MG XPower SV 965 hestöfl. Ég horfði lengi á þessa tölu og velti því fyrir mér hvort um innsláttarvillu væri að ræða, því svo súrrealíska hestaflatölu er erfitt að sjá fyrir sér í götulöglegum bíl.
Í þeim greinum sem ég las er ekki mikið rætt um þessa tölu, en gefið til kynna að öflugasta vélin sem kaupendur geta valið sér verði umrædd 965 hestöfl og komi á götuna með nítrókerfi, hvorki meira né minna.

XPower SV var þróaður útfrá MG X80 hugmyndabílnum, og þó að X80 hafi verið í mýkri kantinum var XPower SV byggður frá grunni sem harðskeyttur sportbíll.
XPower, sem er ný undirtegund MG Rover Group, kemur til með að hýsa alvarlegustu aksturstæki MG, bæði keppnisbíla og götulöglega, með það að markmiði að styrkja ímynd MG sem sportbílaframleiðanda. Þeir hafa reyndar verið að skapa sér ágætis orðspor með línunni sem kynnt var í fyrra, en stefnan er greinilega sett alla leið á toppinn.

Við hönnun og uppsetningu fjöðrunarbúnaðar XPower SV fengu þeir til liðs við sig Steve Randle, sem hefur meðal annars unnið sér til frægðar að hanna fjöðrunarbúnað McLaren F1. Ekki er leiðum að líkjast.
Yfirbygging bílsins verður öll úr léttu trefjaplasti, og undir henni verður keppnishæft veltibúr sem stenst kröfur FIA akstursíþróttasambandsins.
Flatur undirvagninn, sem eykur loftflæði og niðurþrýsting, er með innbyggðum loftdreifurum að framan og aftan líkt og í hörðustu kappakstursbílum. Þetta er aðallega gert til að auka stöðugleika á miklum hraða, og var bíllinn prófaður rækilega á yfir 320 km/h á hinni frægu ítölsku Nardo kappakstursbraut, sem mikið er notuð við háhraðaprófanir á virkilega hraðskreiðum bílum.

MG XPower verður fáanlegur í tveimur útgáfum, SV og SV Club Sport, sem báðir eru tveggja sæta afturdrifnir kúpubakar(heh).

SV útgáfan er búin 4.6 lítra v8 vél með fjórum knastásum, sem skilar 326 hestöflum. Hún á að skila ca. 1450kg bílnum í 100km/h á um 5 sekúndum og ná allt að 270km/h.

SV Club Sport útgáfan kemur með 5 lítra v8 vél sem skilar 410 hestöflum og þeytir bílnum frá 0 í 100km/h á ca. 4.4 sekúndum. Hámarkshraðinn verður afmarkaður við 314km/h, sem hlýtur að gefa til kynna alveg ofboðslega hraðagetu bílsins.
Ekki er þó ætlast til að þú kaupir Club Sport útgáfuna endilega með þessari vél eða öðrum staðalbúnaði. Kaupendur verða hvattir til þess að velja saman hluti í bílinn sinn, og verður boðið uppá ótrúlegustu aukahluti. Bíllinn gæti orðið þægilegur sportbíll til daglegra nota eða götulöglegur kappakstursbíll af hörðustu gerð, allt eftir því hvaða hluti menn merkja við á pöntunarblaðinu sínu.
Vélarnar sem verður hægt að velja um verða á bilinu 326 – 965 hestöfl, að mér skilst.

Eins og ég nefndi í byrjun greinarinnar er þessi tala nær ótrúleg, en þetta las ég meðal annars á opinberri vefsíðu MG/Rover svo að sterkari heimildir er vart hægt að finna.
XPower SV var kynntur á bresku alþjóðlegu bílasýningunni nú fyrr í vikunni, og lítið er enn um hann að finna á netinu. Það verður mjög gaman að fylgjast með hvernig þetta tryllitæki kemur til með að virka, en bíllinn er víst væntanlegur á markað næsta vor, og mun kosta frá 65.000 pundum í bretlandi, sem er svipað verð og á t.d. 911 C4S.

Það má alveg örugglega búast við mun meiri upplýsingum og umræðu um þennan bíl á næstu vikum svo að uppfærslur á greininni eru vel þegnar ef menn komast á snoðir um eitthvað!


Ég komst á sporið á www.pistonheads.com, og studdist svo við www.mg-xpower.com, sem er official vefur, auk www.xpower-mg.com sem er spjallsíða.