(copy-paste af annari síðu)
Saga Porsche.

Ferdinand Anton Porsche fæddist 3. september 1875 í Maffersdorf, þorpi í Austurríki. (Núna er það partur af Tékkóslóvakíu og nafninu hefur verið breytt í Liberec.)
Atvinna Porsche fjölskyldunnar var blikksmíði og var Ferdinand ætlað að taka við af föður sínum eftir að eldri bróðir hans lést af slysförum. Ferdinand hafði ekki áhuga á blikksmíði heldur sýndi frekar áhuga sinn á vélfræðilegum hlutum. Úr varð að hann var sendur í Keisar tækniskólann í Reichenberg. Þar lærði hann ýmislegt um rafmagnið og árið 1893 hafði hann lagt rafmagn í gamla fjölskyldu húsið og meira að segja með dyrabjöllu.

Að námi loknu hóf hann störf sem rafvirki hjá fyrirtæki í Vín en skipti um vinnu 1898 og fór þá að vinna hjá farartækjaframleiðandanum Lohner sem framleiddi rafmagnsvagna til fólksflutninga. Kom þar rafmagnsþekking hans að góðum notum þannig að tveimur árum seinna (1900) kom fyrsti bíllinn með hans nafni á götuna. Það var sérverkefni sem Lohner verksmiðjunni hafði verðið falið af ríkum manni að nafni Hapsburgs. Vildi hann láta framleiða fyrir sig rafmagnsdrifinn hestlausan vagn. Bensínbílar voru allt of grófir og mikil óhreinindi sem þeim fylgdi. Var þessi bíll frumsýndur á heimssýningunni í París árið 1900 og bar þá nafnið Lohner-Porsche. Leysti Ferdinand þetta meistaralega af hendi. Orka þessa bíls var knúin af rafgeymum og var hann framhjóladrifinn með rafmagnsmótorum í hjólnöfunum og enginn gírkassi eða drifsköft og fyrsti framhjóladrifni bíllinn í heimi.
Setti hann hraðamet á honum í Austurríki og náði hann 57 km. hraða. Næsta farartæki sem var gert eftir þessari hugmynd var tunglbíllinn sem Bandaríkamenn smíðuðu rúmum 60 árum seinna. Ekki var Ferdinand samt að fullu ánægður með þessa hönnun og gerði hann nokkrar gerðir í viðbót. Rafgeymarnir voru allt of þungir og entust illa svo að hann breytti hönnunni árið 1902 og setti í bílinn bensínvél sem keyrði áfram rafal sem framleiddi rafmagnið fyrir rafmótorana í hjólunum. Einnig bjó hann til bíl með drif á öllum fjórum hjólunum og árið 1903 náði hann 114 km. hraða á honum. Á þessum bílum bætti hann stöðugt hraðametið og var valinn Bílasmiður ársins 1905 í Austurríki. Var þá nafn hans sem bílasmiðs orðið vel þekkt í Evrópu.

En löngu fyrir allt þetta hafði hann kynnst Aloisia Johanna Kaes og eignaðist með henni tvö börn, dótturina Louise (1904) og soninn Ferdinand Anton Ernst (1909), sem seinna fékk viðurnafnið Ferry.

Árið 1905 var hann ráðinn forstjóri tæknisviðs hjá Austro-Daimler framleiðandanum. Byrjaði hann að hanna vélar fyrir flugvélar og önnur loftskip. En fljótlega fór hann í að hanna bensínvélar og fyrsta vélin sem hann smíðaði var 30 hestöfl. Árið 1910 bjó hann til kappakstursbíl fyrir Henry prins af Þýskalandi. Var hann framúrstefnulegur á margan máta, með yfirliggjandi knastás, 4 ventlum og 2 kerti á cylinder. Var vélin í bílnum 5.6 lítra og skilaði 86 hestöflum á 1.400 snúningum á mínútu.

Á meðan á fyrri heimstyrjöldin stóð yfir 1914 & 1918 vann hann að hönnun ýmissa farartækja fyrir herinn, þar á meðal dráttarvél með drifi á öllum hjólum og var það byggt á gömlu hönnuninni með bensínmótor og rafal sem knúði rafmagnsmótor afl út til hjólanna. Einnig hannaði hann járnbrautalestar. Doktors nafnbótina hlaut hann árið 1917 og var það Tækniháskólinn í Vín sem veitti honum þá tilnefningu. Allar götur eftir það var hann alltaf nefndur Dr. Ing.h.c.F. Porsche.

Að stríði loknu voru breyttir tímar og hinn almenni verkamaður vildi líka eignast bíl og sá Ferdinand fram á að þar væri markaður fyrir minni bíla og ódýrari, en yfirmenn hans hjá Austro-Daimler voru honum ekki sammála. Þannig að ekkert var gert í málinu fyrr en árið 1921 að ríkur, Austurrískur kvikmyndaframleiðandi Sascha Kolowrat greifi, bað um að það yrði hannaður fyrir sig bíll sem væri með vél ekki stærri en 1 lítri að rúmmáli. Niðurstaðan hjá Ferdinand var &#8220Sascha&#8221 opinn tveggja sæta bíll með einum yfirliggjandi knastás, fjögurra cylendra en náði samt 145 km. hraða. Tveir svona bílar voru framleiddir og gekk þeim vel í kappakstri og enduðu þeir í 1 og 2 sæti í Targa Florio keppninni það árið. En ári seinna átti Austro-Daimler í rekstrarvandræðum og ákvað að hætta við hönnun þessa bíls. Þegar Ferdinand Porsche var tilkynnt þessi ákvörðun varð hann svo reiður að hann henti gull kveikjaranum sínum í forstjóraborðið og sagði upp á staðnum.

1923 fór hann yfir landamærin til Þýskalands og fékk sér vinnu hjá Daimler (ekkert skylt Austro-Daimler). Var hann ráðinn sem forstjóri tæknisviðs og með sæti í stjórn. Þremur árum seinna (1926) varð þetta fyrirtæki að Daimler-Benz. Hjá þeim hannaði hann hann 2 lítra vél sem hann setti á keflablásara og gerði að mjög vel heppnaðri keppnisvél. 1924 unnu bílar með þessari vél 1,2 og 3 sæti á Targa Florio keppninni. Fyrir það var hann útnefndur Heiðursdoktor frá Háskólanum í Stuttgart. Ekki dugði honum aflið í þessari vél og stækkaði hann hana í 6 lítra og var hún notuð í SS og SSK tegundum af Mercedes. Síðar var hún svo stækkuð í 7 lítra og skilaði hún þá 300 hestöflum og náði 233 km. hraða og var notuð í SSKL bílnum.

Steyr Motor Company of Austria bauð honum svo vinnu árið 1929, sem stjórnarmaður og yfirhönnuður. En vera hans hjá Steyr var ekki löng vegna þess að fyrirtækið sameinaðist Austro-Daimler en með þeim vildi hann ekki vinna.

Þá var ekkert annað að gera en stofna sitt eigið fyrirtæki og það gerði hann árið 1931, en þá var Porsche Konstruktionbüro für Motoren-Fahrzeg-Luftfahrzeug und Wasserfahrzeugbau stofnað. Eins og nafnið ber með sér þá var tilgangur félagsins að vinna að öllum þeim tækjum sem hreyfðust á lofti, láði og legi.

Fyrsta verkefnið sem fyritækið tók að sér var að hanna bíl með minna en tveggja lítra vél og var verkefninu umsvifalaust gefið nafnið Typa 7, vegna þess að þeir vildu ekki láta neinn halda að þetta væru þeirra fyrstu verkefni. Var þá búinn til bíll með 1.9 lítra 6 cylendra vél og var hann með vindustangarfjöðrun. Fljótlega fór að skila sér inn peningar fyrir einkaleyfið á þeirri fjöðrun. Alfa Romeo, Citroen, Morris og Volvo notuðu þessa fjöðrun en önnur fyrirtæki notuðust ekki við hana fyrr en einkaleyfi Porsche rann út 1955. Packard var fyrsta ameríska fyrirtækið til að notast við hana en Chrysler byrjaði á henni 1957. Enn í dag eru ótal bíltegundir sem nota þessa gerð af fjöðrun. Næsta verkefni fékk nafnið Typa 12. Seinna meir var fyllt inn í röðina þannig að öll númer stóðust.
Typa 12 varð seinna grunnurinn að Typa 60 sem varð að Bjöllunni sem allir kannast við.

Draumurinn um meiri hraða hafði ekki gleymst og á árunum 1934-1937 var unnið við kappakstursbíl sem var að lokum orðinn með 6 lítra vél og 16 cylendra og skilaði 400 hestöflum og náði 360 km. hraða sem var þá hraðamet á landi í heiminum.

Næstu ár fóru í það að vinna fyrir Hitler að hermálum, hannaði hann þar á meðal Tiger skriðdrekann og fjórhjóladrifinn bíl sem var byggður á grunni Bjöllunnar. Á stríðsárunum flutti hann verksmiðjuna frá Stuttgart til Gmund í Austurríki vegna sprengjuárásanna. Í lok stríðsins var hann handtekinn af Bretum en vegna þess að hann hafði aldrei verið flokksbundinn Hitler var honum sleppt. Fljótlega fóru af stað viðræður við Frakka um að hanna fyrir þá franskan fólksbíl, var þeim boðið í nóvember 1945 til Baden-Baden til viðræðna um þetta mál. Í þá ferð fóru Ferdinand Porsche, Ferry sonur hans og tengdasonur Dr. Piech, en þær fundarleitanir fóru út um þúfur. Og voru þeir allir handteknir og settir í fangelsi.

Ferry losnaði um mitt ár 1946 og fór hann þá strax að semja um frelsi fyrir hina og til að liðka fyrir lausn þeirra úr fangelsinu aflaði hann peninga með því að hanna einn kappakstursbíl fyrir ítalskan iðnjöfur Piero Dusio að nafni. Bíllinn var búinn 1.5 lítra 12 cylendra vél með drifi á öllum hjólum. Þessum bíl var aldrei keppt á en er enn til. Við undirskrift þessa samnings var hluti af gjaldinu 1,5 milljón franka send til Frakklands til að borga fyrir að fá þá látna lausa úr fangelsi.

Til að halda fyrirtækinu gangandi 1946-1948 framleiddu þeir meðal annars traktora en inn á milli var Ferry að vinna að næsta verkefni sem fékk nafnið Typa 356. Ferdinand og Piech voru svo látnir lausir úr haldi í ágúst 1947. Ferdinand sagði við heimkomuna að hann hefði hannað báða þessa bíla eins og þá sem Ferry hafði þá hannað.
Fimm 356 bílar voru seldir 1947-48 og í framhaldi af þeim voru 49 framleiddir árið 1949. Gerir það samtals 54 bílar en samt er til bíll með númerinu 57 þannig að eitthvað var bókhaldið ekki alveg í lagi. Sérstaða allra þessara bíla er að þeir eru með ál yfirbyggingu.
Var eftirspurn þá orðin svo mikil að árið 1950 voru framleiddir 500 bílar en sama ár fluttu þeir aftur til Stuttgart. Vegna þess hversu lítið til var af áli í heiminum að loknu stríði varð að smíða alla bílana með járn yfirbyggingu við þessari auknu eftirspurn. Í nóvember 1951 fékk Ferdinand hjartaslag og náði sér aldrei eftir það og lést 30 janúar 1952. Þau 17 ár sem 356 var í framleiðslu voru framleidd yfir 78.000 eintök. Á þessum árum varð bíllinn fyrir nokkrum breytingum bæði í vél og útliti.

Árið 1956 hófst undirbúningur að hönnun nýs bíls (911) Typa 695, átti hann að vera fjögurra sæta en samt með svipaða akstureiginleika og 356 en ákvað síðar á ferlinu að hætta við að hafa sætin fyrir 4 fullorðna. Ferrys, sonur Ferdinand Porsche III sá um útlitshönnun. Var ákveðið að hafa hann 6 cylendra vegna þæginda er fleiri strokkar gera. Hönnunarnúmer vélarinnar varð Typa 901. Var bíllinn sýndur á Frankfurt bílasýningunni og hér þá nefndur Porsche 901. Peugeot fékk útilokun á að Porsche fengi að nota númerið 901 af því að þeir töldu sig hafa einkaleyfi á að selja bíla með þriggja stafa tölu og núlli í miðjunni. Var þá 901 breytt í 911 og kom hann í fjöldaframleiðslu árið 1964. Til að uppfylla óskir markaðarins um 4 cyendra bíl þá var Porsche 912 settur í framleiðslu. Hann var raunar 911 með 1600 SC vélina úr síðustu útgáfu af 356 línunni. Salan á 911 gekk vonum framar og annaði verksmiðjan ekki eftirspurn. Fljótlega (1966) hófst þróun á nýjum bíl sem myndi taka við af 912 og fékk hann verkheitið Typa 914. Vegna gífulegrar sölu á 911 var ákveðið að vinna þetta verk í samvinnu við VW verksmiðjurnar. Porsche hannaði grind og útlit bílsins með VW vél og gírkassa. Var hann síðan seldur hjá VW umboðum sem “VW-Porsche”. Porsche framleiddi líka sína útgáfu ef þessum bíl en með 6 cylendra vél og fékk hann þar nafnið 916. Typa 914 og 916 komu á markaðinn 1969 og fékk Typa 914 gífurlega góðar viðtökur, sérstaklega í Bandríkjunum.

Er hér er komið í sögunni var þriðja kynslóð af Porsche kominn til valda. Ekki var almenn sátt um allar gerðir Porsche og stefndi þetta allt í óefni. Í júní 1971 var kallað til fjölskyldufundar þar sem ákveðið var að láta hvern og einn hafa hlutabréf í fyrirtækinu og Ferry varð sá eini sem eftir varð af ættinni með titilinn Formaður Stjórnar. Butzi stofnaði sýna eigin hönnunarstofu (Porsche Design) og Piech fór til Audi sem yfirhönnuður véladeildar (hannaði Audi Quattro).

En sagan gekk áfram. Bensínkreppan byrjaði um 1973 og var þá ákveðið að hanna eyðslugrannan 4 cylendra bíl. Fékk hann verkheitið Typa 924 og var það gert í samvinnu við Audi. Porsche hannaði bílinn en notast var við vél og drifrás frá Audi.

• 1975 byrjaði framleiðsla á Porsche 911 Turbo sem Typa 930.
• 1976 hófst framleiðsla á Porsche 924 árgerð 1976 og þó nokkrar nýjungar komu með honum. Var hann fyrsti vatnskældi Porsche bíllinn sem kom á götuna og gírkassi og drif var sambyggt og tengt við vél með drifskafti, þyngdardreifing bílsins var 49/51. Allir bílar sem Porsche framleiddi frá og með 1976 eru með yfirbygginguna heit galvanis húð sem lengir líftíma járnsins mikið.
• 1978 hófst hönnun á arftaka á 911 sem fékk vinnuheitið Typa 928 en framleiðsla hans byrjaði 1978 og var með 8 cylendra vél staðsett að framan og gírkassan sambyggðan við drif að aftan.
• 1979 kom Porsche 924.
• 1983 var arftaki 924 kynntur sem Porsche 944. Porsche 924 var samt framleiddur með smá breytingu til ársins 1988.
• 1984 fyrirtækið fór á almennan hlutabréfamarkað.
• 1986 kynntur Porsche 944 Turbo.
• 1989 fjórhjóladrifinn Porsche Carrera 4 kom á markaðinn.
• 1992 Porsche 968 kynntur sem arftaki 944.
• 1993 Ferry Porsche hættir hjá fyrirtækinu og lést fimm árum seinna eða árið 1998.
• 1995 framleiðslu Porsche 928 og 968 var hætt.
• 1997 Porsche Boxter (Typa 986) kynntur.
• 2003 Porsche Cayenne, jeppi á markað.
• Framleiðsla á nýjum sportbíl Carrera GT er í vændum en dagsetning liggur ekki fyrir.

Eins og menn ættu að hafa tekið eftir þá var arftakinn aldrei það vinsæll að hann tæki við og enn í dag framleiddur Porsche 911. Hann hefur jú tekið nokkrum breytingum sem voru helstar að 1997 kom hann með vatnskældri vél og nýjum framljósum.


Þetta er saga af hvernig Porsche varð til og stuttlega farið yfir helstu gerðir. Mun ég í öðrum greinum fara nánar út í hverja gerð fyrir sig.


Halldór Jóhannson(ekki ég einhver annar gaur ég gerði bara copy-paste)

Heimildir:

Porsche The Enduring Legend
Nicky Wright

Porsche
Mike McCarthy

Great Marques Porsche
Chris Harvey

Porsche Catalogs. A visual history from 1948 to the present day
Malcolm Toogood

The Porsche Book. A definitive illustrated history
Lothar Boschen og Jürgen Barth
Admin @