Við fengum það verkefni í íslensku fyrir nokkru að skrifa endursögn á smásögunni Faðmlag dauðans eftir Halldóru B. Björnsson. Nánar tiltekið, endursegja söguna út frá sjónarhorni annarrar persónu, lýsa upplifun hennar.
Fyrir ykkur sem hafa lesið söguna, þá væri gaman að fá að heyra hvað ykkur finnst bæði um söguna og endursögnina.

Faðmlag dauðans

Hann hefði getað ímyndað sér hvað rann í gegnum huga konu sinnar á þessari stund. Hún hafði ekki bært á sér í langan tíma né hreyft sig og honum þótti gott að vita að hún væri föst hjá honum, skorðuð við líkama hans eftir hans geðþótta og eflaust enn þá betra að vita að hún vissi það jafnvel.

Hann vissi það að henni var ekki sama um fálætið sem hann hafði sýnt en það skipti hann litlu, hún ætti að sjá að honum þættu spilakvöldin og kunningjarnir tilheyra leiðinlegu lífi sem hann vildi losna við, því fábreytilega og venjulega lífi sem hann þoldi ekki. Hann var hættur að nenna að yrða á hana því hann vissi vel að það yrði ekkert nýtt sem hann fengi að heyra og að það færi aðeins eftir skapi hans sem hún svarði.

Á meðan þau lágu þarna saman hugsaði hann til síðustu vikna, leiðinlegu vinnunnar, öllum heimsins tímanum sem hann hafði ekkert við að gera og enga löngun til þess að nýta. Hann ímyndaði sér hvernig það væri að koma heim og hún væri ekki þarna, konan sem hafði þjónað honum frá fyrstu kynnum og viljað gera honum svo vel. Hann vissi að hún færi aldrei frá honum og að hún myndi aldrei reyna það, kveifin sú. Aldrei lét hún vel að honum þegar hann hafði óskað þess svo innilega en honum sjálfum ekki fundist hann geta það, þó var það alltaf hann sem gerði sig til við hana og þurfti nánast að biðja um það. Hún hafði uppfyllt óskir hans í öllu því sem hann fór fram á, það vissi hann vel en þó svo væri þá var hún eins tilbreytingarlaus og vetrarlognið þessa dagana og alltaf. Þau höfðu fjarlægst óskaplega, honum fannst hann ekki þekkja hana eins vel, leyndarmálin og hugsanirnar voru orðnar að hans eigin en ekki þær sem þau deildu með hvort öðru þegar sem bjartast logaði í þeirra hjörtum.

Hann sá hvað hún kveið og kvaldist þegar hann kvaddi hana með dulrænum orðum, vísvitandi og vitandi það að hún yrði ekki rórri fyrr en hann sneri aftur. Hún óttaðist að hann færi sér að voða, hann vissi það og líkaði það. Hún fyndi þá til þess sem hann upplifir hvern einasta dag frá morgni til kvölds, kvíða yfir deginum, því gleðisnauða og leiðigjarna sem hefur orðið að daglegu lífi hans. Hann átti það til að fara án þess að kasta á hana kveðju og þá hafði hún mestar áhyggjur. Hann sá það þegar hann kom aftur heim úr vinnunni hvað það hafði gert henni, hann vissi að hún óttaðist um hann og hann fann fyrir því gífurlega valdi sem hann átti yfir henni.

Stundum færði hann henni gjafir ef hann fann það í sér, það var þó sjaldan og tilefnin gátu verið lítil en fært henni ómælda ánægju. Hann fann ekki lengur þessa löngun til þess að gleðja sem orsakaðist nánast alltaf af sekt sem hann fann til í garð hennar, hann var tómur og sá ekkert nema trega og þunga þögnina sem fyllti allt.

Þessar síðustu vikur hafði hann opnað augun á morgnana og fundist hann jafnsofandi og þá um nóttina, algerlega laus við öll tengsl af lifandi líf. Hann fór til vinnu og gerði eins og hann átti, hann kom heim og fann sífellt meira að hann var búin að missa alla löngun til þess að vilja búa þar, eiga þessa konu og þetta líf. Veggirnir þrengdu að honum, inni í honum var tóm sem stækkaði jafn ört og mínúturnar liðu, kvalarfullar og sárar. Hann fann að hún sá það í augum hans og skynjaði að ótti óx innra með henni.

Á kvöldin þegar þau háttuðu töluðu þau ekki saman, margt var ósagt og andrúmsloftið mettað af ósögðum hugsunum, þýðingarmiklum og eldfimum. Þau rifust ekki, höfðu aldrei gert og deildu sjaldan um nokkuð. Það var ekki fyrr en annað hvort þeirra var sofnað sem þessi þagnarspenna sem óx á milli þeirra tók að sjatna.

Þetta kvöld höfðu þau legið lengi við hlið hvors annars, hann reisti sig á annan olnbogann en forðaðist að líta á hana. Hún hræddist hann og hann fann það svo vel, hann lagði yfir hana annan handlegginn og skorðaði hana enn frekar og leit snöggvast á hana en hann sá ekkert sem hann vildi sjá. Hann renndi hendinni upp að hálsi hálsi hennar eins tilviljunarkennt og hann hefði getað gert það. hann greip hana taki en lét ekki vel að henni að kyssti og hann hugsaði með sér hvað hún héldi að hann vildi. Hann vildi, þrengja takið og herti það og herti það meir, hún starði á hann og sagði ekki neitt, hann vissi að hún hefði aldrei sagt neitt og það gerði hún heldur ekki.

Hann hafði leitað eftir þessu taki áður en alltaf sleppt því snögglega því hann vissi ekki hvað það var sem leiddi hann þangað. Núna þegar hann hafði hert takið enn fann hann og sá óttan skína hræðilegan úr augum hennar, augun full af spurn og hræðslu. Hann hélt henni fastri og hún hreyfði sig ekki en hann sá að hún vildi fá sig lausa, andlitið varð þrútið og augun hennar stækkuðu en hann herti enn svo þau tóku að lokast smám saman.

Spennan innra með honum óx og var að brjótast út, hann fann hvernig það losnaði um hana og hvað hann æstist við það. Takið um háls hennar var þunglamalegt og máttleysislegt en það hertist þó og hann færði höfuð hennar fram af koddanum og enn leit hann ekki á hana. Hann vildi ekki sjá þetta andlit sem brosti aðeins eða varð kvíðið eftir hans eigin þóknun. Hann fann þegar hún hætti að reyna, þegar augun lokuðust og höfuðið lyppaðist út yfir stokkinn. Þrýstingurinn og kvöl þagnarinnar sem hafði hangið svo yfir honum var ekki þarna lengur en tómið, tómið stækkaði og hann hugsaði, hvað verður nú um mig?

Anna Lilja