Subaru SVX Subaru XT Coupe var fyrsta tilraun Subaru til að framleiða 2 dyra sportbíl. Bíllinn kom fyrst á markað í USA í febrúar árið 1985 en í júní sama ár í Japan. Í Japan var hann seldur undir nafninu Subaru Alcyone en Alcyone er nafn á mjög skærri stjörnu í stjörnuklasa sem heitir Subaru á japönsku en Subaru merkið er einmitt samsett úr 6 stjörnum. Subaru Alcyone var hinsvegar seldur á öllum öðrum mörkuðum undir nafninu Subaru XT. Ekki hefur fengist staðfest hvort XT standi fyrir eitthvað ákveðið en margir bílaspekúlantar hafa leitt getgátum að þetta standi fyrir ExTream. Hvort það er rétt skal ósagt látið. Aðalsmerki Subaru XT var straumlínulöguð hönnun á yfirbyggingu en hún tryggði að CD loftmótstöðustuðull (CD = Coefficient of Drag) var einungis 0,29 sem var með því lægsta og gott ef ekki bara það lægsta sem náðst hafði á þessum tíma. Bifreiðakaupendur tók XT misjafnlega og almennt vakti bíllinn frekar litla hrifingu og var ástæðan einkum hið framúrstefnulega og jafnframt hálf misheppnaða útlit bílsins.

Subaru ákvað því að hanna nýjan 2 dyra sportbíl í samstarfi við Giorgetto Giugiaro hjá ItalDesign. Niðurstaðan var Subaru SVX en hann leit fyrst dagsins ljós á bílasýningunni í Tokyo haustið 1989 og ári síðar í Evrópu. Þar var hann sýndur sem hugmyndabíll og var óvíst hvort að bíllinn færi nokkurn tímann í framleiðslu. Bíllinn vakti hinsvegar slíka lukku að Subaru verksmiðjurnar ákváðu að hefja fjöldaframleiðslu á honum og komu fyrstu SVX bílarnir á götuna í Japan árið 1991.

Á meðan bíllinn var ennþá á hugmyndastiginu töluðu Subaru verksmiðjurnar um SVX sem “Active Safety” hugmynda bíl sem átti að innihalda allt það nýjasta í sjálfvirkum hátæknibúnaði. Má þar nefna raddstýringu á búnaði eins og loftræstikerfi, hljómflutningtækjum, farsíma og leiðsögukerfi. Framrúðan átti að vera upphituð en Ford verksmiðjurnar voru á sama tíma að reyna að hanna slíkan búnað og einnig voru hugmyndir uppi um að búa bílinn fjórhjólastýri. Ekkert af áðurtöldu varð þó staðalbúnaður í þeirri útgáfu SVX sem fór í fjöldaframleiðslu.

Þó að fyrstu bílarnir hefðu komið á götuna í Japan árið 1991 fóru þeir ekki í sölu í USA fyrr en ári seinna. Reyndar var um helmingur þeirra bíla sem seldur var þá í raun af árgerð 1991 en á þeim var enginn munur. Boðið var uppá 2 útgáfur, LS og LS-L sem var í raun LS með svokölluðum Touring aukapakka. Sá pakki innihélt leðuráklæði á sætum, leðurstýri, leðurhandbremsuhandfang, leðurgírhnúð, rafstillingu á framsætum, rafstýrða sóllúgu, léttara vökvastýri, upphitaða hliðarspegla og svo hljómtækjapakka sem innhélt ma CD og 6 hátalara. LS útgáfan kostaði þá 24.445 dollarar en LS-L útgáfan 28.000 dollara.

Báðar útgáfur voru búnar sídrifi á öllum hjólum sem stýrt var með rafeindastýrðum vökvaplötum. Í venjulegum akstri fóru 64% aflsins til afturhjólanna og 36% til framhjólanna. Það fór svo síðan eftir akstursaðstæðum hvernig aflið fluttist á milli hjólanna. Afturdrifið var búið vökvastýrðri driflæsingu.

Líkt og aðrir bílar frá Subaru er SVX með boxervél en í boxervélum liggja stimplarnir lárétt en í venjulegum bílum liggja stimplarnir lóðrétt, eins og flestum hér er kunnugt um. Vélin í SVX er sex strokka, 3.3 lítra, með 24 ventlum, tvöföldum kambásum og skilar 230 hö @ 5400 rpm og togar 228 Nm @ 4400 rpm. Eitt af því mörgu sem er sérstakt við vélina í SVX er að hún er með háspennukefli fyrir hvern strokk, sex alls, eins og tíðkast í kappaksturbílum.

Því miður þá var SVX eingöngu fáanlegur sjálfskiptur. Sjálfskiptingin gefur fjóra skiptimöguleika. Sparnaðar-, afl-, venjulega- og handskiptingu en þá getur ökumaðurinn notað sjálfskiptinguna eins og handskiptan gírkassa. Aflstillingin virkar þannig að þegar snöggt er stigið á bensíngjöfina skiptir gírkassinn sér við hærri snúning heldur en venjulega. Þegar þetta gerist kviknar á litlu ljósi í mælaborðinu sem á stendur “Power”. Sú saga um að þetta ljós gæfi á einhvern dularfullan hátt 30 auka hestöfl var ansi lífseig á tímabili en það er ekki rétt. Önnur lífseig saga um SVX er sú að lögreglan í Japan hafi fengið nokkra sérútbúna SVX bíla með twin turbo vélum. Þetta er heldur ekki rétt og hefur þessi bíll aldrei verið framleiddur með túrbóvél.

Á öðrum vígstöðvum var bíllinn einnig mjög vel búinn. Hann kom á 7.5x16“ álfelgum íklæddum 215/50VR16 Bridgestone Potenza heilsársdekkjum. Sæti, útispeglar og rúður voru rafdrifnar, hæðarstilling á ökuljósum var rafdrifin og að sjálfsögðu var skriðstillirinn á sínum stað. Í raun má segja að innréttingin í SVX bendi meira til þess að maður sé staddur í lúxus útgáfu af bíl heldur en í venjulegum sportbíl.

SVX er að mörgu leyti svipaður og aðrir japanskir sportbílar af svipaðri stærð. Þó er einn stór munur og er það athyglisverð útfærsla á hliðargluggum, sem eru tvískiptir, en opnanlegi hluti hliðarrúðunnar er felldur inn í efra hluta hennar og kemur því mjór listi yfir miðja hliðarrúðuna en þar falla samskeyti hennar saman. Þetta gildir bæði um hliðarrúðurnar frammí og afturí og báðar eru þær opnanlegar. Þessi hönnun á hliðarrúðu hefur fallið misvel í kramið hjá mönnum og hefur sumum einfaldlega fundist þetta lýti á bílnum á sama tíma og öðrum finnst þetta undirstrika framúrstefnulegt útlit hans. Hugmyndin með tvískipta glugganum var sú að menn gætu keyrt í rigningu með rúðuna opna án þess að hafa áhyggjur af því að rennblotna en mönnum mun nú víst hafa gengið misvel við að láta það heppnast. Og þá sérstaklega á stöðum eins og Íslandi þar sem rignir jafnvel lárétt. Aðalhugmyndin hefur þó eflaust legið í því að reyna að gera bílinn öðruvísi í útliti en allt annað á markaðnum á þessum tíma. Það tókst svo sannarlega en Subaru hefur ekki, svo undirrituðum sé kunnugt, boðið uppá sömu útfærslu á hliðargluggum í öðrum Subarubílum eftir þetta. Subaru kallaði þessi hönnun á glugganum ”Aircraft-inspired glass-to-glass canopy“

Bílablöð voru yfirleitt mjög hrifin af bílnum. Þó fannst mörgum hann vera í þyngri kantinum sem er rétt enda ein 1620 kíló. Hér fylgja 3 dæmi um review. 2 fyrri eru frá USA en það síðasta er frá Ástralíu.

”The SVX differs from other grand touring coupes in a number of important ways. Apart from the Porsche 911 Carrera 4 and Turbo - which cost more than twice as much - the SVX is the only one to offer full-time All-Wheel Drive“

”In fact, this all-season stormer comes into its own only when the flakes start to fly……. Weather reports lost their power to intimidate.“

”Pity about the weight, since this Subaru is potentially, one of the galaxy´s great cruisers“.

Það var dálítið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum markaðarins við þessum bíl. Hann þótti yfirleitt mjög vel heppnaður útlits, mjög vel búinn og svo var vélaraflið yfirdrifið, allavegana miða við þá Subarubíla sem áður höfðu sést, sem var dálítið athyglisverður punktur. Fólk var nefnilega almennt vant því að Subarubílar væru frekar hráir og kraftlitlir stationbílar sem væru hinsvegar mjög sterkir mekanískt séð. Þarna var svo allt í einu kominn einhver lúxussportbíll og því áttu sumir hverjir erfitt með að kyngja. Enda segir sagan það að bíllinn hafi ekki sest vel á hefðbundum Subarusölusvæðum í USA. Hann seldist hinsvegar mjög vel á stöðum þar sem Subaru var áður fáséður bíll og nefna menn oft Kaliforníu sem dæmi. Enda var þetta bíll sem tekið var eftir og sneri hausum á hverjum gatnamótum.

Á fyrsta ári sínu í sölu í USA, árið 1992, seldust um 5000 bílar og þar af voru 1500 af árgerð 1991. Svipaða sögu má segja árið 1993 en þá seldust um 4000 bílar og þar af 600 sem voru sérstakar afmælisútgáfur sem kostuðu 34.455 dollara. Afmælisbílarnir voru allir eins, þe LS-L útgáfa, vínrauð að lit og með beige leðurinnréttingu. Engar breytingar voru gerðar á milli 1992 og 1993 árgerðarinnar en þær var báðar hægt að fá í 5 mismunandi litum.

Árið 1994 voru hinsvegar gerðar róttækar breytingar á SVX, ekki þó útlitslega séð. Undirgerðum var þá fjölgað úr tveimur í þrjár og þar af voru tvær þeirra einungis framhjóladrifnar. Þær nefndust L og LS en þriðja undirgerðin var áfram fjórhjóladrifin og nefndist LSi. Allar voru þessar undirgerðir með sömu vélinni og svipað búnar. L gerðin var þó talsvert hrárri enda ódýrust og var td ekki með neinum ABS bremsum og heldur ekki sóllúgu. L gerðin kostaði 24.345 dollara á meðan LS gerðin var fáanleg fyrir 28.995 dollara. Fyrir LSi bílinn urðu menn að reiða fram heila 34.295 dollara sem var talsverð hækkun frá árinu 1992. Menn voru ekkert sérstaklega hrifnir af 2WD gerðinni og í heild seldust um 1700 eintök af SVX í USA þetta árið en þær voru þá fáanlegar í 6 mismunandi litum. Þak og skottlok var samlitað bílnum nema á þeim sem voru hvítir að lit. Þar var hvort tveggja sprautað svart. Þetta olli þeim útbreidda misskilningi að þeir bílar væru með glerþaki en það er ekki rétt.

Svipaða sögu er að segja frá árinu 1995. Engar breytingar voru gerðar á milli áranna nema að ekki var lengur hægt að fá bílinn í hvítum lit og hann kom nú á 225/50VR16” hjólbörðum. Verðið hélst svipað fyrir utan að verðmiðinn á L gerðinni var hækkaður um rúma 2000 dollara. Þrátt fyrir það jókst heildarsala vestra og endaði í 2000 eintökum.

Árið 1996 var framleiðslu á framhjóladrifnu útgáfunum hætt og má segja að Subaru hafi snúið sé aftur að sömu uppsetningu og var í gangi á árunum 1992 og 1993. Nú voru aðeins 2 gerðir fáanlegar, grunngerðin L og svo dýrari útgáfa sem hér LSi. LSi útgáfan hafði það framyfir LS útgáfuna að hún var búin léttara vökvastýri, leðursætum, rafdrifni sóllúgu, CD, upphituðum hliðarspeglum, fjarstýrðum samlæsingum og þjófavörn. Hljómar mjög kunngulega því að þetta er næstum nákvæmlega það sama og var í Touring pakkanum árið 1992-1993. Bæði L og LSi útgáfurnar voru fjórhjóladrifnar. Salan dróst enn saman og endaði í rúmum 1200 eintökum.

Árið 1997 var seinasta árið sem SVX var framleiddur og það var jafnframt í fyrsta og eina skiptið sem einhver útlitslega breytinga var gerð á bílnum á milli árgerða. Hún var reyndar ekki mjög róttæk og fólst í því að grillinu framan á bílnum var breytt lítillega. Enn var dregið út litamöguleikum og gátu menn nú einungis valið á milli 4 lita. Einnig var bíllinn nú afhentur á 215/50VR16 hjólbörðum. L gerðin kostaði 31120 dollara en LSi gerðin 36740 dollara. Salan dróst verulega saman og endaði í 640 eintökum.

Framleiðslu Subaru SVX var nú hætt. Á framleiðslutímanum höfðu verið framleiddir um 25000 bílar og þar af voru 14257 bílar seldir til USA en sölutölur við hverja árgerð hér að ofan miðast allar við USA. Um hina ca 10000 bílana er eftirfarandi vitað. Um 1000 eintök voru seld til Kanada en nákvæmari sölutölur eru ekki til þarlendis. Evrópubúar voru ekki mjög hrifnir af bílnum því að einungis 2478 SVX bílar voru fluttir inn til Evrópu í gegnum Subaruumboð. Þar af fóru 854 bílar til Þýskalands en Þjóðverjar voru nokkuð hrifnir af bílnum og fengu meira að segja sölubækling á þýsku. Einfaldur reikningur segir þá að 1624 bílar hafi farið til annarra Evrópulanda. Þá vitum við hér með til hvaða landa ca 17700 SVX bílar voru seldir. Hvað varð þá um hina? Jú, einhver slatti var seldur í Japan og svo fengu Ástralir talsverðan fjölda til sín og sér sölubækling eins og Þjóðverjarnir. Ekki eru til neinar tölur um söluskiptingu á milli Japan og Ástralíu. Af þessum 25000 bílum voru ca 7000 RHD, þe með stýrið hægra megin en restin, ca 18000 bílar var þá að sjálfsögðu LHD.

Það er ekki til margir Subaru SVX á Íslandi. Ingar Helgason flutti inn nokkra svona bíla fyrir nokkrum árum en ástæðan fyrir því var sú að þeir fengu þessa bíla á góðu verði og voru þeir seldir á um þrjár milljónir en undir eðlilegum kringumstæðum hefðu þeir átt að kosta nálægt fjórum milljónum.

Vitað er um 3 galla sem plöguðu þessa bíla og þá helst í byrjun framleiðslu. Í fyrsta lagi er það gírkassinn. Hann átti það til að ofhitna allsvakalega í árgerðum 1991 og 1992. Ástæðuna mátti rekja til ónógar kælingar á gírkassaolíu og svo var overdrive-ið dálítið hátt stillt. Þessu var kippt í lag frá og með árinu 1993 og þá með því að gírkassinn var látinn skila minna afli til hjólanna. Breytingin var vel mælanleg því að bíllinn var 1 sekúndu lengur að ná 100 km hraða. Opinberar tölur frá Subaru segja 7.3 sekúndur og er kvartmílan farin á 15.4 sekúndum.

Í öðru lagi eru það bremsudiskarnir að framan. Þeir eru í sjálfu sér nógu stórir en talsvert þunnir þannig að það var talsvert algengt vandamál að þeir verptust við mikinn hita, þe urðu missléttir með tilheyrandi titringi við bremsun. Þetta er svo sem ekki stórt vandamál og auðvelt að laga með öðrum diskum.

Í þriðja og síðasta lagi eru það hjólalegur að aftan sem eiga það til að endast stutt.

Fyrir nokkrum misserum fór að heyrast orðrómur um að SVX væri jafnvel væntanlegur aftur á sjónarsviðið. Hugmyndin mun vera sú að nota undirvagn og drifbúnað úr New Age Impreza og hanna nýjan 2 dyra sportbíl sem fengi nafnið SVX. Útlitslega séð yrði slíkur bíll ekkert líkur Impreza. Ekkert hefur komið fram um hvort Subaru hyggist hanna þennan bíl sjálfir eða endurvekja samstarft sitt við maestro Giorgetto Giugiaro hjá ItalDesign. Hinsvegar þykir líklegt að hönnðuðu að nafni Andreas Zapatinas, sem nýlega var ráðinn einn af yfirhönnuðum hjá Subaru, fái það verkefni að hanna þennan bíl en hann mun hafa komið ansi mikið nálægt hönnun bíla eins og Alfa Romeo 147, Fiat Barchetta ásamt Fiat Coupe.

Ekker hefur heyrst um mögulega vél en líklegast yrði 6 strokka vélin úr Subaru Outback fyrir valinu en ólíklegt finnst manni að 4 strokka vél yrði fyrir valinu enda var SVX alla tíð með 6 strokka vél. Heyrst hefur að Subaru hyggist markaðsetja bílinn sem svar Japans við Audi TT með áherslu á vélarafl og handling og það jafnvel í blæjuútgáfu. Þessi bíll kæmi aldrei á markað fyrr en seinni parts árs 2003.

Ef þessi SVX kemur til með að koma aftur á markað er tvennt sem verður nauðsynlega að laga frá fyrstu kynslóðinni. Í fyrsta lagi er það að hann verður að vera fáanlegur handskiptur og í öðru lagi verður að setja hann í megrun. 1620 kg er alltof mikin þyngd fyrir svona bíl ekki nema að hann verði með því kraftmeirivél en japanska heiðursmannasamkomulagið takmarkar hestaflatöluna við 280 hö eins og kunnugt er. Svo væri náttulega ekki verra ef hann væri 6 strokka.