Segðu frá fyrsta árekstrinum þínum! Þessi hugmynd er stolin af www.pistonheads.com og náttúrulega svo góð að ég varð að koma með þetta hér og fá ykkar sögur.

Það er spurning um að hafa þetta tvískipt, annarsvegar fyrsti áreksturinn, hvort sem þú varst í rétti eða ekki og hinsvegar fyrsta áreksturinn sem þú varst í órétti (nema náttúrulega að fyrsti áreksturinn hafi verið þér að kenna, þá þarftu bara segja frá einum… ehhh nema náttúrulega að þú hafi aldrei verið valdur að árekstri og bara keyrt á þig, því þá er bara einn líka).

Allavega þá þarf að lýsa þessu nákvæmlega og muna að telja upp allt sem skiptir máli, t.d. hvenær þetta var, færð, á hvernig bíl maður var o.s.frv…..

Nú til að koma boltanum af stað þá kem ég hér með minn fyrsta árekstur (en þeir eru orðnir þrír alls).

Það var skömmu eftir að ég var búin að fá bílprófið 1989, ég var að aka í eina hringtorginu sem þá var uppí Grafarvogi á Mitsubishi Lancer (1989) og það var fínasta færi. Pabbi var með mér í bílnum en ég man ekki í hvaða erindagjörðum við vorum. Allavega, ég er bara að aka í rólegheitum í hringtorginu þegar einhver dama á Peugeot keyrir aftan á Lancerinn, auðvitað var ég í rétti en vegna reynsluleysis og grandvaraleysis pabba míns þá slepptum við dömunni því okkur fannst ekkert sjá á bílnum. Þegar við þvoðum hann þá var smá beygla á svuntunni að neðan verðu, þessi beygla hefur fylgt bílnum alla tíð síðan.
Það má reyndar bæta því við að þetta var beyglugjarnasti bíll frá upphafi, það mátti ekki reka við á hann þá beyglaðist hann. hann var meðal annars með puttaför í skottlokinu og rassaför á frambrettinu auk þess að vera með dældir hér og þar eftir harðhentann bónmeistara.

Hinir tveir árekstrarnir sem ég hef lent í eru báðir aftanákeyrslur á minn bíl og í bæði skiptin í 100% rétti.

Sá í miðjunni var á Hringbrautinni þegar Volvo stoppar skyndilega á miðri hringbraut vegna einhvers sem ég man ekki hvað var. Allavega, ég næ auðveldlega að stoppa enda nýbúin að plokka naglana úr vetrardekkjunum. En vegna þess hve skyndilega þetta gerðist þá lít ég í baksýnisspegilinn til að sjá hvort ég sé öruggur þaðan frá, en þá sé ég bíl nálgast langt að og sé að hann er ekkert að hægja á sér…. ég blikka bremsuljósunum til að vekja athygli hans og svo sé ég hver er að keyra þann bíl, það var strákur sem ég vann einu sinni með sem er alveg ótrúlega “SLOW” og þegar ég sá það þá sagði ég við kærustuna “haltu þér því hann keyrir á okkur” og það stóð heima, hann þrumaði aftan á Mazda bílinn sem ég var á (323F GT 1992) og þrykkti okkur á Volvoinn!

Ekki mikið tjón en fúlt þar sem ég var bara búin að eiga bílinn í tvær vikur.

Reyndar lenti ég fyrst í árekstri fimm ára gamall og það í Vestmannaeyjum, hann var þokkalega alvarlegur þar sem frænka mín slasaðist nokkuð þegar hún fékk útvarpið í andlitið… en ég man lítið eftir því að öðru leiti.

komið endilega með ykkar sögur.