Það er búið að skrifa mikið á Huga undanfarið um umferðarmenningu, öryggi í umferðinni og allt sem því tengist. Margt gott hefur komið fram og eins og alltaf sumt sem er ekki svo gott.

Undanfarið hef ég sannfærst æ meira um að hræðsluáróður, “umferðarátök” (almennt bara meiri áróður) og aukin harka í löggæslu gegn hinum almenna ökumanni séu ekki undirstöðuatriði í bættri umferðarmenningu og auknu öryggi í umferðinni. Ég ætla ekki að tíunda hætturnar sem leynast í umferðinni, kostnaðinn við öll slysin né blóðtökuna sem gerist í henni á hverju ári. Við vitum vel flest hve alvarlegt þetta mál er.

En hvað er þá hægt að gera til að bæta þau atriði sem ég nefndi? Ég er þess fullviss að hornsteinn framfara væri bætt og aukin menntun ökumanna. Er ég einn um það að finnast fáránlegt að ökuskírteinið mitt gildi fram á miðja þessa öld? Hæfni mín til að taka þátt í umferðinni hefur verið vottuð þangað til ég brýt gróflega af mér. Meira að segja ef ég veld slysi eru engin spurningamerki sett við hæfni mína til að stjórna bifreið. Þú borgar sjálfsábyrgðina, kyngir hækkun á tryggingunum og keyrir af stað…

Við erum ákaflega gjörn á það að bera okkur saman við nágrannalöndin og erum alltaf sem stoltust ef okkur tekst að fara eftir sambærilegum stöðlum og þar er gert. Ég segi að það sé kominn tími til þess að Ísland taki frumkvæðið einu sinni. Kerfið sem ákveður hverjir hafa leyfi til að aka bifreið ætti að taka til gagngerar endurskoðunnar. Það er ekki nóg að menntun og kennsla upprennandi ökumanna verði bætt heldur er kominn tími á símenntun ökumanna.

Áður en fólk rýkur upp til handa og fóta langar mig til að benda á menntun flugmanna. Öfgakenndur samanburður finnst sumum kannski en ég er viss um það að það eru meiri líkur á því að farast í umferðarslysi á Íslandi en líkurnar eru fyrir því að farast í flugslysi. Spyrjið ykkur sjálf hve marga þið þekkið sem hafa látist í flugslysi. Ég er viss um að fleiri en einn og fleiri en tveir sem lesa þetta hafa misst ástvin, ættingja eða kannski “bara” kunningja í bílslysi.

Fyrst ber að taka fram að eftirlit með flugumferð og öllu tengt öryggi hennar er mun stífara ferli en það sem lýtur að umferð bíla. En á endanum er það víst að ef flugmaðurinn sem stjórnar Boeing 747 þotunni er vanhæfur þá er voðinn vís og það skiptir litlu máli hve örugg þotan er, hve gott ástand hennar er eða hve vel flugumferðinni er stjórnað. Þess vegna eru flugmenn í stöðugri þjálfun og skilyrði fyrir því að þeir haldi starfi sínu eru ströng.

Ég er samt alveg viss um að meginþorri flugmanna eru engu betri ökumenn en við hin. Kannski stafar það af almennu kæruleysisviðhorfi gagnvart akstri. Besta vopnið í baráttunni við kæruleysi eru harðari kröfur um hæfni ökumanna. Reglubundin endurtaka á ökuprófi væri mikilvægt skref í átt að auknu umferðaröryggi. Okkur þykir yfirleitt meira vænt um það sem við höfum þurft að vinna okkur fyrir.

Það er ekki markmið þessarar greinar að setja fram hvert umfang svona breytinga ætti að vera nákvæmlega. Markmiðið er að vekja umræðu og kanna viðbrögð. Ég er ekki frá því að þetta sé baráttumál sem áhugafólk um bætta umferðarmenningu og -öryggi ætti að taka upp á sína arma. Ef aðilar eins og Umferðarráð og FÍB hafa ekki áhuga á að skoða tillögur sem þessar er kannski kominn tími á ný samtök til að berjast fyrir hag þeirra sem taka þátt í umferðinni.