2004: Verslunarferð Árið er 2004 og mig langar í nýjan bíl. Ég á ca. milljónkall inni á banka og get hugsað mér að taka smávegis bankalán ef þörf krefur.
Tjah, látum okkur nú sjá. Ég er á höttunum eftir sportlegum og skemmtilegum bíl sem er áreiðanlegur og kostar ekki of mikið að reka. Akstursánægja er algjört aðalatriði, og vangaveltur um staðalbúnað, topplúgur og glasahaldara eru allskostar óviðeigandi.

Listinn sem ég gerði inniheldur mjög mismunandi bíla, og er markmiðið ekki beinlínis að finna einhvern einn sigurvegara heldur að vega og meta kosti og galla hvers fyrir sig. Allir bílarnir á listanum ættu nokkurnveginn að fitta inní ‘undir 1500þús’ flokkinn eftir ca. 2 ár og sumir nokkuð örugglega í ‘undir milljón’ flokkinn.


Citroen Saxo VTS
Saxoinn er lítill, hrár og sprækur hot hatch af gamla skólanum sem hefur hlotið lof gagnrýnenda fyrir aksturseiginleika og skemmtanagildi. Hann er orðinn svolítið úreltur hvað varðar innréttingu og staðalbúnað, en það er eitthvað sem kemur málinu ekki við. Það sem skiptir máli er að þetta er mikill akstursbíll fyrir tiltölulega lítinn pening.
Verðið á Saxo VTS þessa stundina er oftar en ekki út í hött, stundum hálfri milljón yfir listaverði, en þeir munu eflaust lækka eitthvað á næstunni.


Subaru Impreza GT
Turbo Imprezurnar er nú þegar hægt að fá á góðu verði, og það er nokkuð víst að meira bang-for-the-buck er ekki að finna þótt víðar væri leitað. Sem allraveðra sportbíll er hann líka einn af þeim betri, og almenn akstursgeta eins og best verður á kosið.
Það eina sem hægt væri að finna turbo Imprezunni til foráttu er að þeir eru soddan bensínhákar.
Þetta eru áreiðanlegir bílar, og þjónustan er víst prýðileg. Maður þarf samt að passa sig svolítið við kaup á notaðri turbo Imprezu, að hann hafi verið þjónustaður reglulega og svo auðvitað að hann sé almennt vel með farinn. Það er nóg af þessum bílum til og því engin ástæða til að sætta sig við slæmt eintak.


Honda Integra Type R
Integran mun án efa ná klassískum status þegar fram líða stundir, því hér er á ferðinni einn af skemmtilegri akstursbílum síðari ára. Þetta er harður akstursbíll sem gerir engar málamiðlanir, vigtar um 1100kg og skilar 187 hestöflum við 8000 snúninga á mínútu. Hann býr yfir aksturseiginleikum sem enginn annar framdrifsbíll hefur náð að betrumbæta, (eða hvað? RS?) og er því að þakka lsd driflæsingu sem minnkar spól og kemur í veg fyrir undirstýringu, ásamt þrautprófaðri fjöðrunaruppsetningu.
Nýlegar Hondur eru áreiðanlegir bílar, og maður ætti ekki að þurfa að hafa áhyggjur af Integru Type R sem er búinn að fá góða meðferð. Það er samt alltaf spurning um framboð, því hann er frekar sjaldgæfur hér á landi og ekki hægt að ganga að honum vísum eins og t.d. Imprezunni.


Toyota Celica
7 kynslóð Toyota Celica leynir á sér, og undir fm957 útlitinu býr í raun hinn skemmtilegasti akstursbíll. Það má samt gagnrýna hann fyrir ýmislegt, innrétting er þakin ódýru plasti og afl er af skornum skammti. Málið með vélina í þessum bíl er ekki að hún sé beinlínis afllítil útaf fyrir sig. Hún snýst hátt, hljómar skemmtilega og dregur bílinn ágætlega úr sporunum, en hún er hreinlega ekki nægilega aflmikil til að nýta þá akstursgetu sem undirvagn Celicunnar hefur upp á að bjóða. Bíllinn höndlar mjög vel, stýrið er nákvæmt, grip prýðilegt og allt mjög vel balancerað.
Celican er á mjög svipuðu listaverði og Civic Vti af sömu árgerð, og Celican yrði án efa fyrir valinu hjá mér. Þjónusta og áreiðanleiki eru með því besta sem gerist, en eins og með Civicinn þá vantar karakter.


Alfa Romeo 156 2.0ts
Þótt Alfa Romeo 156 sé í stærri kantinum, gerður fyrir 4-5 manna fjölskyldu, þá er hann samt sem áður mjög skemmtilegur sem akstursbíll og gæti hæglega kennt nýjustu Gti hlaðbökunum ýmsa mannasiði.
Það sem kemur fyrst í hugann þegar ég hugsa um Alfa 156 er hvað hann hefur mikla sál. Hönnun að innan sem utan er klassísk, og maður setur hann strax í annan flokk en t.d. þýskir og japanskir keppinautar hans sem hafa ekki nærri eins mikinn sjarma.
Útgáfan sem yrði fyrir valinu hjá mér yrði 2.0 twin spark með beinskiptum kassa. Tveggja lítra vélin vinnur vel og gerir bílinn mjög balanceraðan og skemmtilegan. Selespeed skiptingin gerir ekki annað en að draga úr ánægjunni að mínu mati, beinskiptingin er alltaf best.
Bíllinn höndlar alveg með ólíkindum skemmtilega, stýrið er mjög nákvæmt og stutt er á milli stýrislása. Fjöðrunin er sportleg og stíf án þess þó að skapa óþægindi í rólegum akstri. Innréttingin er líka mjög skemmtileg, þægileg sæti, skemmtileg hönnun og efnisval.
Það eina sem hægt er að efast um er áreiðanleiki og þjónusta, en draugasögur hafa verið í gangi um leiðinlega galla og bilanir. Ég las þó einhverstaðar að þetta ætti aðallega við fyrstu árgerðina (’98 held ég), en síðan hafi hlutirnir batnað og ástæðulaust væri að hafa áhyggjur.
Alfa Romeo 156 er heldur stærri bíll en aðrir bílar á listanum, en höndlar eins og alvöru sportbíll og skýtur keppinautum ref fyrir rass hvað varðar hönnun og sjarma.


Toyota MR2 Spyder
Þriðja kynslóðin af ‘the Midship Runabout’ frá Toyota hefur verið að gera góða hluti allstaðar annarstaðar en á Íslandi, en hann seldist víst ekki eins vel hér og menn höfðu spáð. Það breytir því samt ekki að hér er á ferðinni hreinræktaður sportari og akstursbíll sem átti skilið að fá mun betri viðtökur hér á landi en raunin varð.
Sérstaða MR2 er staðsetning vélarinnar, sem gerir hann léttan og nákvæman í stýri, auk þess að skapa ákjósanlega þyngdardreifingu fyrir sportlegan akstur. Menn tala um hann sem Porsche Boxster fyrir almúgann, og ekki er leiðum að líkjast fyrir litlu Toyotuna.
Þetta er tveggja sæta bíll með lítið sem ekkert farangursrými, svo að ef menn ætla að nota hann sem aðalbíl verða þeir að vera ansi harðir.


Fiat Barchetta
Sjaldgæfur og afskaplega spennandi roadster sem fátt mælir á móti. Samkvæmt roadster hefðinni ætti hann að hafa drifið á afturhjólunum, en framdrifið virðist ekki hafa aftrað honum frá því að vera skemmtilegur í akstri.
Ég man bara eftir einum Fiat Barchetta á landinu, og sá var til sölu um daginn fyrir ansi hátt verð. Mér þykir nú samt ólíklegt að þetta sé sá eini sinnar tegundar hér á landi, en ef það eru til fleiri eru þeir örugglega ekki margir.


Honda Civic Vti
B16a vélin, sem finna má í Honda Civic Vti, er fræg fyrir afköst, endingu og sparneytni, svo að Civicinn hlýtur að teljast nokkuð skynsamlegur kostur. Skynsamlegur, en ekkert sérlega spennandi. Það sem Civic Vti hefur upp á að bjóða fyrir hinn áhugasama ökumann er öflug og kappakstursleg vél sem gerð er til þess að keyra í rauða botni og ekkert annað. Það er líka mjög auðvelt að keyra hann hratt, þægileg stjórntæki og ágætis aðstaða gera manni kleyft að kreista úr honum allt sem til er.
Ástæðan fyrir því að hann er ekki nógu spennandi þrátt fyrir ýmsa kosti er sú að ökumaðurinn hefur litla tilfinningu fyrir því sem er að gerast. Stýrið er dauft og það virðist alltaf vanta eitthvað oggulítið uppá. Hann byggir upp spennu fyrir einhverju sem lætur svo aldrei sjá sig.
Til samanburðar við bíla á svipuðu verði eru Alfa Romeo 156 og Toyota Celica mun skemmtilegri bílar. ’97 og ’98 árgerðirnar af Civic Vti eru reyndar að sigla í mjög hagstætt verð.


Mazda MX5
Mazda Miata, eins og flestir þekkja hana, er alvöru sportbíll. Bíllinn var tilraun Mazda til að endurvekja anda gömlu roadsteranna, Lotus Elan, MG Midget og Triumph Spitfire. Þetta þýddi tvö sæti, blæju og sportlega aksturseiginleika í léttum bíl á viðráðanlegu verði, sem er nánast fullkomin uppskrift að skemmtilegum bíl. Tilraun þeirra Mazda manna heppnaðist stórkostlega, og MX5 er orðinn klassískur sportbíll.
Ég var að spegúlera hvort Series 2 (‘98+) bílarnir færu ekki að nálgast 1500þús verðflokkinn, en það mun örugglega gerast á næstu tveimur árum. Þá erum við að tala um bíla sem fluttir voru inn nýjir af Ræsi, og eru yfirleitt ekki mikið eknir. Það eru til góð eintök af Series 1 bílum hér á landi, en eflaust hægara sagt en gert að finna gott eintak til sölu.


Ford Puma 1.4/1.7
Ford Puma er bíll sem menn verða að prófa til að skilja, því jafnvel með 1.4 vélinni er hann alveg hreint stórskemmtilegur. Hann liggur eins og klessa, undirstýring er nánast ekki til í dæminu, og tilfinning fyrir öllu sem gengur á er eins og best verður á kosið. Það er synd og skömm að ekki fleiri bílar með 1.7 vélinni hafi selst hér á landi, en hún ku gera Púmuna að ógleymanlegum akstursbíl. 1.4 vélin er samt enginn aumingi, og 90 hestöflin skila sér ágætlega í þetta litlum og léttum bíl, en hann á bara svo miklu meira skilið.
1.4 Puma er mjög skynsamlegur kostur, en ég er ansi hræddur um að aflleysið færi að segja til sín snemma.


Fiat Coupe Turbo 20v / Turbo Plus
Fiat Coupe er, líkt og Barchettan, frekar sjaldgæfur hér á landi, og erfitt að segja til um framboð. 5cyl túrbó útgáfurnar eru mjög spennandi bílar, ítölsk hönnun og skemmtilegir aksturseiginleikar. Turbo Plus með 6 gíra kassanum væri mest freistandi útgáfan, og ég veit um amk. einn slíkan hér á landi. Þetta eru bílar sem maður myndi eflaust grípa ef tækifæri gæfist, en líkurnar á því eru samt afskaplega litlar. Það mætti athuga með innflutning frá löndum eins og Þýskalandi eða Hollandi, en Fiat Coupe á sér dyggan aðdáendahóp í báðum þessum löndum.


Mér datt jafnvel í hug að fyrir þetta verð gæti Smart Roadster verið fýsilegur kostur, spurningin er bara sú hvort hann verði of dýr hér á landi, sem kæmi mér ekki á óvart.
En hvað eru menn annars að pæla árið 2004? Eða jafnvel 2005? 2006?