Jæja þá er slysalausi dagurinn liðinn. Alls urðu 13 slys á höfuðborgarsvæðinu í gær meðan meðaltalið er 14-16. Ég held að meira að segja slökustu aðferðafræðingar myndu ekki reyna að halda því fram að þetta væri marktækur munur þannig að áhrifin af því að bæta “sýnileika” lögreglunnar í umferðinni eru engin. Kannski er maður of grimmur, það var jú leiðinlegt veður í gærkvöldið. Mér fannst nú samt frekar gróft hjá lögreglunni að vera með bláu ljósin á við hliðina á Miklubrautinni rétt hjá Skeifunni í gær. Er þetta leyfilegt? Lögfróðari menn en ég vinsamlegast látið mig vita.
Að því slepptu þá var upplifun mín af þessum degi dálítið blendin. Ég tók vissulega eftir því að fólk hagaði sér betur í umferðinni í gær heldur en í morgun. Ég er samt ekki viss um að athyglin hafi verið við umferðina en ekki við alla lögreglubílana og löggurnar sem sátu í þeim og virtust ekki gera nokkurn skapaðan hlut (þeir voru jú að gera sig sýnilegri sem í sjálfu sér er eitthvað). Sumir hafa eflaust hugsað um skattpeningana sína. Síðan í morgun var ástandið orðið eins og það var og jafnvel verra ef eitthvað er. Ökuníðingar borgarinnar voru komnir á fætur og ætluðu svo sannarlega að vinna upp tapaðan ökuníðingshátt í gær. Ég held að þeim hafi bara tekist það bærilega, til hamingju ökuníðingar!
Þetta leiðir mig að pælingu sem mér finnst ekki nógu sniðug. Ef við gefum okkur það að aukinn sýnileiki lögreglunnar myndi draga úr umferðarslysum hvað segir það okkur þá um hugsunarhátt ökumanna? Mín kenning er eftirfarandi, ykkur er svo frjálst að vera sammála henni eða ósammála. Ökumönnum finnst meira “vont” að láta löggunnar stoppa sig og fá sekt, puntkta og/eða leyfissviptingu heldur en að lenda í alvarlegu eignatjóni, líkamstjóni, dauðsföllum og/eða ævilangri fötlun annarra eða sín sjálfs. Setjum þetta nú á vogarskálarnir í smástund. Ég keyri og hratt og er stoppaður af lögreglunni og fá sekt. Vissulega fjárhagslegt tjón en ekkert meira um það að segja. Ég keyri og hratt, missi stjórn á bílnum, keyri framan á japanskan smábíl og bílstjórinn deyr og farþeginn slasast alvarlega og mun aldrei geta gengið aftur. Miðað við hvað lögreglunni hefur gengið illa að halda niðri umferðarhraða má álykta að þessir tveir atburðir séu ámóta ólíklegir.
Ég held að þetta snúist í rauninni um það hvort við metum meira veraldlega hluti (t.d. peninga) eða mannslíf og samvisku okkar. Foreldrar íhugið næst þegar þið setjist upp í bíl til að keyra barnið ykkar í skólann: hvort myndi ykkur líða próflausum eða barnlausum eftir þá ökuferð? I rest my case.