Meistarinn og Margaríta Fyrir ekki svo löngu fór ég á leikritið Meistarinn og Margaríta sem er sýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Ég verð að játa að ég fór nú ekki af einskærum áhuga heldur spilar vinur minn í sýningunni, en ég kom þrátt fyrir það út alveg heilluð.
Leikritið er eftir Mikhail Bulgakov og gerist annarsvegar í Moskvu á fjórða áratugnum og hins vegar í Jerúsalem til forna.

Ég hef ekki lesið bókina og þurfti því að einbeita mér vel til að ná öllum nöfnunum, því að oft voru persónurnar kallaðar þremur mismunandi nöfnum, fornafni, eftirnafni eða viðurnefni. Persónurnar í leikritinu eru líka mjög margar og erfitt að benda á einhverja eina aðalpersónu, þó það mætti nú kannski nefna Meistarann, Margarítu, Woland eða jafnvel Jesú að því tilefni.

Mörgum sem hafa farið á þessa sýningu finnst seinni helmingurinn skemmtilegri, en hann inniheldur óneitanlega ekki eins mikið af flóknum texta og erfiðum tengingum. Ég get þó engan veginn greint á milli, mér finnst sá fyrri alveg jafn skemmtilegur og sá seinni, en þeir eru ólíkir.

Sýningin er svo sem ekkert léttmeti, um þrír tímar, mikill og flókinn texti, en tónlistin, sem var flutt af lúðrasveitinni Svani, gerði verkið einhvernvegin léttara og skemmtilegra en það hefði verið annars. Allir leikararnir voru frábærir, gerðu þetta vel, og varla hægt að segja að nokkur hafi staðið uppúr (eða niðrúr…) en þó verður maður að nefna Hjálmar Hjálmarsson. Hann var sá eini af leikurunum sem tók sér bessaleyfi til að breyta aðeins til. Hann spinnur inn í og svarar með nútímalegum orðum eins og ‘ókei’ sem varla var notað í rússlandi á því tímabili sem sagan gerðist, en hristir aðeins upp í leikritinu. Einnig má nefna að Kristján Franklín og Margrét Vilhjálms voru einstaklega góð. Að vísu fannst mér Elma Lísa vera síst af leikarahópnum, hún fann sig einhvern veginn ekki alveg.
Sviðsmyndin var ósköp einföld. Áhorfendur sátu í fjórum löngum röðum, tvær og tvær í senn, andstætt hvor öðrum. Þannig minnir sviðið kannski að einhverju leiti á sviðið í Rómeó og Júlíu. Sviðsmyndin var svo að mestu leiti byggði á fjórum hálfgagnsæjum tjöldum sem dregin voru eftir skábrautum í loftinu…. Kom æðislega vel út. Ég var líka ofsalega hrifin af myndvörpuninni sem var notuð til að lífga upp á sviðsmyndina.

Ég er í heildina bara mjög ánægð með þessa sýningu, hún er vafalaust ein af þeim top 5 sýningum sem ég hef séð. Ég á eftir að lesa bókina, og sýningin hefur nú kvatt mig til að setja hana á leslistann minn.

Þannig að endilega farið og kíkið á þessa sýningu í Hafnarfjarðarleikhúsinu.

A href= http://www.hhh.is/index/index_r2_c2.gif>Heimasíða verksins</a