Púst
Aðalóvinur pústkerfanna er bakþrýstingur. Bakþrýstingur verður til í óskilvirkum púst kerfum þ.e. pústkerfum sem hindra rétt flæði á einhvern hátt, en því er nú ver og miður að flest pústkerfi frá framleiðendum eru óskilvirk, einfaldlega af því að það er ódýrara í framleiðslu. Bakþrýstingur eykst með auknu vélarafli, því er mjög mikilvægt að laga pústið til ef menn ætla yfirhöfuð e-ð að breyta bílum sínum. Bakþrýstingurinn rænir nefnilega aflslagið þeirri orku sem fer í að þrýsta afgasinu út. Við viljum því hafa pústkerfi sem flæðir vel og með hljóðkúta og hvarfakúta sem hafa litla mótstöðu.
Rétt er að varast að hafa of sverar pípur í pústkerfum það veldur því að hraðinn á afgasinu minnkar og flæðið verður minna, afgasið flæðir nefnilega í skömmtum í báðar áttir í pústkerfinu og ef það fer of hægt geta skammtarnir rekist saman á vtilausan hátt. En með réttum lengdum og þvermáli er hægt að nýta þetta fram og aftur flæði til þessa að toga pústið út úr vélinni og þar með er nýtist orka vélarinnar til að knýja hjólin (eða fer í einhverja bölvaða vitleysu eins og miðstöð) Það er því miður ekki svo einfalt að til sé einhver einn réttur sverleiki fyrir pípur í pústi, það er mismunandi eftir því hvort menn eru að sækjast eftir meira togi eða hámarksafli og verður hver að gera upp við sig hvort hann vill frekar.
Af því að mannskeppnan ræður svo illa við mikil læti og hefur mikla samkennd með náttúrunni ákváðu menn að það væri sniðugt að dempa hávaða og minnka mengun úr bílvélum, hvort tveggja er hlutverk pústkerfisins og gerir það óskilvirkara fyrir vikið, menn hafa hins vegar náð mikilli leikni í að útbúa hljóðkúta sem skila sínu hlutverki vel m.t.t afls, hefur svokölluð “straight through” hönnun reynst best, en henni svipar til hljóðdeyfis fyrir byssur og er mjög vel flæðandi auk þess að vera ekki mjög hávær, ef maður vill. Hávaði er ekkert skilyrði í góðu og vel flæðandi pústkerfi og sýnist sitt hverjum þegar komið er að hávaðanum. Menn þurfa þó að halda sig innan einhverra marka til að geta ekið bílum sínum á almennum vegum.
Hvarfakútarnir eru ennþá frekar leiðinlegir og fjarlægja menn þá gjarnan . Menn skildu þó aldrei henda þeim og vera tilbúnir að fá endurskoðun þegar svo ber undir. Ef menn hafa tekiðð hvarfakútinn af er gott ráð að hafa bílinn VEL heitann þegar farið er í skoðun.
Það sem áður hefur verið sagt um lengd og þvermál pípna í pústkerfum á líka við um pústgreinar, oft nefndar flækjur, en þar viðhafa menn ýmsar æfingar til að ná réttum lengdum, það er til dæmis mjög sérstakt að sjá flækjur sem eru með jafnlangar pípur (equal length manifold) fyrir boxermótora og sést þá greinlega hvaðan íslenska heitið er komið. Flækjur eru mjög mismunandi eftir gerð véla og ber að skoða hvert tilfelli með tilliti til þarfa hvers og eins. Ég vil líka benda mönnum á að það best er að nota ryðfrítt stál (t.d. T304) í pústkerfi, þau eru dýrari en munu líklegast endast betur en eigandinn!

Sog
Víkjum nú að upptöku lofts en eins og flestir vita þurfa vélar súrefni til þess að geta unnið sitt starf og því meira sem vélin getur fengið af lofti þeim mun meira afli skilar hún, svo lengi sem hún fær benzín í réttu hlutfalli.
Loftsíur frá framleiðanda eru venjulega úr pappír og er skipt um þær eftir tiltekinn fjölda kílómetra. Þessar pappírssíur eru ágætar til síns brúks en flæða illa, sérstaklega þegar þær eru orðnar skítugar. Hægt er að fá síur sem passa beint í flestar gerðir bíla t.d. frá K&N, Pipercross og ITG, þær flæða betur og hreinsa betur en hinar og ekki nóg með það heldur er líka hægt að þrífa þær þannig að þó að þær kosti mikið borgar það sig á endanum. Það er þó ekki mikið afl sem menn græða á þessu kannski 4-5 hö í mesta lagi.
Einnig framleiða þessi fyrirtæki og mörg fleiri svokölluð “induction kit” sem kemur þá í staðinn fyrir upprunalegu loftsíuna og allan lotfsíukassann. Með þessu er upptaka loftsins yfirleitt færð yfir á kaldari stað t.d. alveg fremst við grill þá oft nefnd “cold air induction”. Þessi kæling á loftinu er mikilvæg vegna þess að því kaldara sem loftið er því þéttara er það og meira súrefni kemst inn á vélina. Þess má geta að fyrir hverjar 5,5°C sem hitastigið á loftinu er lægra, eykst afl vélarinnar um 1 %.
-Herra Stór!