Það var strembin nótt hjá mér . Seint í gærkvöldi þegar ég var að fara heim úr heimsókn hjá vini mínum er búið að keyra þokkalega utan í Passatinn minn. Afturbrettið er mikið skemmt og meira segja ljósið er brotið. Greinilegt að þetta var eftir jeppa og nýskeð. Þegar ég stóð þarna fyrir utan, alveg í sjokki og bálreiður kom gamall maður sem ég verð endalaust þakklátur, og sagðist hafa séð hvítan samlitann Pajero jeppa keyra utan í minn bíl, og hann náði fyrstu stöfunum í númerinu. Ég brunaði heim, fór í bifreiðaskrána og setti inn leitarskilyrðin, Pajero hvítur og númer xx***. Það komu 5 bílar, allir úti á landi nema 2. Ég skrifaði niður heimilisföngin og brunaði til að skoða þessa 2 sem voru á Reykjavíkursvæðinu. Byrjaði að finna annan í árbænum sem stóð fyrir utan blokk, hann virtist ekkert hafa lent í neinu, svo bruna ég í Garðabæinn, endalaust lengi að finna götuna, og viti menn, hvítur Pajero, samlitur, breyttur fyrir 33” stóð við þetta hús . Ég dreif mig út og framstuðarinn var allur nuddaður á horninu. Bíllinn minn er eldrauður og greinilega mátti sjá rautt lakk þarna í myrkrinu. Ég var með stafrænu myndavélina mína og tók myndir.

Svo snemma í morgun fór ég þarna á staðinn, þá var jeppinn kominn inní bílskúr.

Fyrst kom feitur kall til dyra og skellti hurðinni á mig þegar ég hafði borið upp erindið, þá fyrst hringdi ég í lögguna, þeir ætluðu að senda bíl á staðinn sem kom aldrei svo ég bankaði aftur. Þar kom til dyra stór kona. Hjónakornin neituðu þessu alfarið en þegar ég var búinn að sýna þeim sættust þau á þetta. Kerlingaruglan sagði að henni hefði ekki dottið í hug að fara að tilkynna þetta, bæði var bíllinn minn illa lagður að hennar mati og hún vildi ekki missa fullan bónus.

Þannig að þetta reddaðist, ekki með hjálp löggunar í garðabæ eða Hafnarfirði, þeir nenna greinilega ekki að standa í svona smámálum. En það er líka greinilega til svona óvandað og ömurlegt fólk að því finnst ekkert mál að valda öðrum stórtjóni til að “missa ekki bónusinn”. Þarna var um að ræða velríkt fólk og þeim ætti ekki að muna um þetta.