Í bæ einum, sem kallast Frænakur á Vestara Fríslandi, gerðist það eitt sinn að ung börn fimm- og sex ára, telpur og drengir voru að leika sér saman.

Þau ákváðu að einn strákurinn skyldi vera slátrari, annar átti að vera eldamaður og sá þriðji átti að vera kind. Þá ákváðu þau að ein telpan skyldi vera eldabuska, önnur átti að vera aðstoðarstúlka í eldhúsi og vera með trog og hræra blóðið, eins og þegar blóð er tekið í blóðmör.
Slátrarinn, sem svo átti að vera, þreif nú til drengsins, sem átti að vera kindin, beygði hann niður og skar hann á háls með svolitlum hníf og aðstoðarstúlkan kom með trogið og lét blóðið renna í það.

Þá átti bæjarstjórnarmaður einn leið þar framhjá og sá þau endemi sem orðið höfðu. Hann þreif tafarlaust þann sem hafði leikið slátrarann og fór með hann inn í ráðhúsið og lét kalla saman allt bæjarráðið.
Menn sátu orðlausir, þegar þessum atburði hafði verið lýst fyrir þeim og vissu varla, hvað þeir ættu að gera, því að auðvitað vissu þeir að þetta væri ekki annað en óvitaverk.
Einn þeirra, aldurhniginn og spakur maður, gaf það ráð, að sjálfur yfirdómarinn skyldi sitja þar í sæti sínu með rautt epli í annarri hendir en Rínargyllingi í hinni. Síðan skyldi hann kalla drenginn til sín og rétta honum fram báðar hendur samtímis: ef drengurinn tæki eplið, skyldi hann vera sýkn saka, en ef hann hinsvegar tæki gullpeninginn, skyldi taka hann af lífi.

Þessu var nú framfylgt og tók barnið eplið hlæjandi og var því sýknað af allri sök.