaðarmaður. Ég mála. Ég er klístraður á
höndunum og veigra mér við það, tímunum saman, að klóra
mér í pungnum vegna þess að ég vil ekki að málningin brenni
sundur á mér lífsgæðaranann. Ég var að spjalla við vin minn
sem er að vinna rétt hjá mér( í smáralindinni) hann er frá
Tékklandi. Hann var töluvert móðgaður yfir því að enginn, sem
leið átti hjá iðnverkum hans, kæmi ekki til hrópandi“Þetta er
list, drengur þetta er list”
Hann trúði mér síðan fyrir því að í raun væri þetta list. Ég
jánkaði, kinkaði kolli, beygði og teygði, sveigði og sveiflaði
höfðinu rétt eins og ég væri fullkomlega geðveikur. Það
fannst honum skrýtið, þó svo að mér þætti það nokkuð lítið.
En bíðið? Hey! Já! Svona
Nú ég sá fram á það, sökum þess hvað tékkneski vinur minn
var sár, að ég ætti eftir að eiga fremur ómenningarlegan dag,
engin list ekkert rými fyrir kokhljóðin í hausnum mér. En viti
menn. Í staðinn fyrir það að dagurinn rynni út í sandinn í
eymd, dauða og myrkri þá varð allt svo bjart. Ég er verri málari
heldur en Tékkinn. Hann er lærður í listum, og er skráður á
einhverjum listum fyrir því að hann sé í raun lærður í listum.
Hann er mjög handlaginn, vandvirkur og sætur og bla bla bla.
Ég er hins vegar sullari, talentlaus dugnaðarforkur, og hef lítið
vit á vinnuni minni.
En síðan rakst ég á smið. Ég er hræddur við smiði og þess
vegna set ég alltaf hendurnar í kross og set í brúnirnar og
segi já einmitt já já haa jááá
Smiðurinn fór að tala um gifs. Stíflan brast svo fast að ég
kastaðist twist og bast yfir í list. Já það er list. Að tala um gifs
í þrjátíuogátta mínútur er list. Smiðurinn treysti mér. Hann
treystir mér fyrir lífi mínu. Hann er nokkuð sannfærður um það
að ég geti vaknað og sofnað , klofnað úr stjórnmálaflokkum,
keypt sultu og platínukveikjur, haft gardínur í herbergjum, sýnt
börnum hvernig reima skuli skó, hugsa um að borga ekki
skatt og finnast einhver sérstakur matur góður.

Bara vegna þess að ég fíflaði mig í gegnum samtal um gifs
án þess að hæðast að nokkrum , nema sjálfum mér í laumi.
Maðurinn sagði mér allt um gifs og fyrir mér þá hefði ég allt
eins þurft að borga tvöþúsundkall á eitthvert hundleiðinlegt
skemmtileikrit í þjóleikhúsinu þar sem að leikararnir segja já
einmitt já já ha jáááá til skiptis alveg eins og ég gerði
þegar að smiðurinn fór að segja mér frá gifsbransanum. Í
stað þess að koma kófsveittur út úr þjóleikhúsinu, í þetta
skipti, með nokkrar uppáhalds setningar í farteskinu. Þá kom
ég örþreyttur heim úr málarabransanum með
gifsdiskóhugmyndir hausnum. Og sökum þess hversu lítið
skammtímaminni ég hef þá var einhvern veginn það eina sem
ég mundi , það hvað ég hafði orðið uppljómaður af samtalinu
fyrr um daginn. Þannig að það hafði breyst inni í hausnum á
mér, þar sem oft ríkir alls kyns djöfulgangur, og í staðinn fyrir
einverjar þurrar upplýsingar um gifs( gifs er fyrst blautt síðan
afar þurrt) þá tók við lygasaga sem ég sagði öllum vinum
mínum og svo ykkur. Æi þetta var bara svo listalegt eitthvað