Gleði mín í dag breyttist í pirring núna um kvöldmatarleitið. Ég keypti mér nefnilega í morgun Ford Focus 1,6i, svartan glæsilegan bíl. Keypti aðeins mikið dýrara en ég var að spá en hvað með það. Jæja, svo legg ég nýja bílnum úti á plani og horfi á hann heillengi og er ægilega ánægður með mig og bílinn og hringi í alla vini mína til að segja tíðindin.

Svo sit ég úti á svölum þegar ég fylgist með kerlingarskrukku einni sem er á rauðum Hyundai Accent og ætlar að leggja í stæðinu við hliðina á Focus-inum með þvílíkum stæl, misreiknar sig hroðalega og hægra framhorn á hennar bíl fer utan í vinstra afturhorn Focus-ins. Ef hún hefði ekki komið svona hratt inní stæðið hefði þetta verið skárra. (Þetta háskakvendi hefur sýnt það í gegnum árin að hún kann ekki að keyra, hefur t.d bakkað á gröfu sem var einu sinni að moka planið). Ég henti frá mér símanum og sígarettunni og hleyp niður nánast gargandi og þar stendur kvendið vandræðaleg og nuddar skemmt afturhornið á mínum bíl. Ég var nú aðeins reiður en áttaði mig á að það þýddi ekkert. Ég fæ þetta auðvitað bætt og þetta verður lagað en pælið í því, ég var búinn að eiga þennan Focus í 9 og hálfan KLUKKUTÍMA. Það verður ekkert gaman að monta sig af honum í vinnunni á morgun, og ég er ógeðslega spældur. :(

Niðurstaða: Konur kunna ekki að keyra, hvað þá leggja.