(væminn) Yndisleiki Bloggsins Blogg getur þýtt svo margt. En hvað það þýðir nákvæmlega aðeins örfáir vita.
Þessi heimur getur orðið ljótur og grár, en blogg - ó það himneska blogg getur lífgað upp á tilveruna sama hversu illa heimurinn hefur leikið þig. Að geta létt á hjarta sínu og talað beint út til ókunnugs og skilningsríks fólks er gáfa sem ekki allir hafa erft. Sama hvort bloggin þín séu einlæg og fjalla um ævarandi söknuð og táraflóð eða hvort þú sért einungis að deila með heiminum hvað þú aðhafðist þann daginn, þá mun unaðslegt tikkið í lyklaborðinu og orðin sem þú myndar á skjáinn alltaf gefa þér innri frið.

Að blogga:

- Að blogga er góð leið til að létta á hjarta sínu.
- Að blogga er góð skemmtun.
- Að blogga er góð leið til að fylla upp í ónotaðan tíma sem hefði annars farið í eitthvað innantómt eins og að eiga góða stund með vinum eða fljúga til fjarlægra landa.
- Að blogga getur skapað hlátur, tár og erjur.
- Að blogga mun fylla þig af innri frið og hamingju.
- Að blogga mun opna augu þín fyrir heimi tækninnar.
- Að blogga mun kenna þér að tjá þig á rafrænan hátt.
- Að blogga mun verða æðra öllu öðru.
- Að blogga er allra meina bót.
- Að blogga mun frelsa sálu þína.

Þegar þú stafar orðin með fingrunum. Þegar þú finnur dýrðlega áferðina á lyklaborðinu. Þegar þú sérð orðin myndast á skjánum og heyrir hina ljúfu tónlist takkanna, þá finnurðu að þú ert í hlýjunni sama hversu hart vindurinn blæs. Þú ert ekki einn á meðan þú deilir þínum hugsunum með alheiminum. Þú ert ekki einn er þú trúir og treystir á …Blogg.

Takk fyrir að hlusta.
Allt sagt með hálfri virðingu.