Þar sem viðbrögðin voru góð með síðustu þjóðsögu þá ákvað ég að senda hugsanlega inn 2-3 sögur á viku í einhvern tíma hingað.

Svo er mælt, að þegar skóli var í Skálholti, hafi þar verið tvær skólaþjónustur. Þær voru báðar illar mjög í skapi og þungyrtar, ef því var að skipta. Ekki er þess getið, að þeim hafi komið illa saman. En svo bar til fyrir jólin einn vetur, að önnur þjónustan þurfti að fara eitthvað út, en veður var illt og bylur. Hún tekur þá nýþvegnar nærbrækur af einhverjum skólapilti, sem hin þjónustan þjónaði, því hún hafði ekki annað fat hendi nær til að fara í. Fór hún síðan í brækurnar, og urðu þær allar votar og óhreinar. Þegar hún kemur inn aftur, segir hún hinni þjónustunni frá og biður hana að misvirða ekki þetta tiltæki sitt við sig, þó hún hafi tekið brækurnar á laun við hana. En þjónustan brást reið við og atyrti hana. Eykst þetta svo orð af orði, þangað til þær heituðust, og sukku þær þá báðar niður í jörðina. Var önnur komin á hné, en hin upp í mitti, þegar að þeim var komið. Hlupu þá skólapiltar til og kipptu þeirri upp undir eins, sem grynnra var sokkin. Var hún þá borin burt. Síðan tóku þeir til hinnar, en hún var föst fyrir. Tóku þá tólf á henni í einu. Þá segir hún: “Tíu toga að neðan, tólf að ofan, og takið á betur, piltar.” Gátu þeir loks náð henni upp, og ætlaði það þó að ganga tregt.