Af hverju sportbíll? Af hverju kaupum við okkur sportbíl? Svarið við þessari spurningu hlýtur að vera takmark bílaframleiðenda þegar ákveðið er að búa til sportbíl, því kaupendur eru jú grundvöllur fyrir framleiðslu. Markaðurinn ræður meiru um þróun sportbíla en hann gerir sér grein fyrir, og því þurfum við, markaðurinn, að setjast aðeins niður og velta fyrir okkur hvernig við viljum hafa sportbílana okkar. Við þurfum eiginlega að grípa í taumana áður en hlutirnir fara út í vitleysu. Sportbílaþróunin er, þó auðvitað með undantekningum, að missa marks. Á markaðinn streyma bílar sem eru hver öðrum hraðskreiðari og hafa fram að færa sífellt tilkomumeiri tölur, en vantar nothæft skemmtanagildi. Auðvitað er að einhverju leiti við bílaframleiðendur að sakast, en markaðurinn ber samt mesta ábyrgð.
Munurinn á sportbíl og kappakstursbíl á að öllu jöfnu að vera sá að kappakstursbíllinn hefur það að markmiði að fara sem hraðast yfir og sigra andstæðinga, meðan sportbíllinn á að veita þeim sem í honum eru sem mesta ánægju. En gerum við okkur nægilega vel grein fyrir þessum mismunandi áherslum? Erum við ekki sífellt að bera saman sportbíla á kappakstursforsendum?
Hugsum okkur tvo bíla, Toyota Supra TT mk4 og Toyota MR2 mk3. Nú spyrja sumir hvernig hægt sé að bera saman bíla þegar munurinn er nærri 200 hestöfl og aðrar tölur samkvæmt því? Vegna þess að við erum ekki að bera þá saman sem kappakstursbíla heldur sportbíla. Supran býður upp á 326 hestöfl og er fær um að rasskella flest allt sem á vegi hennar verður, en MR2 hefur ekki nema 138 hestöfl og gæti í besta falli hrist af sér nokkra heita hlaðbaka á góðum degi. Samt sem áður held ég því fram að MR2 sé frambærilegri sportbíll heldur en Supran, og þá fussa nú eflaust einhverjir og sveia. Þegar við berum þá saman sem sportbíla er munurinn sá að MR2 var hannaður til að skemmta þeim sem í honum eru, en Supran til þess að fara sem hraðast yfir og sigra andstæðinga. Þetta eru nákvæmlega þær ástæður sem ég minntist á áðan sem muninn á sportbíl og kappakstursbíl.
Svo við komum aftur að nothæfa skemmtanagildinu sem ég minntist á áðan, þá skiptir máli að geta skemmt sér á bílnum sem oftast, og við sem flestar aðstæður. Þarna á ég t.d. við að meiri hraðatilfinning er nothæfari kostur en meira afl (og þ.a.l. meiri hraði). Ef við hugsum okkur hraðatilfinningu sem mælanlegar einingar, þá er mun praktískara að vera á bíl sem nær 7 í hraðatilfinningu á 100km/h heldur en að vera á bíl sem þarf 150km/h til að ná sömu tölu. Minni hraði þýðir auðvitað minni hættu, svo ekki sé minnst á lægri hraðasektir. Að vera tekinn á 150km/h á Sæbrautinni er töluvert verra en að vera tekinn á 100km/h.
Annað sem skiptir máli í sambandi við nothæft skemmtanagildi er hversu auðvelt er að nálgast takmörk bílsins, að ná fram aksturseiginleikum án þess að þurfa til þess mikinn hraða og of sérhæfðar aðstæður. Þetta er samt atriði sem krefst jafnvægis, því bíllinn verður að hafa aðgengileg takmörk, og að hægt sé að leika sér á mörkum veggrips án þess þó að of auðvelt sé að keyra hann. ‘Aðgengilegt challenge’ neglir það nokkuð vel.
Menn þurfa nú samt ekki að vera með neina dómsdagsspámennsku eins og málin standa í dag þó að hin almenna sportbílaþróun sé á villigötum, það eru enn framleiddir alvöru sportbílar þar sem akstursánægja er höfð í fyrirrúmi og ennþá til fólk sem lætur ekki bjóða sér annað. En það þurfa fleiri að átta sig á málinu, og krefjast skemmtunar af bílnum sínum í stað þess að festast í tölulegum upplýsingum og kappaksturspælingum.
Þó að ég hafi nú aðallega verið að tala um alvöru sportbíla, þá má svo sem hugsa þetta á mörgum levelum. Þetta á við um fleira en fókuseraða sportbíla, því að akstursánægju er hægt að finna fyrir lítinn pening, og allt niðrí ódýrustu hluta markaðarins, þó það sé samt svolítið út fyrir efnið hérna. Og annað sem fer eilítið út fyrir upprunalega efnið: þegar við yfirfærum staðhæfinguna um að markaðurinn ráði þróun sportbíla yfir á íslenskar aðstæður er frekar hægt að segja að við ráðum þróun markaðarins hér heima og framboði alvöru sportbíla sem nú þegar eru í framleiðslu.
Eitt dæmi sem ég verð eiginlega að minnast á er samanburður á Ford Puma 1.7 og Honda Civic Vti, en þessir bílar eru tvennt mjög ólíkt þó að þeir séu á blaði ekkert annað en tveir litlir og sportlegir bílar. Til marks um það að íslendingar þurfi að hugsa sinn gang þarf ekki annað að gera en að bera saman sölutölur þessara bíla. Ég hef þessar tölur ekki undir höndum, en eins og allir vita seldist Civic Vti eins og heitar lummur hér á landi miðað við eitt eða tvö eintök af 1.7 Púmuni. Markaðsmálin spila auðvitað stórt hlutverk í þessu dæmi eins og alltaf, en það afsakar okkur samt ekki sem bíladellufólk sem ætti að vita betur en að láta ákvarðanir ráðast af auglýsingum. Puman býður upp á töluvert meiri akstursánægju en Civicinn, en það sést ekki á blaði. Puman hefur meira nothæft skemmtanagildi, þó að Civicinn komist hraðar yfir, sem er ákkúrat það sem málið snýst um.

Kjarni málsins: Kaupum við okkur sportbíl til að komast hratt, eða til þess að skemmta okkur?