Frekar um áhrif kælingar Frekar um áhrif kælingar.
Áður hefur verið fjallað um áhrif þess að kæla loftið sem kemur inn á vélina. En betur má ef duga skal því að það er fleira sem hægt er að gera til að minnka hita blöndunnar sem kemur inn á vélina.
Í fyrsta lagi þurfum við að reyna að minnka hitann sem er til staðar í vélarrýminu og hefur að sjálfsögðu áhrif á hita inntaksloftsins. Mikill hluti þessa hita kemur frá pústgrein og hafa menn prófað ýmislegt til að ráða bót á þessu. Ein lausn er að vefja pústgreinina með einangrandi efni, þetta er býsna áhrifarík leið en ekki vandalaus, því að ef illa er að verki staðið er hætt við að pústgreinin gefi sig mun fyrr en ætla mætti. Til eru sérframleidd efni til verksins og ber að fylgja leiðbeiningum framleiðanda til hlýtar.
Annað, sem ég veit til að keppendur í hinum ýmsu keppnum fyrir Austin Mini nota til að ná fram þessu auka hestafli, sem þarf til að vinna keppni þar sem strangar reglur eru fyrir hendi um hverju má breyta í sambandi við vélbúnað, er svokölluð kælidós (cool can).
Það er búnaður sem kælir eldsneytið áður en það blandast loftinu og er sprautað inn í brunahólf. Mjög einfalt er að smíða slíka dós, hún skal vera vel þétt og vel einangruð. Inni í henni er síðan koparpípa ásamt kæliefni, klaka þurrís eða hvað annað sem menn koma höndum yfir. Dósinni er síðan komið fyrir sem næst blöndung/innspýtingu, en þó ekki í vélarrýminu sjálfu.
Ég hef einungis séð þennan útbúnað í Austin Mini bifreiðum með blöndung, en það er að ég held ekkert því til fyrirstöðu að prófa þetta á öðrum bílum.
Ég fór síðan að hugsa í framhaldi af þessari kælidósar umræðu hvort ekki væri hægt að búa til svipaðan útbúnað í kaldloftsinntaki, þ.e. kæla loftið með t.d þurrís við loftsíuna eða eitthvað því um líkt og væri gaman að vita hvað öðrum bensínhausum finnst um möguleika á slíku og þá útfærslu á búnaðinum.
-Herra Stór!