Ömurlegur og ósanngjarn áróður! Nú er mælirinn að verða fullur.

Hvern einasta dag heyrir maður eilíft væl í útvarp umferðarráði um hve hættulegur hraðinn sé. Nú er það nýjasta auglýsingar þar sem fullyrt er að menn sem aki hratt hafi lítil typpi! Sjaldan held ég að fé skattborgara hafi verið notað í eins stóra hópsvívirðingu…

Umferðarráð stimplar þarna alla ökumenn sem ílla niðurvaxna aumingja og um leið ályktar sem svo að allir sem hafi gaman af akstri séu karlar, en ekki konur! Hvaða vandamál glíma konur við sem keyra hratt???

Engin maður með heilu viti kemur til með að taka mark á þessu apparati með svona heimskulegum áróðri, og varla nein kona heldur.

Sömu meðulum er nú beitt á ökumenn (konur eru líka menn) og búið er að beita á reykingafólk um árabil. Ég er ekki að mæla reykingum bót, ég er hinsvegar að gagnrýna þær aðferðir sem beitt er við að ná tökum á vandamálum.

Hvert vandamálið? Vandamálið er væntanlega það að of mörg slys verða í umferðinni ár hvert, of mörg dauðaslys og of mikið fjárhagstjón. Hvernig stendur á þessu? Í einhverri auglýsingunni kemur fram að “gáleysislegur hraðakstur” sé orsök flestra slysa. Ég er fullkomlega ósammála þessari fullyrðingu því ég tel að hraðaksturinn sem slíkur sé ekki aðalvandamálið heldur GÁLEYSISLEGUR AKSTUR yfirhöfuð! Það er akkúrat mergur málsins. Hraðakstur þarf ekkert að vera gáleysislegur. Það er ekki sjálfgefið að það sé gáleysislegt að aka um á Grindarvíkurveginum á 110 kmh, eða 120 kmh eða 150 kmh. Það fer allt eftir ökumanni, bílnum og aðstæðum.

Því myndi ég segja að gáleysilegur akstur sé vandamál númer eitt, þar undir fellur að sjálfsögðu þegar menn keyra ekki eftir aðstæðum hvort sem það er of hratt eða of HÆGT!

Hvað er hraði? Og hvað er hratt? Og hver ætlar að taka að sér að dæma það. Er 90 kmh hratt? er 30 kmh ekki líka hraði þó það sé ekki mikill hraði? Er það að keyra fyrir mótorhjólalöggu í útkalli á 30 kmh ekki þá gáleysilegur hraðakstur? Eða hvað? Skiptir kannski ekki máli. En hvernig leysir maður vandamálið sem er gáleysislegur akstur?

Jú, það er ekki mjög flókið mál. Í fyrsta lagi þarf miklu betri ökukennslu. Það þarf miklu betri ökukennara sem bera meiri ábyrgð á kennslunni, ef það sannast að ökumaður hafi sleppt nemanda út í umferðina án nógrar kennslu þá á að svipta kennarann réttindum, alveg eins og læknir er sviptur sínum réttindum fyrir vítavert klúður.
Það þarf að bæta kennsluna sjálfa, til þess þarf betri fræðslu en ekki hræðslu. Það þarf góða akstursbraut til að kenna ökumönnum að bregðast við hálku, bleytu, yfir og undirstýringu o.s.frv. það þarf að kenna nemendum að keyra bílana á miklum hraða. Það mætti láta fólk stúdera hegðun í go-kart.
Það þarf að kynna fólki öryggisbúnað bílana, hvernig hann virkar og hvaða gagn hann gerir. Það þarf að kenna fólki að vera vakandi í umferðinni og það ætti ekki að líða slóðaskap í umferðinni. Það ætti ekki að sleppa neinum í próf fyrr en hann getur keyrt með öryggi um allan bæinn og það án þess að tefja aðra ökumenn eða valda hættu með sofandahætti.
Það eiga ekki allir að fá bílpróf! Sumir geta hreinlega ekki keyrt bíl almennilega alveg eins og sumir geta ekki lært að lesa.
Það eru ekki réttindi að hafa bílpróf. Það ætti að taka miklu harðar á þessu.
Það þarf umferðarbatterí sem vinnur markvisst í því að leysa vandamál í umferðinni og hættulega svarta bletti gatnakerfisins.
Það þarf pólitíkusa með skilning á mikilvægi einkabílsins. Það þarf betri almenningssamgöngur til að draga úr notkun bíla.
Það þarf að tryggja það að fólk geti endurnýjað bílana sína og átt öruggari bíla til daglegra nota.

Það er ekki til neins að stimpla þá sem eiga flottu og öflugu bílana sem dvergtyppi vegna þess að einhverjir aumingjar eru óöryggir í umferðinni með þeim. Þeir sem eru óöryggir í umferðinni eru það ekki af ástæðulausu, þeir þurfa að læra að keyra bíl!