Mér datt í hug að lífga aðeins upp á þetta áhugamál og þar sem þjóðsögur passa illa eða alls ekki við önnur áhugamál þá set ég þessa grein hingað.

Einhverju sinni kom guð almáttugur til Adams og Evu. Fögnuðu þau honum vel og sýndu honum allt, sem þau áttu innan stokks. Þau sýndu honum líka börnin sín, og þótti honum þau allefnileg. Hann spurði Evu, hvort þau ættu ekki fleiri börn en þau, sem hún var búin að sýna honum. Hún sagði nei. En svo stóð á, að Eva hafði ekki verið búin að þvo sumum börnunum og fyrirvarð sig því að láta guð sjá þau og skaut þeim fyrir þá sök undan. Þetta vissi guð og segir: “Það, sem á að vera hulið fyrir mér, skal vera hulið fyrir mönnum.” Þessi börn urðu nú mönnum ósjáanleg og bjuggu í holtum og hæðum, hólum og steinum. Þaðan er álfar komnir, en mennirnir eru komnir af þeim börnum Evu, sem hún sýndi guði. Mennskir menn geta aldrei séð álfa, nema þeir vilji sjálfir, því þeir geta séð menn og látið menn sjá sig.