Ég hef dálítið verið að spá í bensíneyðslu, rýrnun og allt slíkt enda nýbúin að skila skattskýrslunni.

Konan fór eitthvað að benda mér að það væri 100 þúsund krónum dýrara að reka bimman í bensíni á ári en það var að reka Imprezuna (sem var nú ekki ódýr í rekstri) og ég fór nú og velti þessu aðeins fyrir mér.

Bensín er ansi dýrt og útgjöld fjölskyldunnar á bilinu 30-40 þúsund í bensín á mánuði. Bílnum er meinílla við mikla umferð og rauðljós og það er sá liður sem hefur hvað mest áhrif á bensíneyðslu bílsins. Hann hefur verið að rokka frá 10 lítrum í langkeyrslu (sem honum líkar mjög vel) og í tæpa 20 lítra þegar allt er á kafi í snjó og umferð gengur hægt. Almennt er hann þó að eyða rúmum 16 lítrum sem ég er bara nokkuð ánægður með og á veturna má bæta rúmum líter við þessa tölu.

Það sem ég á við hér er að mér renndi ekki í grun hve mikill munurinn á eyðslu væri miðað við karakter vélarinnar, Imprezan sveiflaðist mun minna, hún hékk alltaf í 13-14 lítrum, alveg sama hvort það var sumar, vetur, mikil umferð eða lítil og hann fór ekki niður fyrir 10 í langkeyrslu heldur.

Bimminn er allt öðruvísi, eyðslan RÝKUR upp í mikilli umferð og á rauðum ljósum, en ef það er lítil umferð og þá er maður þyngri á bensínfætinum þá hefur það nákvæmlega ekkert að segja. Það er þetta sem ég á við með karakter vélarinnar sem er eiginlega þannig að maður er verðlaunaður með hóflegri bensíneyðslu þegar maður er duglegur að aka með þunga fætinum.

Subaru bíllinn eyddi bara alltaf því sama.

Ég átti líka Alfa Romeo en hann var mjög góður sparibaukur sem eyddi nánast alltaf 10 lítrum á hundraðið í bænum, alveg sama hver færðin var. Hann fór þó alveg niður í 7 í langkeyrslu og gat líka alveg farið upp í 12-13 ef maður var duglegur að gefa honum inn.

Í þessu sambandi hef ég verið að spá dálítið í þetta, semsagt samsetningu eyðslunnar. Við vitum öll að gatnakerfi borgarinnar er mjög eyðsluvænt hvað bensín varðar og það getur skipt heilmiklu máli hvaða leið maður velur til vinnu.

Það er líka nokkuð athyglivert að mér finnst sem allir hafa mjög óraunsæjar tölur yfir eyðslu sinna bíla. Fólk talar um að Toyota bíllinn sinn eyða 7-8 innabæjar og að Passatin sé með 10 lítra. Vinur minn á Passar og sá er alltaf með 12-14 í bænum og myndi ég telja það mjög eðlilegt miðað við svona stóran bíl.

Frá því að ég keypti fyrsta bílinn minn hefur hver einasti tankur verið fylling og alltaf mælt (án undantekningar, þetta er sérstakt áhugamál hjá mér) og því hef ég alltaf haft nokkuð góðan samanburð við það sem fólk telur að bíllinn sinn eyði og það er næstum án undatekninga tóm steypa sem fólk fullyrðir.

Annað atriði sem hefur haft mikið að segja er olían á vélinni. Ég hef alltaf skipt yfir á “mína” olíu þegar ég kaupi bíla en ekki fyrr en eftir að ég er kominn með reynslu á bensíneyðsluna. Við þau skipti hefur eyðslan minnkað sirka 2 lítra að jafnaði við það að fara úr venjulegri olíu í synthetíska olíu eins og Helix ultra.
Núna er bíllinn á Helix Ultra Racing 10/60 þar sem ég ákvað að prófað hana á móti Castrol 10/60 Racing sem hefur gefist mjög vel. Það er engin munur á eyðslu á þessum tveimur olíum frekar en við var að búast en hinsvegar er 30% verðmunur sem munur nú talsverðu við olíuskiptin.

Hér koma svo eyðslutölur þeirra bíla sem ég hef átt, meðaleyðsla.

Honda Civic 1300 DX 1989 9L pr 100 km.
Mazda 323F GT 1800 1990 10.7L pr 100 km.
Subaru Legacy 1800 ssk 1991 13.6L pr 100 km.
Mazda 323F GT 1800 1992 11.2 pr 100 km.
Renault Laguna 2000 ssk 1995 11.5 pr 100 km.
Mazda 626 2000 ssk 1987 11.5 pr 100 km.
Alfa Romeo 156 1.6 1999 10.5 pr 100 km.
Subaru Impreza 2000 ssk 1997 13.5 pr 100 km.
BMW M5 3600 1990 16.5 pr 100 km.

Ég held ég hafi ekki gleymt neinum bíl. En það eru svo fjórir bílar í viðbót sem ég hef notað að staðaldri en er ekki með eins góða mælingu á þeim.

Mazda 626 2000 ssk 1985 11.5 pr 100 km.
Lancer 1500 ssk 1989 11.5 pr 100 km.
Mercedes Benz A 1600 ssk 2000 8 pr 100 km.
Peugeot 206 1600 ssk 1999 11.5 pr 100 km.

Hér er merkilegt hvað Benzinn eyðir litlu en hann er reyndar notaður nokkuð við langkeyrslu, sömuleiðis er merkilegt hvað Peugeot bíllinn eyðir miklu.

Annað sem skiptir máli er bensín. Bimminn er búin að vera nokkuð mikið á V-power núna og eyðslan virðist ekki breytast neitt, hinsvegar gengur hann alltaf örðuvísi og ég hef trú á að þetta skili hreinni vél. Það er líka staðreynd sem ég er búin að sannreyna að tog á lægri snúning er meira á 99+ bensíni.

Sumardekk hafa líka ótrúlega mikið að segja, eyðslan jókst um leið og vetrardekkinn fóru undir bimman þót færðin hefði ekkert breyst. Það hefur líka verið mín reynsla með hina bílana og felst að öllum líkindum í meira viðnámi í grófari dekkjum.

Ég vona að ég hafi ekki verið of langorður. En mín reynsla er sú að japönsku bílarnir eyði talsvert meira en flestir halda, og þar minnist ég sérstaklega Suzuki Baleno 4WD sem ég hélt að ætti að vera sérstakur sparibaukur en þann tíma sem ég var með hann hékk hann í 14 lítrum á hundraðið.

Gaman væri svo að fá tölurnar frá ykkur……